Verður kannski jákvæð barátta um viðskiptavinina? Ef svo verður ætla ég að taka þátt

Áðan fór ég og fyllti bílinn minn. Sem betur fór tók litla, sæta bensínstöðin mín, Olís í Garðabæ, þátt í verðlækkun dagsins, svo ég þurfti ekki að fara annað. Þau höfðu nóg að gera í dag, en sem betur fór sýndi fólk í verki að þetta er það sem virkar. Það er svo margt sem veldur því að betra er að versla á einum stað en öðrum og notalegt starfsfólk er eitt af því, verð annað, vöruúrval, staðsetning og þjónusta eiga líka sinn þátt.

Það sem mér leiðast stórinnkaup og sérstakar verslunarferðir reyni ég yfirleitt að kaupa inn ,,í leiðinni" þegar ég á erindi framhjá þeim verslunum sem ég fer helst í. Fer oftast í Samkaup í Hafnarfirði, þar er vöruúrval nokkuð gott og verðlag á mörgum vörum þokkalegt. Mikið af tilboðum og þeim fylgist ég með. Fer svo í Bónus og Nettó ef ég er á þeirri leiðinni og kaupi það sem hægt er að geyma og er klárlega ódýrara. En ek ekki auka 5 kílómetra reglubundið til að ,,spara". Samt er ég ekkert sérlega meðvitaður neytandi, því miður. Og ekki nógu umhverfisvæn heldur, en reyni. Kaupi smá lífrænt af og til af því mér finnst það gott, en fokdýrt yfirleitt, umbúðasparnaðurinn felst í að setja bananana sem hanga saman ekki í poka, né heldur appelsínuna einu, sem ég keypti áðan. Plastpokunum á heimilinu hefur frekar fækkað, hvað sem veldur, ekki man ég eftir tauinnkaupapokunum sem af og til eru keyptir. Þeir eru hins vegar fínir til að flokka skjöl í og geyma afmörkuð eftir efnisþáttum. 

En þetta var nú útúrdúr. IKEA verðskuldar smá vink hérna. Ekki bara af því stofnandinn er ríkur og sparsamur Svíi, heldur af því þar á bæ hefur fólk dottið niður á alveg brilljant viðskiptahugmynd: Heiðarleika. Að standa við útgefin verð í Ikeabæklingnum. Ég er viss um að þau stórgræða á þessu. Þetta minnti mig alla vega á að tékka aftur á hvort stóllinn sem ég sendi email út af í janúar er loksins kominn (mér var svarað fljótt, vel og kurteislega og sagt að örvænta ekki, það myndi að vísu líða nokkrar vikur þar til hann kæmi aftur, en þessi vara yrði fáanleg áfram). Annars hefði ég kannski gleymt því. 

Fyrir löngu skrifuðum við Hildur Jóns, seinna jafnréttisfulltrúi í Reykjavík, innblásna forsíðugrein í VERU þar sem við bentum á þá stýringu á innkaupum sem neytendur hafa á valdi sínu. Þetta er enn í fullu gildi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Já það var sko nóg að gera á bensínstöðvum í dag, örugglega hjá öllum stöðvum nema hjá Shell þar sem að þeir voru ekki með í því að lækka verðið.

Ég er ánægð með IKEA að þeir ætli ekki að hækka verðið en þá færi líka blessaði bæklingurinn þeirra í rugl, enn alla vega, ánægð með þá var að versla við þá í fyrradag og á eftir að versla við þá meira, það er ýmislegt sem að mig langar í þarna hjá þeim.

Hafðu það gott Anna.

Linda litla, 2.4.2008 kl. 22:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband