Mein sem er innbyggt í kerfið
16.4.2008 | 23:08
Flestir munu sammála um að fiskveiðistjórnun sé nauðsynleg og ekki megi ofgera stofnunum. Hins vegar virðist sem eitthvert fólk - sem jafnvel tekur ákvarðanir um fiskiveiðistjórnun - haldi að það sé einhver lausn að vera með kerfi sem tekur ekki á brottkasti nema með takmörkuðu og fjársveltu eftirliti og kattarþvotti sem vonar að þetta sé nú ekki svo slæmt!
Meðan ég var að skipta mér af pólitík fékk rauk ég eitt sinn upp í pontu og talaði eitthvað um brottkast og fékk í kjölfarið símtal sem ég hef oft vitnað til. Það var frá einum af þekktustu útgerðarmönnum landsins sem lét sér sæma að öskra á mig í símann, eflaust eitthvað um að svona ,,stelpur sem hefðu ekki hundsvit á sjávarútvegi" ættu að halda kjafti. Ég öskraði á móti og við skildum í fullum fjandskap. Sótrauð kom ég fram og hlammaði mér á milli þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar og Steingríms J. sem litu forviða á mig. Ég hreytti út úr mér: Það hefur aldrei bröndu verið kastað í sjóinn! og sagði þeim hver heimildarmaður minn væri. Guðjón skellti uppúr og Steingrímur J. varð hugsandi á svip.
Ástandið hefur ekki skánað meira en svo að í stað þess að afneita þessari staðreynd, þá gera menn nú orðið bara lítið úr þeim. Man að Einar Oddur (áður en hann settist á þing) sagði eitt sinn á þingi fiskvinnslunnar að það væri einkennilegt hvað afli sem kæmi að landi væri alltaf alveg nákvæmlega af jafn stórum fiski, skyldu ekki veiðast fiskar sem væru af annarri stærð? Mest var hann þá að vísa til þess afla sem unnin var um borð í frystitogurum.
En þetta var þá. Margt hefur breyst og nú er lag að fá þjóðarsátt um fiskveiðimál, og þótt fyrr hefði verið, þjóðarsátt sem tryggir að allur afli komi að landi, að fiskvinnslulottóinu linni, kvóti fylgi byggðarlögum og vinnslu ekkert síður en útgerð og í kerfinu sé ekki hvatt til brottkasts eins og nú er. Tonnið sem komið er með að landi er jafn stórt og tonnið sem veitt er, þótt 400 kílóum sé kastað og aðeins 600 kíló komi að landi. Verðmætin eru kannski ekki þau sömu, en með hvertjandi aðgerðum til að fá undirmálsfisk að landi svo verðmæti aflans sé ekki enn einn hvatinn að brottkasti, mætti komast langt. Það ætti að vera hægt að reikna út skynsamlega meðalsamsetningu afla og jafna út á árið hjá hverju kvótahafa fyrir sig og kanna sérstaklega aðstæður ef aflasamsetning einhvers aðila er óeðlileg. Hjálpartæki gætu verið upplýsingar um mið og rannsóknir á aflasamsetningu á svipuðum slóðum. Sóknarmark er annað sem stundum er talin möguleg leið til að takmarka brottkast, ekki endilega óskaleiðin, en ef það gæti stemmt stigu við brottkasti þá væri það sannarlega vel þess virði - treysti fólk sér ekki í aðrar aðferðir.
Mórallinn í sögunni er, núverandi kerfi mælir ALLS EKKI réttan heildarafla og getur því ekki verið nógu góður grunnur að úthlutun heildarkvóta.
Miðað við núverandi ástand þá þyrfti að fara bil beggja, auka heildarkvóta til dæmis um helming þess afla sem nú er talið að sé kastað á brott. Þannig fengist hvatning og minni afli væri dreginn úr sjó.
Segir brottkast að aukast gífurlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Facebook
Athugasemdir
Það er alltaf jafn magnað þegar fólk er að hugsa í kílóum og tonnum. Við eigum að nota það og fara eftir því sem náttúran er að segja okkur, hún lýgur aldrei. Það er hægt að gera hlutina án þess að það sé kvóti á öllu sem er á sundi í kringum þetta land.
Hallgrímur Guðmundsson, 16.4.2008 kl. 23:22
Við erum yfirleitt sammála um grundvallaratriðin í fiskveiðistjórnun, Hallgrímur. Kíló eða tonn eru bara ein leið til að meta magnið sem er dregið úr sjó, önnur er að kanna hvernig stofnarnir hafast við, sú þriðja að takmarka þann tíma sem sóknin stendur (á grundvelli einhverra raka) - í rauninni finnst mér mestu máli skipta að það verði þjóðarsátt um að veiða það sem hafið gefur og ganga ekki of nærri stofnunum - og ALLS EKKI að kerfið ýti undir að afla sé hent, eins og núverandi kerfi gerir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 00:10
Eitt enn: Helst vildi ég setjast niður og fá að taka þátt í að skapa nýtt kerfi frá grunni, byggt á skynsemi og þjóðarsátt. Hins vegar sé ég það ekki gerast á morgun, en þetta sem ég er að stinga uppá má gera á morgun, hins vegar þarf að koma á vitrænu kerfi og á því þyrfti að byrja eigi síðar en á hinn daginn.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 00:12
Skoðaðu word skjalið í þessari færslu, þar er lagt til hvernig hafa má umhverfið í smábátunum, gaman væri að sjá hvað Líú hefur til málanna að leggja fyrir sín skip. Enn sem komið er hefur ekkert heyrst frá þeim bænum sem er að mínu mati ábyrgðarleysi. Hvatinn til að stunda brottkast með takmörkun á sóknardögum hverfur, það hendir enginn verðmætum þegar þau eru kominn um borð þegar svona kerfi er við lýði.
Hallgrímur Guðmundsson, 17.4.2008 kl. 00:24
Takk, ég mun gera það, enda margt gott komið úr þeirri áttinni og hef líka lengi stutt smábátaveiðar eins og þú veist, en kíki á þetta.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 11:59
Hvet sem flesta til að kíkja á linkinn sem Hallgrímur sendi, þetta eru fínar tillögur hvað varðar smábátana.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 12:04