Mogginn tekur upp vindmylluþráðinn minn
18.8.2007 | 10:58
Sá að Mogginn hafði ákveðið að birta Vindmyllubloggið mitt á síðum sínum í dag. Aldrei að vita nema hér skapist enn meiri umræða á síðunum um aðra valkosti í orkumálum en að leggja hálendið undir vatnsaflsvirkjanir og lón. Við erum komin að þeim punkti að flestar viðbótarvirkjanir munu verða umdeildar og umdeilanlegar. Gufuaflsvirkjanir eru heldur ekki hafnar yfir gagnrýni, og auðvitað yrðu aðrar hugmyndir, hvort sem væru vindmyllur, sólarorka eða vetnislausnir ekkert undanþegnar gagnrýni frekar en aðrir kostir.
Það sem máli skiptir er að festast ekki í einhverjum ramma og þora aldrei að hugsa út fyrir hann. Vindurinn hlýtur að vera áhugaverður til skoðunar í landi þar sem svona mikið blæs en þar með er ég auðvitað ekki að berjast fyrir vindmyllum í Viðey, eins og einn lesandi minn lét sér detta í hug. Í sakleysi mínu hafði mér hins vegar dottið í hug að nýta mætti gömul framræst og ræktuð tún sem hvert af öðru eru að fara í órækt á Suðurlandi, fjarri allri ósnortinni náttúru. Mér rann til rifja þegar ég fór að morgunlagi í bíltúr um Suðurlandið fyrir 1-2 árum hversu mörg gömul tún eru að komast í órækt og einhverjar þessara sléttna þyldu ef til vill vindmylluakra. Hins vegar er ég þeirrar gerðar að mér finnst alltaf að náttúran eigi að nóta vafans og ef svona framkvæmdir særðu auga annarra, t.d. vegna þess að sjónarhornið væri annað, þá legði ég þeim lið.
Gaman að hafa opnað umræðuna og leitt hana út fyrir þröngan ramma, kannski er þetta valkostur sem einhverjum finnst áhugaverður, kannski ekki. Kannski er þetta raunhæft, kannski ekki. Og kannski finnast staðir hér á landi sem þola þessi mannvirki, kannski verður alltaf einhver til að mótmæla. Við hljótum öll að þurfa að hlusta á rök annarra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:59 | Facebook
Athugasemdir
Já, það er gaman að opna umræðu um orku.
Ef við tölum um fegurðarsjónarmið þá finnst mér vindmyllur mun fallegri en víraflækjurnar upp um allar heiðar og bæi.
Vindmyllur geta líka staðið útí sjó eins og stórir glæsilegir varðturnar. Hugsið ykkur, stórar stæðilegar vindmyllur frá landi út í eyjar (Vestmannaeyjar). Svo væri bara hægt að tengja þær saman með brú og slá þar með tvær flugur í einu höggi. En það er önnur saga.
Önnur tegund af myllum er að setja þær í sjó (á bólakaf) og nýta strauma sjávar. Þar væri nú engin sjónmengun og nóg er af straumum í kringum landið.
Svala Erlendsdóttir, 18.8.2007 kl. 11:37
Fyrir utan að vindmyllur í hafinu milli lands og Eyja þyrftu að vera allt að 200 metra háar til að ná niður á fast og samt gægjast upp fyrir hafflötinn, held ég að veðurlag við Ísland geri vindmyllur í sjó óraunhæfar.
Þá vil ég ekki hugsa þá hugsun til enda hvað vindmyllugarður á eða við Eyjar myndi gera sjófuglastofnunum hér. Sama á við um neðansjávarmyllur á megin hrygningarstöðvum þorsksins.
Má ég þá frekar biðja um falleg uppistöðulón á borð við Elliðavatn og Þingvallavatn.
Sigurður E. Vilhelmsson 18.8.2007 kl. 12:33
Hvaða veðurlag er þar um að ræða sem gerir vindmyllur óraunhæfar? Og hvað í ósköpunum er gefið í skyn að myllurnar gætu gert sjófuglastofnunum? Hmmm? eða hrygningarstöðvunum?
LKS - hvunndagshetja, 18.8.2007 kl. 13:29
Já ég tek alveg í þessa vindmyllu hugmynd. Um að gera að nýta þær auðlindir sem eru í landinu á sem skynsamlegastan hátt og án þess að þurfa að þurfa að eiga við nátturuna með stíflana framkvæmdum og slíkt.
Vandinn er bara sá að fólk er hrædd við það sem það hvorki þekkir ekki eða er vant að sjá, og eru vindmyllur nýtt fyrirbrigði fyrir landsmenn. Því hugsa margir um þetta sem einhvern skelfilegan hlut og átta sig ekki á að ekki er allt gull sem glóir.
Ég sjálf bý í landi eins vindmylluframleiðandans og ég man fyrst hvað mér fannst þetta skrýtið, en að sjá þetta fyrirbæri í dag þá er mín skoðun að mér finnst þetta bara hið besta mál. Enda er þetta ekkert meira lýti í umhverfinu heldur en rafmagnsmöstrin sem eru útrum allt þegar maður lítur hérna út um gluggan í sveitin á Íslandi.
Annar kostur við Ísland fyrir þá sem sjá þetta sem lýti í umhverfinu, þá er landið ekki slétt og þá er bara spurning um hvort ekki er bara hægt að setja upp svona vindmyllugarð á bakvið eitthver fjallið svo fólk þurfi ekki að fárast yfir að sjá þetta frá þjóðvegi 1.
Persónulega finnst mér eiginlega alveg hrikalega skrítið að Íslendingar séu ekki fyrir löngu búnir að læra af frændum vorum dönum og huga að virkjun af öllum þessum vindi sem við njótum hér í Íslandi, landinu til framdráttar og vexti þjóðarbúsins.
Berglind, 18.8.2007 kl. 14:11
Hér fyrir ofan var lagt til að reisa vindmyllur í sjó milli lands og Eyja. Þessar myllur þyrftu að þola eitt versta sjólag á jarðkringlunni yfir veturinn þar sem ölduhæð getur orðið ansi mikil. Ég sé bara ekki hvernig hefðbundnar myllur, sem þar fyrir utan þyrftu að ná tugi metra undir yfirborðið til að komast niður á fast, ættu að standast það.
Hvað varðar sjófuglana er það bara staðreynd að fyrir utan sjónmengun er eitthvert stærsta umhverfisvandamál vindmyllanna hversu gríðarlegan fjölda fugla þær drepa. Hér í Eyjum höfum við nóg með að halda uppi lundastofninum þegar sandsílastofninn tekur sveiflur, þó ekki bætist við vindmylluspaðar líka.
Sama væri væntanlega uppi á teningnum með straummyllur neðansjávar. Þær tækju væntanlega í gegnum sig mikið magn af sjó og þyrfti ekki að spyrja að leikslokum fyrir þann fisk sem færi þar í gegn. Kringum Eyjar og raunar undan öllu Suðurlandi, eru mestu hrygningarstöðvar þorsks við landið og mér lýst ekki á að fara að sigta tugmilljónir þorskseiða í gegnum mylluspaða.
Fyrir utan svo að framleiðslukostnaður raforku með vindmyllum er enn u.þ.b. helmingi meiri en með vatnsorku.
Sigurður E. Vilhelmsson 18.8.2007 kl. 16:56
Annað sem má benda á er að rafmagn sem framleitt er með vindmyllum er ekkert öðruvísi en rafmagn framleitt með vatnsafli. Það þarf að flytja með rafmagnslínum. Ástæða þess að línur hafa ekki verið grafnar í jörð fram til þessa er kostnaður, en það verður jafn dýrt að grafa línur frá vindmyllubúum eins og frá vatnsaflsvirkjunum. Því ætti að vera raunhæfara að nýta sparnaðinn af því að nota vatnsafl umfram vindafl til að grafa strengina í jörðu.
Sigurður E. Vilhelmsson 18.8.2007 kl. 17:53
Gaman að heyra í ykkur um málið. Eins og fram kemur í fyrra bloggi kviknaði þessi umræða út af því að ég fékk tækifæri til að bera gömlu, skrýtnu mýtuna um að það væri of hvasst á Íslandi fyrir vindmyllur undir sérfræðing á þessu sviði - sem bara hló! Í framhaldi fór ég að leika mér með þessa gömlu hugsun sem mér finnst alltaf svo gaman að sjá einhvern tilgang í öllu þessi roki sem annars angrar mann aðeins. En hér hefur margt komið fram og ég bara þakka umræðuna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.8.2007 kl. 22:42