Clapton - daginn eftir
9.8.2008 | 15:52
Brjálað stuð á Clapton í gær. Það er fátt skemmtilegra en að fara á vel heppnaða tónleika, og þessir voru það svo sannarlega. Eitt lag sem Heiða taldi upp í útvarpinu að líklegt væri að hann spilaði sem ég saknaði virkilega, það var White Room. Veit ekki hvort hann tekur þetta lag nokkurn tíma nú orðið, en ef hann gerir það ekki, þá ætti hann að hugleiða það, því hljómsveitiin sem hann er með núna veldur þessu meistarastykki alveg ágætlega, það er ég sannfærð um. Minna mál með Laylu (þó að Norðmennirnir hafi fengið að hlusta á hann spila það ágæta lag) nýrri flutningur hans á því lagi er of hófstilltur fyrir minn smekk, ég vil ekki heyra hann flytja lagið miðaldra og afslappaður, heldur finnst mér útgáfan þar sem hann var ungur og örvæntingarfullur miklu betri. Annars voru þessir tónleikar brjálæðislega blúslegir og það var virkilega gott. Og þá er ég aftur komin upp í Borgarfjörðinn og ánægð með það, sé ekki eftir að hafa tekið þátt í þessum merkisviðburði, sem tónleikar Clapton eru óneitanlega. Þetta er listamaður sem aldrei hefur hætt og hrakar ekki neitt (þótt athygli hafi vakið að hann var með ,,starfsmann í þjálfun" sem tók slatta af góðum gítarsólóum).
Athugasemdir
Gaman að lesa um þína skoðun á því hvernig á að spila Laylu (hjá henni Annó). Þú vilt greinilega hafa það ungt og örvæntingarfullt en ég er víst orðinn miðaldra og afslappaður!
Reyndar var frumútgáfa Dereks & The Dominos á laginu alveg frábær en ég held ekki að Clapton nái þeirri örvæntingu núna, sama hvað hann rembist.
Og ég saknaði líka White Room.
Matthías
Ár & síð, 9.8.2008 kl. 21:17
Jámm þetta voru góðir tónleikar, þó ég hefði viljað fá sæti og er frekar upptekin af stólaleysinu. Ég er alveg sammála þér með Laylu og White room hefði sko alveg mátt vera. Hefði reyndar viljað heyra miklu fleiri Cream lög en þá hefðu tónleikarnir verið lengri og ég hefði þá þurft að taka með mér klappstól...
Oddrún , 9.8.2008 kl. 21:36
Derek & the Dominos var auðvitað ævintýri, en ég get vel unnt Clapton þess að vera ekki ungur og örvæntingarfullur lengur. Ég þarf að hlaða niður slatta af Cream núna, er reyndar alltaf með góða vinyl plötu með Cream heima, en alltaf þegar ég ætla að ná mér í spilara þá er eitthvert vesen með það. En Cream, það var hljómsveitin.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.8.2008 kl. 23:07