Þrumuveður í Rúmeníu ... eða þannig - eins og lítill jarðskjálfti á hlið

Stundum kemur hressilegt þrumuveður eftir sólríkan morgun og þannig varð það í dag. Hanna segir að þetta sé sennilega eitt voldugasta þrumuveðrið að undanförnu alla vega. Ég rétt slapp heim úr búðinni og af prent/ljósritunarstofunni, með mikilvægar glósur í lausagangi, lélega regnhlíf í fanginu og fjórar tveggja lítra vatnsflöskur á bakinu. Þrumurnar sem heyrast út um austurgluggann eru stundum í Rúmeníu, enda væri ekki nema korters keyrsla þangað ef vegurinn lægi beint í austur. Hraði þrumanna er öllu meiri. Eldingarnar voru vel sýnilegar i björtu og þegar veðrið var sem næst (sem sagt ekki handan landamæranna) og aðeins hægt að telja upp að fjórum milli eldingar og þrumu, þá nötraði fimmta hæðin hér í húsinu, þar sem við erum, allvígalega, þetta var eiginlega eins og lítill jarðskjálfti á hlið. Rúðurnar glömruðu afskaplega myndarlega, enda sæmilega stórar og gluggarnir ekki eftir íslenskum stöðlum, en tvöfaldir þó. Minn reyndar með fiskiflugu á milli sem stendur, af því þegar ég lokaði honum áðan, fyrir úrfellið, þá var hún stödd þar.

Og nú er sólin farin að skína á ný.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mikið öfunda ég þig að fá þrumuveður, finnst það alltaf ógurlega spennandi. Fegin að barnaverndarnefnd komst ekki í málið þegar ég vakti son minn einu sinni af værum blundi (10 ára) til að upplifa eina þrumuveðrið sem ég man eftir í Reykjavík. Það var reyndar ekki skóli daginn eftir ... en sama!

Knúsaðu Hönnu frá mér og ég vona að þið hafið það frábært þrátt fyrir annir. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.6.2008 kl. 19:46

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sammála, ég var að vísu orðin tvítug og liðlega það, þegar ég heimsótti foreldra mína sem bjuggu þá um stundarsakir í Frakklandi og það fyrsta sem mamma hlakkaði til að sýna mér voru mikilfengleg þrumuveður í fjöllunum í Auvergne. Það var stórkostleg sjón. Kvöldið sem ég kom hingað voru tignarlegar eldingar í kvöldhúminu, en því miður of fjarri (í áttina til Úrkaínu í það skiptið) til að þrumur fylgdu að nokkru gagni. Síðan hafa þrumuveður oftast komið síðdegis, áður en rökkvar, en samt flottar eldingar.

Og já, takk, við höfum það frábært!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.6.2008 kl. 21:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband