Pest, próf og frábærar fréttir af RRR

Hef verið heldur framlág seinustu þrjá dagana, vegna kvefpestar með hálsbólgu, beinverkjum og öllum fylgihlutum. Tókst þó að koma mér í próf í skelfinum mikla RRR, sem er erfiðasta fagið sem ég hef þurft að glíma við á minni skólagöngu, sem er þó æði fjölbreytt og skrautleg. Þótt ég væri heldur framlág í prófinu, þá fannst mér svona í aðra röndina að ég ætti að hafa náð því, en hinn möguleikinn var auðvitað að ég hefði misskilið nánast hverja einustu spurningu. Elísabet systir orðaði þetta mjög snyrtilega fyrir mig: Já, þú ert sem sagt örugg um að fá einkunn einhvers staðar á bilinu 2-8! Já, það var einmitt tilfinningin. Mitt á milli lá einkunnin sem ég þurfti að fá til að ná. Og ekki er að spyrja að kennaranum okkar, hann var búinn að fara yfir prófin seinni partinn í dag og ég náði, meira að segja ögn skár en ég átti von á. Jibbí, nú er hún gamla RRR-Grýla dauð! Ég hef verið dauðskelfd við þetta fag frá því ég fyrst heyrði um það, enda alltaf talsvert fall í greininni. Hins vegar er kennarinn alveg afbragðsgóður og það hefur sannarlega hjálpað.

Þá er að leggja í próflestur í næsta prófi, sem er léttara, en þarf þarf ég að ná hærri einkunn. Á raunar staðna einkunn í því fagi en þarf að bæta mig talsvert. Ég hef líka sinnt RRR betur í vetur en þessu fagi, enda meira í húfi. Og stóri sigurinn er í höfn. Nú þarf ég bara að finna út hvernig ég les fyrir próf með bullandi pest, eitt praktískt atriði er að byrja á að lesa vikublöð kennarans, sem eru mjög ítarleg, því þau fara betur í rúmi en þriggja kílóa kvartfermetra bækur. Svo skríð ég upp úr þessari pest eins og þeim fyrri, held samt að þetta sé fyrsta pestin sem hrellir mig á þessu ár, og ekki nema eðlilegt að hún komi á próftíma, þá er álagið mikið og varnirnar kannski aðeins rýrari en annars.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Anna mín. Til hamingju með stóra sigurinn! Gangi þér vel með næsta próf. Af mér er allt gott að frétta og mér líkar vel í nýju vinnunni. Í dag fluttum við öll niður á þriðju hæð og sitjum nú 4 - 6 saman í hóp sem mér skilst að sé gamla Innn skipulagið. Kærar aðventukveðjur og láttu þér batna, Þóra Jónsdóttir

www.V3.is

PS. Ég setti upp sjpallborð (fyrir V3.is) sem er ætlað fasteignaeigendum til að ræða málin, kíktu við tækifæri og segðu okkur frá framkvæmdunum á efri hæðinni: www.spjallbord.com

Þóra Jónsdóttir 12.12.2007 kl. 20:02

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gaman að heyra frá þér, Þóra, þú þekkir þennan kúrs, ég hef aðallega byrjað í honum en núna kláraði ég hann sem sagt og er alveg himinlifandi.

Heyrði einmitt í Hafdísi í dag um flutninginn. Spennandi að vita hvernig verður hjá ykkur. Við Ágúst og Toggi vorum reyndar í aðeins minni klúbb á gamla staðnum. Ég fæ að fylgjast með og kíki á þetta spjallborð þegar við brettum upp ermar á nýjan leik, sem verður sjálfsagt tæpa viku fyrir jól.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.12.2007 kl. 21:14

3 Smámynd: Steinn Hafliðason

Til hamingju með prófið, vel af sér vikið við erfiðar aðstæður

Steinn Hafliðason, 12.12.2007 kl. 21:48

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk, ég er afskaplega sæl og ætla bara að sofa pestina úr mér.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.12.2007 kl. 20:32

5 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Góðan bata og stattu þig stelpa!

Vilhelmina af Ugglas, 13.12.2007 kl. 22:35

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband