Í upprifjunarlandi
1.1.2008 | 23:34
Fréttaannálar, áramótaskaup, áhrifamikil kvikmynd ,,Syndir feðranna" og fleira hefur gert þessi áramót að miklum upprifunaráramótum, bæði um nýliðna og löngu liðna fortíð. Lítið horft á sjónvarp að undanförnu en á einstaka kvikmynd, og því hefur nærvera þessa sjónvarps- og útvarpsefnis, sem ég hef að vísu hlustað meira á en horft, verið mjög áberandi. Mér er reyndar tamara að horfa til framtíðar en fortíðar (þótt sagnfræðingur sé) og þetta fortíðarflipp þar af leiðandi svolítið yfirþyrmansi, ég er þó ekki að kvarta, það er stundum hollt að líta til baka.
Fyrst um kvikmyndina ,,Syndir feðranna" sem ég var ekki búin að sjá í bíói þannig að ég límdist við hana þegar við duttum niður á hana í sjónvarpinu, líklega snemma myndar. Þetta er fantalega góð mynd (stækkið letrið fyrir endursýningu í sjónvarpi!) um mikinn fantaskap og enn ein birtingarmynd þess máls sem kom upp á yfirborðið á liðnu ári. Þótt flestar þessara staðreynda hafi verið komnar fram, þá er myndin svo vel gerð að hún nístir enn á ný, og svona lagað má ekki liggja í þagnargildi, nokkurn tíma. Mér fannst sterk athugasemd eins Breiðuvíkurdrengjanna sem sagði að samfélagið skuldaði þeim alla vega menntun eftir málamyndakennslu. Hins vegar er ekki hægt að kaupa syndaaflausn.
Það sem hins vegar er hægt að gera er að læra af þessu og hlusta á þá sem hafa liðið fyrir afglöpin. Og við megum ekki gleyma því að eitthvað hliðstætt er kannski að gerast á Íslandi núna. Nú eru það ekki óharðaðir drengir sem eru fórnarlömbin heldur eru hér á landi núna allmörg fórnarlömb mansals og annarrar misbeitingar kvenna frá fátækum löndum. Spyrjið konurnar í Stígamótum og Kvennaathvarfinu. Réttleysið er ekki landfræðileg einangrum heldur einangrun vegna tungumálaerfiðleika, einangrun þeirra sem hafa hag af því að einangra réttlausar konur og einangrum vegna þekkingarleysis á réttindum í samfélaginu.
Fréttayfirlitin voru líka fróðleg og skaupið dugði mér til að hlæja, en heyrði þó óvenju mikið af því að fólk skildi ekki til hvers var verið að vísa.
Af fréttum liðins árs finnst mér að árið hafi verið ótrúlega viðburðaríkt, en það er efni í nýtt blogg, ef ég set mig í þær stellingar. Sé þó enn og aftur hvað hlutur Svandísar Svavarsdóttur var stór á árinu og hlakka til að fylgjast með henni á þessu ári.
Á gamlárskvöld vorum við hér heima, fjölskyldan mínus Óli okkar sem fór norður með 11 vinum sínum að heimsækja vinina þar. Kominn aftur í bæinn og ég er afskaplega ánægð með það, því það er ekkert grín að vetrarfærðinni gerandi. Mamma, Georg bróðir og Katrín Ólöf, yngsta dóttir hans, komu í mat í gærkvöldi og mæður okkar Ara báðar í dag, og við erum búin að hafa það alveg óskaplega notalegt. Heiða vinkona leit líka við í dag en átti von á gestum eins og við. Góð áramót.
Athugasemdir
Gleðilegt ár, elskan mín. Knús til ykkar allra.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 2.1.2008 kl. 00:01
Takk, takk.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.1.2008 kl. 14:14
Gott að eiga góðar stundir...Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir bloggvináttu á árinu sem er að líða....
Halla Rut , 2.1.2008 kl. 15:13
gleðilegt nýtt ár
Svala Erlendsdóttir, 2.1.2008 kl. 19:43
Góður pistill,ég horfði á Syndir feðranna(Skil ekki þetta nafn á myndinni) í gærkvöldi og get ekki annað sagt, en ég var og er agndofa, Bloggaði um þetta í morgun.
Svo núna í Kastljósinu í kvöld er dregin upp ein hryllingssagan: Hvað ætli "BARNAVERNDARNEFNDIR" séu búnar að eyðileggja mörg börn, getur skeð að þessi aumingjans kona, sem lét leiða sig út í viðtal, sem hún var engan veginn í stakk búin til að geta svarað fyrir sig á vitrænan og sennilegan máta, getur skeðað hún sé móðir ?
Ef svo er, er þá ekki full ástæða til að vorkenna börnum hennar. Af hverju var þessi vesalings stúlka sem átti nú nógu bágt fyrir, vistuð á meðferðarheimili, miðað við lýsingu á starfsháttum þar get ég ekki séð eða skilið hvaða erindi hún átti þangað. Eru svona heimili ekki aðallega fyrir það sem hafa verið kölluð"vandræðabörn" hvaðan kemur þessu fólki vald til að rífa börn burt af heimilum sínum,eiga þau ekki í nægum erfiðleikum fyrir, ég gæti skrifað um þetta í allt kvöld, en ætla að hætta hér.
Ég verð alltaf foxillur þegar þessar barnfjandsamlegu nefndir ( sem er réttnefni) ber á góma,þetta fólk skilur ekki hvað barnavernd þýðir í raun.
Ari Guðmar Hallgrímsson, 2.1.2008 kl. 22:04
Þetta var einstaklega vel gerð mynd og skilur mikið eftir sig, ef hún fær þá til að hugsa sem þurfa að gera það, þá er það vel, við hin þurfum að veita þeim aðhald. Það var alla vega staðið vel að verki að sýna fram á hversu margir reyna að þvo hendur sínar, ætti að vera dálítið áminning.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.1.2008 kl. 23:30