Dagskrá um Bessastaðaskóla - já, það var gaman
1.12.2007 | 17:18
Ég gleymdi alveg að reka áróður fyrir því hér á blogginu að fólk drifi sig út á Álftanes og hlustaði á dagskrá um Bessastaðaskóla. ,,Freudian slip" eða frekar skortur á því, ef Freudian slip er að minnast óvart á það sem er ofarlega í huga þá er skortur á því að minnast EKKI á það sem er ofarlega í huga. Að undanförnu, hef ég ásamt stærðfræði og lestri Sandgerðskra fundagerða, einkum verið að vinna í erindi sem ég hélt um áhrif Bessastaðaskóla (1805-1846) á mannlífið hérna á nesinu. Hér var í dag heljarmikil dagskrá helguð Bessastaðaskóla og stofnaður áhugahópur um sögu hans. Þessi dagskrá heppnaðist óskaplega vel, ekki síst var notalegt að sjá gömlu kennarana mína úr Menntó (MR) mæta vel, enda er MR beinn arftaki Bessastaðaskóla.
En þótt ég hafi ,,gleymt" að plögga, þá verða alla vega erindin varðveitt og eflaust gefin út einhvern tíma. Dagskráin var tekin upp og vonandi aðgengileg í heild fyrir þá sem áhuga hafa. Við erum svo moldrík hér á nesinu að eiga eðal skáld og tónskáld, og Karólína Eiríksdóttir, sem býr hérna uppi á 6 (númer sex í minni götu) samdi yndislega tónlist við texta úr ,,Njólu" sem er stórmerkilegt heimspekirit og ljóðabálkur um stjörnukerfið og alheiminn, hvorki meira né minna, eftir Björn Gunnlaugsson sem bjó hér í Sviðholti á meðan hann kenndi í Bessastaðaskóla. Sviðholt var NB aðal partístaðurinn fyrir Jónas Hallgrímsson og aðra skólapilta í Bessastaðaskóla ;-)
Já, við fengum líka erindi um Jónas, sem stóð í lærðum deilum við strákinn í efri kojunni. Það var sem sagt ekkert nema gaman að taka þátt í þessari dagskrá og krakkarnir í kórnum voru eins og englar þegar þeir sungu ljóðið eftir Þórarin Eldjárn um Sveinbjörn Egilsson: ,, ... þá var öldin önnur, er Sveinbjörn stökk á stöng, þá var ei til Bessastaða leiðin löng." Flottur kór í flottum lopapeysum. En nú ætla ég að fara að horfa á Gurrí mala Hafnarfjörð í Útsvari.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:19 | Facebook
Athugasemdir
Snobbblogg ?
Einar 1.12.2007 kl. 18:32
Nei.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.12.2007 kl. 18:44
Skemmtilegt, það er svo yndislegt að njóta þess góða sem lífiðið gefur manni.
Ester Sveinbjarnardóttir, 1.12.2007 kl. 23:56
Þetta var verulega skemmtilegt og svo fylgdum við þessu eftir með ágætis partíi í kvöld, ekki var það nú verra!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.12.2007 kl. 01:41