Í gegnum bloggið er draumsýn um lítilvægi staðar og stundar að rætast. Ég skal skýra þetta aðeins. Mér hefur alltaf þótt það spennandi við netið og möguleika þess að geta haft samskipti við fólk án teljandi fyrirhafnar óháð búsetu og án þess að vera njörvaður við að samskiptin eigi sér endilega stað á sama tíma.
Í tölvunarfræðinni lærðum við ýmislegt skemmtilegt um þetta, meðal annars að sundurgreina samskipti eftir því hvort þau væru ,,óháð stað, háð tíma" (msn og irkið t.d.) ,,óháð stað, óháð tíma" (tölvupóstur) og svo framvegis. Varð aldrei mjög virk á irkinu, nota tölvupóst auðvitað gríðarlega í vinnu og einkalífi, msn, fjarfundatækni og alls konar dót.
En það er í rauninni á blogginu sem ég finn mestan muninn. Er kannski farin að kynnast einhverjum ágætum bloggara, ýmist með því að vera í samskiptum eða bara með því að lesa bloggið hennar/hans reglubundið þegar allt í einu kemur í ljós að hún er stödd á Hellu (eða vinnur þar alla vega) og hann er að moka sig út úr snjóhúsinu sínu í Vestmannaeyjum einmitt núna í morgun. Og svo eru það samskiptin við ættingja og vini nær og fjær, Erna í Ameríkunni og Ólöf í Borgarfirðinum, eru bara innan seilingar.
Akureyringarnir eru reyndar flestir vel skilgreindir frá upphafi, það hefur aldrei farið á milli mála hvar nafna mín (í bloggfríinu sínu) býr, eða Ingólfur, Hlynur og þau öll, né heldur að Gurrí býr uppi á Skaga og sækir vinnu í bænum og jafnvel undirrituð sem Álftnesingur er nokkuð augljós. Steina í Danmörku, jú það hefur líka verið nokkuð ljóst, alla vega þegar veðráttan berst í tal (til hamingju með þennan góða vetur í vetur, Steina).
Þegar sms-ið náði þessari gríðarlegu útbreiðslu sem raun bar vitni kom það flestum í opna skjöldu. En einfaldleikinn og frelsið sem sms bjóða uppá skýrðu það. Bloggheimar eru annars eðlis, ég var búin að blogga í eitt eða tvö ár og hafði reyndar byrjað fyrr, áður en ég datt inn í samfélagið hér á Moggablogginu. Þróunin hér hefur verið að nokkru önnur en ég hélt, en ég er með, fáa skugga ber á þessi samskipti og mikið af notalegum viðburðum, stórum og smáum, segja mér að þetta séu bara ósköp fínir heimar. Og svo er þetta svo fljótlegt, einfalt og skuldbindingalaust allt saman!
Athugasemdir
Flottur pistill nafna. En af því að þú talar um bloggfrí nöfnunnar þá er staðan núna sú að konan er hætt í kommentafríí og fer vonandi að hætta í bloggfærslufríi (kollurinn er eitthvað tómur þessa dagana eftir vinnutörnina).
Anna Ólafsdóttir (anno) 4.3.2008 kl. 10:05
Notalegt að sjá þig komna aftur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.3.2008 kl. 13:29