Ómannglögg kona í fýlu
8.5.2008 | 09:17
Pælingarnar um vináttu og fleira komu af stað frekari vangaveltum um samskipti fólks í sálartetrinu mínu. Ekki oft sem ég dett í þann fasann (alltaf upptekin) en gaman að prófa. Nema hvað, ég fór að hugsa um það hvað það væri gaman að hafa svona ákveðinn fjölbreytileika í samskiptum, jafnvel við vini sína. Ég er sem sagt EKKI með tékklista sem ég útfylli um skilyrði sem vinkonur mínar þurfa að uppfylla:
Þagmælska x
Góð sál x
Skynsöm x
Laus við afbrýðisemi x
Víðáttuskemmtileg x
Ekki langrækin x
og svo framvegis x
Ónei, síður en svo. Ég á vinkonur sem uppfylla þetta allt saman, aðrar sem hafa marga fleiri kosti, en líka nokkrar sem eru ekki endilega lausar við afbrýðisemi eða þagmælskar, svo dæmi sé tekið, en hafa óteljandi aðra kosti. Það er heldur ekki krafa. Eina sem ég þarf að átta mig á er að segja þessum sem eru ekki þagmælskar ekki leyndarmál sem ekki eiga að fara að flakk. Það er afskaplega auðvelt.
Og þá er auðvitað að máta sjálfa sig við þennan ekki-kröfulista. Og hmmm, ég er alla vega ekki langrækin, þótt ég sé afskaplega minnug, hins vegar, sem sagt: Man ef á hlut minn er gert en á furðu létt með að fyrirgefa þeim sem ég met að öðru leyti mikils.
Það hefur hins vegar komið fyrir að ég hef einsett mér að vera ekkert að kássast upp á fólk sem mér líkar ekki framkoma hjá, venjulega eru það þá reyndar einhverjir sem ég þekki ekki vel. Og þá vandast málið. Ég er nefnilega svo hrikalega ómannglögg og óskaplega fljót að verða jákvæð. Þannig að einu sinni setti ég minnismiða á náttborðið vegna manneskju sem hafði gert eitthvað voðalega mikið á hlut minn (og barnanna minna reyndar): Muna að ég er í fýlu út í NN! Það virkaði, en ég er viss um að ef ég hefði ekki sett þennan miða á náttborðið þá hefði ég brosað hringinn næst þegar ég hitti viðkomandi. Sem hefði auðvitað verð fullkomlega ótímabært. Eflaust hef ég brosað bæði blítt og oft til þessarar manneskju síðan þar sem ég er löngu hætt að þekkja hana í sjón.
Eitt sinn lenti ég í orðaskaki við náunga sem mér er ekkert sérlega um gefið, hitti hann svo á fundi og brosti mínu blíðasta þar til ég sá undrunarsvipinn á manninum, þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki Lionsfélagi mannsins míns, heldur hinn. Þannig að mórallinn í sögunni er, það þýðir eiginlega ekkert að rembast við að vera í fýlu ef maður er ómannglöggur, og mér leiðist líka svo rosalega að vera í fýlu. En ég lofa engu ... ;-)
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég á vinkonu sem eru þetta allt og það eru yndislegar vinkonur.
Ég aftur á móti hreinlega þoli ekki langrækið fólk, sérstaklega þegar það fer í fýlu ef að maður er ekki alltaf sammála. Ég er ekki langrækin og mun aldrei verða.
Linda litla, 8.5.2008 kl. 09:25
Langrækni og níska eru skelfilega leiðinlegir eiginleikar og ég viðurkenni að mér finnst þeir setja spor sín á karakter fólks svo um munar.
Ég man aldrei afhverju ég var fúl, gleymi því eins og gullfiskarnir.
Vinkonurnar mínar eru fullkomnar fyrir mig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.5.2008 kl. 09:39
Já, það er sem betur fer alveg ótrúlega erfitt að vera í fýlu og enn erfiðarar að vera langrækinn. Einhvern veginn hefur mér tekist að sneiða hjá vinkonum með þessa eiginleika.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.5.2008 kl. 09:43