Sandgerði - Barcelona - Álftanes - Grímsstaðaholt
7.11.2007 | 21:57
Hvað eiga þessir staðir sameiginlegt? Held að þeir eigi sér allir einhverja útgerðarsögu, fer þó eftir því hvort leyfilegt er að teygja skilgreininguna á Grímsstaðaholti niður að sjó eða ekki. Annað sem þeir eiga sameiginlegt þessa stundina er að lífið hjá mér snýst um þá.
Ekki hægt að láta sér leiðast. Var að ljúka við æði mikla verkáætlun varðandi Sandgerðissöguna, sem verður væntanlega ögn stærra dæmi en ég hélt, sem er bara gott. Spennandi að fylgjast með því dæmi. Helgarferð til Barcelona framundan, þangað hef ég - merkilegt nokk - aldrei komið. Simbi og Óli einir í kotinu en eins og Óli sagði svo ágætlega: Ætli ég taki nokkuð eftir því þótt þið skreppið. það er nefnilega svo yndislega anarkíst heimilishald hér á bæ. Heimkomin þarf ég að einhenda mér í að ljúka tveimur verkefnum sem varða Álftanesið og svo má ekki gleyma blessuðu Grímsstaðaholtinu, þar sem dagarnir mínir byrja við stærðfræðiiðkun flesta daga vikunnar. Sit núna í nýju skrifstofuaðstöðunni minni uppi á loftið og dreifi í kringum mig heimadæmum, flestum óreiknuðum, en nokkrum nýloknum.