Reykjavik - Fisher - Spasskí og allir hinir strákarnir okkar! Hugleiðingar eftir próf
19.1.2008 | 19:28
Fyrst smá í leiðinni um handboltalandsliðið. Ég náði seinustu mínútunum, sem voru greinilega ekki þær skemmtilegustu, en skemmtilegar þó. Og bara gaman að fá þá á fullu trukki. Það verður gaman að horfa á fyrri hálfleikinn í endursýningu, búin að frétta af þessum dæmalausu tölum! Var búin að fá sms frá Ungverjalandi til að segja mér að fara að drífa mig að horfa, en ég var að koma úr prófi sem ég hef litla tilfinningu fyrir því hvernig gekk. Mig vantar nefnilega helst 7 í þessu fagi, og mér var bara hreint ekki ljóst um hvað var verið að spyrja í sumum tilfellunum, þannig að ég hef litla hugmynd um hvort markmiðið næst, ekkert gefið í þeim efnum. Þetta próf er þó miklu minni hjalli en það sem ég náði fyrir jól, ég get hækkað mig í öðrum fögum í staðinn eða endurtekið þetta til meiri hækkunnar. Á staðna einkunn í því, sem er of lág.
En þá að aðalefni pistilsins. Það eiga nefnilega margir sínar Fisher-minningar og mín er mjög skemmtileg, segir nefnilega mikið um hversu rosalega merkilegt þetta heimsmeistaraeinvígi Fisher-Spasskí var. Tveimur árum eftir einvígið var ég nefnilega á ferð í gömlu Júgóslavíu, í gömlu Austurlandahraðlestinni, sem fór alla leið til Mið-Austurlanda en ekki bara til Feneyja eins og þessu uppgerða, uppskrúfaða. Kryddlykt og fjölbreytt mannlíf. Og um miðja nótt var vegabréfaskoðun í skugga mikils lestarslyss, sem átti sér stað á brautinni á móti okkur. Júgóslavnesku landamæraverðirnir voru aldeilis ekki á því að það væri til land sem héti Ísland. Bentu á passann minn og sögðu að það væri ekki til land sem héti: Eyja (Island) og þetta væri bara plat-passi. Ég reyndi að sannfæra þá um að þetta land væri til og fram var dregið Evrópukort. En hvað var að finna efst í vinstra horninu? Ekkert Ísland, bara ekki neitt! Nú voru góð ráð dýr, en þá datt mér eitt í hug: Reykjavik-Fisher-Spasskí! sagði ég, og benti á útgáfustað vegabréfsins míns sem var sem betur fór Reykjavík en ekki Hafnarfjörður, eins og það hefði átt að vera. Aha, sögðu landamæraverðirnir, Aha, Reykjavík, Reykjavik-Fisher-Spasskí, og ég var ekki vefengd meira.
En guði sé lof fyrir að Júgóslavar eru líka miklir skákáhugamenn, eins og Íslendingar. Það kom sér að vísu ekki vel fyrir Fisher þegar hann vogaði sér að tefla þar í landi fyrir liðlega áratug, upphafið að útskúfun hans frá fyrrverandi heimalandinu og handtöku og fangelsisvist í Japan. Þeir sem stóðu að heimkomu Fishers til Íslands eiga heiður skilinn og ég gæti sannarlega glaðst ef hann myndi hvíla á Þingvöllum, fín hugmynd, kemur í ljós hvort það verður eitthvað úr því.
Athugasemdir
Dásamleg saga um júgóslavnesku landamæraverðina Ég á líka minningar um Fisher-Spasský ævintýrið. Þær tengjast myndinni sem birtist af vinkonu minni og Fisher í lokahófinu (hún er í Mogganum í dag). Annars voru bræður mínir á kafi í skák á þessum tíma þannig að það snerist allt um þetta heimsmeistaramót. Einvígi allra tíma er líklega réttnefni.
Anna Ólafsdóttir (anno) 19.1.2008 kl. 21:57
Ég man eftir því þegar þjóðin sló í takt með skákinni.
Ester Sveinbjarnardóttir, 19.1.2008 kl. 22:22
Þetta var spes tími í sögunni. Ég var reyndar undrandi á því að Mogginn væri ekki búinn að taka viðtal við vinkonu þína, Anna ;-)
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2008 kl. 10:29
Því miður, Anna mín, ég teldi það hreina móðgun við þjóðina og þar með mig og þig, svo ekki sé minnst á framliðna garpa eins og Einar Ben og Jónas Hall, ef þessum ameríska misþroska snillingi yrði holað niður í heiðursreitinn á Þingvöllum -- jafnvel þó hann hafi kunnað mannganginn! -- Þá fyrst yrði niðurlæging heiðursreitsins algjör, hvað sem líður þvaðri um danskan slátrara sem þar kunni að hvíla innan um mulning úr dönsku leirtaui.
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 20.1.2008 kl. 13:19
Ég efast reyndar ekki um að þín hugmynd, Sigurður, verður ofan á, og Fisher muni ekki hvíla á Þingvöllum. Það er líklega litli anarkistinn í mér sem heillast af þessari hugmynd, en það er ekkert sniðugt ef það meiðir aðra, enda ganga flestar hugsjónir anarkismans útá frelsi sem ekki meiðir aðra, þannig að ég sætti við ágætlega við skoðanir annarra í þessu máli.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2008 kl. 14:32
Sigurður
Ein spurning við getum verið nokkuð vissir um að Einar Ben er þarna en hvað með Jónas, er hann ekki bara enn í garðinum hjástoðar?
Einar Þór Strand, 20.1.2008 kl. 15:14
Alveg rétt hjá þér Anna. Hvernig væri nú ef öll þjóðin hugsaði um dóttur Fischers, hana Jinky á Filippseyjum
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.1.2008 kl. 15:24
Vilhjálmur, þú nefnir reyndar nokkuð sem lítið hefur sést, gott innlegg. Og svo er það spurning með Einar Ben, hann var nú agnarlítið spes líka, en auðvitað snillingur, en ekki meir um það ...
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2008 kl. 16:11
Góð saga, flott að sleppa yfir landamæri út á Fisher Spasskí ...
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.1.2008 kl. 18:12
Æ nei Anna mín mér finnst ekki viðeigandi að grafa karlinn í okkar helgast þjóðgarði. Hvað hefur hann svo sem gert fyrir okkur eftir að hann flutti til okkar? Þegar dauðsfall hans á 'Islandi var tilkynnt hérna í Bandaríkjunum fylgdi fréttinni að hann hafi hrósað 9/11 árásinni á World Trade Center turnana í New York. Þó hann hafi átt í útistöðum við Bandaríkin var þessi framkoma hans mjög slæm og ekki viðeigandi.
'Eg á smá Boris Spasskí sögu. Hann lagði leið sína niður í Sport á Laugaveg 13 og ætlaði að kaup sér strigaskó. Þarna stóðum við frammifyrir þessum heimsfræga manni sem langaði til að fá sér strigaskó. Þvílíkur og annareins heiður að fá að afgreiða hann. Við gáfum honum strigaskóna og hann gekk út hæðst ánægður og við með sögu til næsta bæjar.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 21.1.2008 kl. 16:31
Hef sjálfa mig reyndar grunaða að hafa heillast af hugmyndinni um Fisher á Þingvöllum af því ég er mjög skeptísk á persónudýrkun, nema ef til vill þegar um kynlega kvisti er að ræða. En Fisher hafði sjálfur annað í huga og hvílir nú nálægt Selfossi, þar sem hann sjálfur vildi vera.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.1.2008 kl. 21:35