Máttur og máttleysi auglýsinga

Dagskrárhefti sem datt inn um lúguna í dag var aldrei þessu vant lesið á heimilinu, venjulega fer það beint til mömmu, sem ekki fær svona ,,þéttbýlispóst" enda býr hún nokkra tugi metra frá skipulögðu gatnakerfi.

Nema hvað, ég sá þessa frábæru auglýsingu frá hreingerningarfyrirtæki þar sem það benti fyrirtækjum og húsfélögum á að það gerði fólki tilboð í reglubundnar ræstingar að kostnaðarlausu. Nú býst ég við að tilboðið sé gert að kostnaðarlausu en ekki að þrifin séu að kostnaðarlausu, en blessuð málfræðin gerði auglýsinguna skemmtilega tvíræða. Sú tilgáta kom reyndar fram á heimilinu að einhver myndi láta á þetta reyna, en líklega nennir því enginn.

Reyndar voru fleiri auglýsingar í þessu litla riti sem virkuðu vel, aðallega niðurtalning á nokkrum nýjum og gömlum sjónvarpsþáttum sem toguðu (ekki meira þó en svo að ég man ekkert hvaða þættir þetta voru, fyrir utan Grey's Anatomy sem er sárt saknað, hefst í apríl! og dagskrárritið sem nær fram til  16. apríl sýnir ekki tangur né tetur af nýjum þáttum úr seríunni). En á hinn bóginn verð ég að viðurkenna að aðrar dagskrárauglýsingar hafa þveröfug áhrif á mig. Svalbarði er gott dæmi. Eflaust er þetta vænsti þáttur, og Ágústa Eva gerði góða hluti með Silvíu Nótt og í Mýrinni, en þessar auglýsingar virka þannig á mig: Ekki horfa! Alveg sama þótt ég þykist elska absúrd húmor. Ég elska líka fyndinn húmor. En svo getur vel verið að ég detti niður í þennan þátt einn góðan veðurdag og hrífist með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

hehehe þessir bæklingar eru einmitt ekki heldur skoðaðir á mínu heimili, þeir fara beint í ruslið ásamt öllum auglýsingabæklingunum.

Ég á alltaf eftir að sjá mýrina, mig minnir að hún hafi fengið góða dóma. Ég ætti kannski að taka hana á leigu við tækifæri.

Eigðu góðan dag mín kæra.

Linda litla, 11.4.2008 kl. 08:12

2 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa helgi mín kæra

Brynja skordal, 11.4.2008 kl. 11:55

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mýrin var bara rosalega góð, lagði það á mig að sjá hana í bíó, en þetta er mynd sem þolir vel að vera skoðuð í sjónvarpi. Góða helgi báðar!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.4.2008 kl. 16:07

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Grey´s Anatomy hefst í raun ekki fyrr en í byrjun maí!!! Í lok apríl verður upprifjunarþáttur. Kannski er þetta auglýst svona til að fólk borgi áskriftina fyrir apríl, ég veit það ekki. Þegar svona dúllur sýna ekki einu sinni frá Formúlunni í fréttatímanum á sunnudegi, nokkrum klukkutímum eftir keppnina, heldur þarf maður að horfa á RÚV til að fá upprifjun, þá er ekki von á góðu. Verst er að svona níska og "samansaumskapur" virkar illa á fólk! Ég hef ekki íhugað í ansi mörg ár, hátt í 20, að hætta með Stöð 2 en undanfarið hef ég gert það. Veit um nokkra aðila sem lifa góðu lífi án hennar ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.4.2008 kl. 19:06

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir gagnlegar upplýsingar. Hmmmmmm! maður þarf að hugsa sitt ráð ...

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.4.2008 kl. 01:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband