Jón Ásgeir Sigurðsson

Vaknaði í morgun við það að Ari minn sagði mér að Jón Ásgeir væri dáinn. Þótt ég hafi vitað það í tvo mánuði að hverju dró, þá brá mér samt. Líklega ber maður alltaf einhverja von í brjósti um að öðru vísi fari - þvert á allar líkur og skynsemi. 

Við Jón byrjuðum í sömu vikunni á vormánuðum 1980 að vinna sem blaðamenn á Vikunni og unnum þar bæði í meira en 5 ár, hann hætti haustið 1985 og fór til Ameríku þegar Magga hans fór í framhaldsnám og ég hætti um áramótin. Tíminn á Vikunni var lærdómsríkur og skemmtilegur, við vorum hamingjusamur hópur sem skrifaði um allt sem máli skipti (og ekki) undir mildri en markvissri stjórn Sigurðar Hreiðars. Jón var metnaðarfullur blaðamaður, stofnaði snemma á þessu tímabili lítinn blaðamannaklúbb sem hafði það að markmiði að auka fagmennsku í blaðamennsku. Við hittumst nokkrum sinnum í turnheberginu á Hótel Borg og þegar ég lít yfir umræðuna og þá sem Jón valdi til að koma inn á fyrstu fundina þá sé ég margt af því besta sem prýða má blaðamennsku. Hann hafði byggt upp mikla þekkingu og gagnrýninn hug í námi bæði við Freie í Berlín og í Bandaríkjunum. Við á Vikunni vorum svo lánsöm að vera í sambýli við Blaðamannafélagið fyrstu árin okkar Jóns á Vikunni og ég sá margar hugmyndir sem Jón dreymdi um að fá hrint í framkvæmd verða að veruleika, enda gott fólk í forsvari þar. Blaðamannanámskeið í tölvunotkun, íslensku og notkun skoðanakannana sem blaðaefnis eru meðal þess sem ég tel víst að hafi sprottið af umræðu sem hann átti þátt í. 

Á Vikuárunum gat Jón skrifað um allt sem hann vildi, enda var Vikan þá ásamt Nýju lífi eitt fárra blaða á markaðnum fyrir utan dagblöðin. Kannski var Vikan þá allt í senn: Mannlíf, Ísafold, helgarútgáfa dagblaða og gamla góða Vikan. Jón skrifaði snemma (1983 minnir mig) um tölvuvæðingu, sem þá var varla orðin almenn. Hann var svolítið forspár í aprílgabbi sem hann hafði veg og vanda af, um gervihnattadiska á svölum venjulegra íbúðahúsa. Hann skrifaði um golf og skíðaíþróttina, þar þóttumst við greina áhrif Möggu, sem þá var ungur læknanemi frá Ísafirði og nýja ástin í lífi Jóns. Hvort sem um léttmeti var að ræða eða þyngri þjóðfélagsumræðu, þá skrifaði Jón Ásgeir alltaf áhugaverðar greinar. 

Á Ameríkuárunum var ég svo ljónheppin að fá tækifæri til að heimsækja Jón Ásgeir og Möggu til New Haven haustið 1991. Fyrst var ,,brunch" í fallega húsinu þeirra þar og Jón sýndi mér litla stúdíóið undir stiganum þar sem margar góðar fréttaútsendingar frá Bandaríkjunum áttu uppruna sinn. Svo fórum við ásamt fjölda Íslendinga úr nágrenninu í haustlitaferð upp á fjall i nágrenninu. Hann var líka mikið með okkur í New York þessa haustdaga og ég ætla að leyfa mér að skoða allar myndirnar sem ég á úr þessum draumatúr einhvern tíma þegar ögn lengri tími er liðinn frá þessu sorgarfréttum dagsins, ekki strax. 1994 hittumst við síðan aftur í USA þegar ég var á ferð í Washington og hann kynnti mig fyrir þeirri hlið á borginni sem mér finnst minnisstæðust, bókabúðunum góðu og háskólahverfinu Georgetown. 

Eftir að Jón Ásgeir og Magga fluttu heim aftur lágu leiðirnar saman af og til, Jón var að mínu mati réttur maður á réttum stað hjá ríkisútvarpinu, þar sem hann vann bæði að því að byggja upp fagmannlega fréttaskýringarþætti og að málefnum er vörðuðu starfsfólk RUV. Þar sem ég hef alltaf af og til dottið inn í lausamennsku hjá útvarpinu þá rákumst við saman þar, viljandi og óviljandi. Jón las eitthvað fyrir mig í þáttum sem ég gerði og svo var hægt að lauma sér í kaffi eða mat og spjalla. Það eru heldur ekkert svo óskaplega mörg ár síðan við hættum að halda ,,Vikupartí" - gamli, góði hópurinn frá árunum 1980-1985. Og ég upplifði meira að segja alveg nýja hlið á honum fyrir varla meira en hálfu öðru ári þegar hann kom að kosningaráðgjöf fyrir framboð sem mér var mjög kært. Þar var gengið til sigurs.

Minningarnar um Jón Ásgeir eru margar og allar góðar. Svo vill til að Magga hefur verið lífsförunautur hans nánast alla þá tíð sem ég hef þekkt hann og ég veit hvað hann var stoltur af því að eiga þessa hæfileikaríku konu. Börnin öll voru líka stoltið hans, son missti hann ungan, en hann átti þrátt fyrir það miklu barnaláni að fagna. Ég ætla að leyfa mér að minna mig á að Jón Ásgeir átti gott líf þar sem margir draumar hans rættust. Hann var alltaf að læra, bæði í skóla og lífi sínu, alltaf að miðla af þekkingu sinni og reynslu og hann var alltaf góður vinur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég samhryggist þér, elsku vinkona, og sendi líka Siggu, dóttur Jóns, og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.8.2007 kl. 08:29

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þakka þér fyrir þessa fallegu minningu, Anna mín, og ég tek undir samúðarkveðjur Gurríar til fólksins hans Jóns.

Sjálfur átti ég ekki nema fá orð. Það er svo erfitt að kveðja.

Sigurður Hreiðar, 15.8.2007 kl. 11:41

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Fallega skrifað um hæfileikaríkan mann. Það er ekki alltaf sanngirni í þessu lífi

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 15.8.2007 kl. 12:25

4 identicon

Samúðarkveðjur til þín, Anna mín. Sjálf þekkti ég Jón ekki að ráði, en átti þó nokkur samskipti við hann þegar hann var formaður félags starfsfólks RÚV og mikið rétt, þar fór maður sem vildi vel.

Helga 15.8.2007 kl. 13:58

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Held að við höfum öll misst mikið. Ég las orðin þín, Sigurður, einhvern tíma í erlinum í morgun og tek undir hvert orð.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.8.2007 kl. 15:40

6 identicon

Ég samhryggist þér innilega kæra bloggvinkona en þakka um leið fyrir þennan fræðandi og fallega minningarpistil um Jón Ásgeir.

Anna Ólafsdóttir (anno) 15.8.2007 kl. 16:44

7 identicon

Ágæta Anna.

Takk fyrir fallegan pistil um prýðisdrenginn Jón Ásgeir. Hef fylgst með honum frá heimsókn hans til okkar í MA 1971, síðar í Þýskalandi og víðar. Berðu konu hans og börnum mínar hugheilar samúðarkveðjur.

Krissa

kristjana 16.8.2007 kl. 01:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband