Frásögn um margboðaða heimskreppu - þetta venst ;-)
12.9.2007 | 00:37
Eftir að ég hætti að bíða eftir að kjarnorkusprengjan springi (fædd 1952 og á bernskuminningar frá kalda stríðinu) þá kom tímabil þegar úlfurinn var heimskreppa. Fyrst var það þessi fína olíukreppa sem fór að mörgu leyti framhjá okkur Íslendingum, en ég fann svo innilega fyrir þegar ég eyddi jólunum í Englandi árið 1974. Ljós átti aðeins að loga í einu herbergi í senn og flestir Bretar fóru eftir því, á meðan Idi Amin lofaði að senda Bretadrottningu banana í hremmingum sínum (eða var það eitthvað annað?).
Svo hefur þetta reglulega gerst að allt fari á annan endann vegna sveiflna í alþjóðaviðskiptum. Árið 1987 fórum við í haustferð um Evrópu og á meðan skall á þessi fína mini-kreppa og af því við vorum stödd á flakki um Evrópu þá fór hún meira og minna framhjá okkur (ekkert net þá). Alltaf af og til er verið að boða verðfall í kauphöllum, eða bregðast við slíku. Þegar þetta er svona margboðað þá venst það. Fréttamenn jafnt sem bankamenn eru farnir að segja sprækir að þetta verði skárra í næstu viku, alltaf hafa einhverjir spáð þessari þróun - þegar nógu margir spá nógu mörgu þá hlýtur eitthvað að rætast. Málið er að það er svo ótal margt sem virðist hafa áhrif og svo ótal margt sem við fáum ekkert við ráðið að ef eitthvað færi raunverulega af stað, þá er ekkert víst að viðvörurnarbjöllurnar hringdu á réttum tíma. En á meðan hafa afskaplega margir góða vinnu af því að spá og spekúlera og ekki skal ég hafa á móti því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ahhh, þarna róaðir þú mig! Sá nefnilega talað við nokkra karla í Íslandi í dag í fyrrakvöld og þeir spáðu kreppu.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.9.2007 kl. 23:06
Það er lika oft talað um það að bjartsýni íslendinga taka þá frá kreppu. ;)
Ester Sveinbjarnardóttir, 13.9.2007 kl. 00:04