Mikið hrikalega eru þessi American Idon maraþon á mánudagskvöldum löng á Stöð 2. Líklega þess vegna sem ég hef ekki horft fyrr ef frá eru talin brot af þáttunum meðan verið var að velja inn í þáttinn, og það var bara uppá skemmtanagildið.
En ég elska söngvakeppnir af því mér finnst gaman að uppgötva nýjar stjörnur, reyndar í réttum hlutföllum við þolanleika laganna sem eru flutt, sem oft er ekki upp á marga fiska. Það er smá hátíð að horfa á Bandið hans Bubba, þótt ég hafi ekki séð neitt alveg stórkostlegt enn, tvær ansi góðar stelpur og fínan Queen-lags flutning í næstseinasta þætti. En í kvöld passaði vel inn í planið hjá mér að horfa mig þreytta á sjónvarp af því ég ætla að vakna mjög snemma í fyrramálið og hafa góðan tíma til að koma mér í stuð áður en ég fer á merkilegan fund, eldsnemma. Svo ég settist og horfði á þetta American Idol maraþon.
Erna frænka spurði um daginn hver væri uppáhaldið mitt í American Idol. Ég hafði ekki hugmynd. Núna veit ég það. Ungi strákurinn sem söng Imagine (hvílíkt hugrekki) með svo flottri og þroskaðri rödd, og mikilli tjáningju. Glæsileg frammistaða, alla vega í þessum þætti. Margir stóðu sig vel, þó tókst nokkrum að finna mjög óáhugaverð ,,seventies" lög, sem er alveg óþarfi. Fullt af góðum lögum að moða úr frá þeim áratug, sem oft fellur í skuggann af ,,sixties"-lögunum, en mörg af þeim bestu sem kennd eru við sixties eru reyndar seventies lög, til að mynda bestu þungarokkslögin frá þessum árum, Zeppelin, (best of) Clapton og Deep Purple. Lítið hreyft við þeim menningararfi í American Idol. Ekki við því að búast kannski.
En sem sagt, þarna er fullt af virkilega hæfileikaríku liði með misgóðan tónlistarsmekk og einn sem ég held að hljóti að vera sérlega mikil vonarstjarna. Ekki víst að ég leggi á mig að horfa aftur á allt þetta mánudagsmaraþon, en á seinustu stigum þáttarins mun ég alla vega horfa, ef nóg verður eftir af góðu liði. Ekki hægt að treysta því, tvö af þeim bestu seinustu árin hafa bæði verið kosin út í fjórða eða þriðja sæti. Það eru Chris Daughtry og LaToya London. Þau eru að gera það gott núna skilst mér, ásamt auðvitað Jennifer Hudson, sem líka datt út of snemma. Svo hafa svona furðufuglar eins og Taylor Hicks staðið uppi sem sigurvegarar, ekki beint traustvekjandi. En vonandi fer þetta allt vel núna ... ég mun væntanlega fylgjast með áður en þættirnir hafa runnið sitt skeið.
Endurtek, það er gaman að fylgjast með góðum söngvurum og helst vil ég auðvitað að þeir fari að syngja eitthvað almennilegt, rokk og blús. Kosturinn við Rockstar Supernova var einmitt hversu mikið af góðum lögum voru í keppninni og svo var Magni auðvitað magnaður! Keppni þar sem hægt er að heyra tvisvar frábæran og ólíkan flutning á Creep er auðvitað ekkert nema snilld.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:08 | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér með creep, það var næstum betra hjá Magna en Radiohead hehe
Linda litla, 3.3.2008 kl. 23:00
Já, hann Magni var magnaður í Creep, ég hlustaði á það gegnum GSM í fyrsta sinnið en er auðvitað búin að marghlaða því niður, frábær flutningur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.3.2008 kl. 23:09
Það er ljóst að við eigum maaaargt sameiginlegt. Ég er fallin fyrir Idolinu og sagði við fólkið mitt þegar ég hlustaði á þennan strák: Það er ekki fræðilegur möguleiki að þessi strákur vinni ekki keppnina. Hann er ótrúlegur!!
Anna Ólafsdóttir (anno) 4.3.2008 kl. 00:02
Mér finnst ædólið æði, missti af því í gær þar sem ég lofaði dóttur minn að koma á enjo tuskukynningu og ætlaði ekki að kaupa neina tusku en endaði með fimm ,,ómissandi"! hehe eins gott að fara að þurrka af!
Horfði á þáttinn fyrir viku og þar var þessi ungi langbestur .. Ef hann heldur dampi vinnur hann örugglega!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.3.2008 kl. 10:33
Gaman að heyra að David þessi er ekki bara svona góður í eitt skipti, við erum greinilega orðin nokkur sem fylgjumst forvitin með ferli hans framundan. Og þótt hann sigraði ekki þessa keppni yrði hann meiri stjarna en hinir, eins og LaToya, Chris og Jennifer sýna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.3.2008 kl. 13:33