Allt sem þú vildir vita um ættingja (en þorðir ekki að spyrja) ...

Hef mikið pælt í ættingjum að undanförnu. Fjölskyldan mín er þannig að stundum höfum við tekið það fram að ekki dugi annað en þrívíddarlíkan til að lýsa henni. Íslensk tunga á reyndar fullt af góðum nýjum orðum fyrir flóknar og margsamsettar fjölskyldur, enda veitir ekki af. Uppáhaldið mitt er orðið teygjufjölskylda, það heldur nefnilega svo ágætlega utan um fjölskylduna. Hef alltaf verið hlynnt því að í slíkum fjölskyldu geti allir talað óþvingað við alla fjölskyldumeðlimi hvernig sem skilnaðir og annars konar aðskilnaður svo sem fjarlægðir hefur haldið fólki sundur um lengri eða skemmri tíma. 

Samt hef ég alltaf haft ákveðnar efasemdir um sameiginlega forsjá foreldra með börnum sínum, það er að hafa það sem meginreglu eins og nú er. Heyrði um daginn af dæmi um að barn þyrfti að sækja tvo skóla út af slíku fyrirkomulagi. Það mætti stundum rifja upp að markmið barnalaganna er að hagur barnanna sé hafður í fyrirrúmi. Reyndar voru það aðrir hlutir sem ollu efasemdum mínum um sameiginlega forsjá, það var hið nauðsynlega ákvæði að hægt sé að endurskoða úrskurð um sameiginlega forsjá. Sé ekki að það sé barni í hag að taka upp síðbúnar skilnaðardeilur þegar það er búið að jafna sig á því róti sem ávallt fylgir jafnvel farsælustu skilnuðum.

Hins vegar er það mikil blessun þegar börn fara ekki á mis við annað hvort foreldrið, en margt getur valdið því eins og allir vita dæmi um. Erfiðast finnst mér þegar ekki má ræða foreldrið sem er fjarri eða jafnvel reynt að leyna börn uppruna sínum. Sumar fjölskyldur eru svo yfirhlaðnar leyndarmálum og tabúum að það hálfa væri nóg. Get aldrei fullþakkað mínum foreldrum að taka ekki þátt í slíkum leik gagnvart mér alla vega, þótt leiðir skildu.

En aftur að fjölskyldunni minni. Líklega á frænka mín þá athugasemd sem best lýsir margbrotnu fjölskyldunni minni. Ég var nefnilega einu sinni beðin fyrir kveðju til hennar og hún var smá stund að átta sig á því hver var að senda henni kveðju, en allt í einu fattaði hún og ljómandi upp: Hún, já, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns!

Þetta er reyndar bara sýnishorn og ýmislegt enn flóknara í fjölskylduböndunum í kringum mig. En það er ótrúlegur fjársjóður í því að eiga stóra og góða fjölskyldu, þótt maður sé stundum svolítið seinn til að kynnast mannskapnum. Þannig var ég að hitta fullt af fólki sem er af öðrum og þriðja lið við mig í gærkvöldi, sumt í fyrsta sinn, og mikið rosalega var það gaman. Við þurftum að spyrja hvert annað um svo margt varðandi fjölskyldumeðlimi og það var af nógu að taka. Ekki spillti fyrir að svo margir í fjölskyldunni þekktu til tengdafólksins míns og hefur mikið dálæti á því. Upphófst hin venjulega íslenska rakning á tengslum þessarra og hinna á íslenskan mælikvarða. Nýsjálensku frændurnir tveir, sem hafa verið á ferð og flugi um landið í viku, voru ábyggilega steinhissa á öllu þessu spjalli og trúðu því rétt mátulega að við þekktum ekki helminginn fyrir. En það var ábyggilega rosalega gaman fyrir þá að hitta allt þetta fólk, afkomendur móðursystur og ömmusystur þeirra, sem því miður komst ekki vegna aldurs og heilsu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég þekki góða konu sem ólst upp til skiptis hjá foreldrum sínum, held reyndar að mamma hennar hafi haft forræðið yfir henni. Hún var mjög rótlaus og strax og hún varð 16 ára og sjálfráða flutti hún að heiman og reyndi að skapa sér eigið heimili. Hún sagðist hafa búið til skiptis á heimili pabba og á heimili mömmu, upplifði aldrei að hún ætti heimili sjálf. Mæli ekki með þessu, hef efasemdir um að þetta sé best fyrir börnin, frekar hið gagnstæða. Er líka efins um sameiginlegt forræði þegar fólk skilur ekki í sátt og samlyndi ... sem er sjaldnast. Annað: Teygjufjölskylda er frábært orð! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.8.2007 kl. 20:57

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég held að það séu til fjölskyldur sem sameiginleg forsjá hentar, en margt sem ég hef heyrt að undanförnu hefur heldur styrkt mig í efasemdunum sem ég hef haft frá upphafi. Einmitt þetta rótleysi sem ég óttast að geti verið erfitt fyrir krakkana.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.8.2007 kl. 22:15

3 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Sterk fjölskyldubönd eru ómetanleg, finnst mér sem á stóra og litríka fjölskyldu með afar flóknum samsetningum.  Oft hef ég sagt að lagið hans Ladda Ég er afi minn hafi verið samið um ættina mína.

Í forsjármálum verða foreldrar að hafa hag barnanna í fyrirrúmi, ekki láta eigin hagsmuni, eigingirni eða þörfina á "sigri" yfir fyrrverandi maka ráða ferðinni.

Já og teygjufjölskylda er snilldarorð!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 3.9.2007 kl. 06:56

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Stórar fjölskyldur hafa sífellt meiri sjarma í mínum augum og þið sem eigið stórar fjölskyldur eruð á vissan hátt fyrirmyndin sem ég sækist eftir, þótt ég sé einkabarn í móðurætt. Þegar ég var í sveit í Fljótshlíðinni var ég tíður gestur á heimili þar sem börnin voru 8 eða 9 og mér fannst alltaf svo auðvelt og áhyggjulaust heimilishald þar. Veit auðvitað ekki hvernig var að alast þar upp en krakkarnir virtust vel heppnaðir, hjálpsamnir og ánægðir. Ætlaði að eiga fullt af börnum (19 var talan sem ég nefndi) en ánægð með mín tvö, enda fékk ég fjölmenna tengdafjölskyldu í staðinn og svo er smátt og smátt að dúkka upp ýmislegt í fjölskyldusögunni sem ýtir undir stórfjölskyldudrauminn minn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.9.2007 kl. 20:36

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband