Dýrðardagur í mörgum sveitarfélögum - og enn eru 27 gráður á útimælinn (sem er í skuggsælu umhverfi)
30.7.2008 | 19:52
Þetta er búinn að vera ótrúlegur dýrðardagur. Vaknaði við sól og blíðu og kláraði svefninn úti á vindsæng (eftir að hafa unnið fram á nótt). Dró tölvuna út á pall undir hádegið og vann í sólarsælunni þar til Gunna vinkona kom að norðan úr Austur-Húnavatnssýslu. við fengum okkur í svanginn en svo var haldið í leiðangur dagsins til að sækja ömmu hennar Katarínu, tengdadóttur Gunnu í flug. Við vorum búnar að ákveða að fá okkur kaffi á leiðinni á Súfistanum í Hafnarfirði og þar sátum við hálftíma lengur en við höfðum ætlað í steikarblíðu úti (auðvitað) vegna seinkunnar á flugi frá Frankfurt. Amman, sem er 84 eða 87 ára (munum hvorug hvort er) vippaði sér eins og unglingur úr tollinum og í bankann að skipta pening og svo ókum við hingað upp í bústað og eyddum smá stund hér, áður en þær héldu áfram norður í land. Klukkan var orðin hálf átta núna í kvöld og hitinn enn í 27 gráðum þegar þær lögðu í hann, en sem betur fór hafði þokunni létt, sem hafði hvílt yfir langmestri leiðinni að norðan þegar Gunna kom til mín hingað í Borgarfjörðinn. Tímasetningar eru knappar, því í nótt leggja Guðmundur og Katarína af stað suður og snemma í fyrramálið í frí til Tyrklands, en amman er meðal annars að koma til að hjálpa til við að passa Elísabetu litlu, sem er orðin ansi dugleg að hreyfa sig.
Á morgun er frábær spá hér í Borgarfirðinum en aftur á móti á að fara að rigna í bænum, þannig að ég hugsa að ég verði hér áfram fram á kvöld alla vega, kannski lengur. Á meðan ekki er málningaspá (spár hafa reyndar ekki alltaf gengið eftir þessa dagana og miklu betra veður en lofað hefur verið). Ég er gjörn á að kalla hitamælinn í Hafnarfirði bjartsýnismæli en þennan í Mosó grobbmæli, en sá síðarnefndi sýndi 31 gráðu upp úr sex í dag!!!!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:21 | Facebook
Athugasemdir
Þessi dagur hefur verið alveg með ólíkindum og margir sem betur fer notið veðurblíðunnar.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.7.2008 kl. 23:56