Besta

Fyrirsagnarstíllinn minn er ekki uppreisn gegn vaxandi tilhneigingu á blogginu. Ég hef alltaf verið hálf feimin við hugtakið ,,besta". Draumar hippakynslóðarinnar fólust meðal annars í því að gera ekki upp á milli, dæma ekki (of mikið) og að ráðast gegn öllu ríkjandi verðmætamati, líka öllum þessu dilkadrætti í ,,besta" þetta og besta hitt. Og að mörgu leyti finnst mér það ágætt veganesti. Það merkir alls ekki að fletja út allt, þannig að allt sé í sömu meðalmennskunni, heldur að viðurkenna að það besta fyrir einn er ekki það besta fyrir annan og að það sem ríkjandi verðmætamat telur ,,best" er oft harla forgengilegt. 

En auðvitað lendir maður í þversögn við sjálfa sig. Ætla ég að segja að Gunna vinkona fyrir norðan sé bara meðalgóð vinkona, þegar hún er búin að vera ,,bestavinkona" í bráðum 40 ár? Og hvort ég skemmti mér ekki við að velja áhugaverðar bækur (þáverandi bestar) fyrir ,,19. júní" eitt árið.  Reyndar fékk ég bakþanka áður en blaðið var komið úr prentun, ó, ég hefði frekar átt að nefna Hvunndagshetjur, hvernig gat ég gleymt þeim, ó, ég hefði átt að ...

Ég er sannfærð um að Creep sé besta lagið í heimi (fucking special útgáfan). Einu sinni var það lag ekki til, og furðu stutt síðan reyndar, og þá var annað lag best.  

Það rifjaðist líka upp fyrir mér fyrir skömmu að bókin Litli prinsinn er besta bók ever. Meðan ég var (rosalega) blankur námsmaður keypti ég í Næpunni 10-12 eintök af bókinn, á góðu verði, og gaf þeim sem mér fannst að yrðu að eignast hana. Þegar góð vinkona mín dó, þá var það fyrsta sem ég hugsaði: Var ég búin að gefa henni Litla prinsinn? Ég held það. Áttaði mig seinna á því að þessi tilfinning er vísan í bókina. Þeir sem þekkja hana vita eflaust hvað ég á við. Hjálmurinn, blómið ...

Og þar að auki langar mig alltaf til að setja af stað könnun um fegursta (besta) orð íslenskrar tungu. Ég er búin að gera tvær máttlitlar tilraunir, reyndi fyrst að fá þetta inn í Vikuna (1980-1985 ca) en talaði fyrir daufum eyrum. Sá fyir mér fegursta orðið á palli, með krans um hálsinn eins eða kórónu eins og fegurðardrottning, heyrði málfræðingana gefa því einkunn fyrir þokka og einhvers staðar hefði verið rúm fyrir ,,lestur góðra bóka". Svo gerði ég þessa könnun á hinu blogginu mínu og þakka Gurrí og hinum tilnefningar og þátttöku. En það blogg var hvergi auglýst og er eiginlega ennþá bara einkaflipp með gömlum vinum og ættingjum.

Þannig að kannski á ég eftir að vera með alls konar ,,besta" dót hér á síðunni í framtíðinni. Reyna aftur að virkja kraft þjóðarinnar til að finna fegursta orð íslenskrar tungu, fyrst fólk gat fundið þjóðarblómið (reyndar varð rangt blóm fyrir valinu, blágresið blíða er alltaf flottast) þá hlýtur það að takast einhvern tíma. Svo væri gaman að vera með lista yfir bestu bækurnar, bestu lögin, já, ég held það sé best að gera eitthvað í þessu ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég held að ég segi eins og Þórbergur: Þaðebestasegjaekkimeira.  Sérstaklega hvað varðar holdugar fyrirsagnir.  Híhí.

Frábær pistill.

Jenný Anna Baldursdóttir, 4.7.2007 kl. 01:22

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fyrirsögnin þín stóð sko alveg fyrir sínu Jenný!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.7.2007 kl. 01:49

3 Smámynd: krossgata

Þetta er besti pistillinn um besta.  Mjög oft finnst mér besta íslenska orðið vera nenna, það er bara ekki hægt að þýða það til dæmis á ensku svo vel sé.   Það er bara ekkert í ensku sem nær kjarnanum í því.  Bíð spennt eftir öllum bestu könnununum.

krossgata, 4.7.2007 kl. 09:56

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sæl, Anna mín Ól. Sá þú varst að gefa Gurrí klapp á bakið fyrir „að veiða“ mig á bloggið sitt. Vissi ekki alveg hvernig ég átti að taka því. En þú veist, ég kann betur að meta kímni en pólitík -- sem í besta falli er leiðinleg, þó sumir kunni að matreiða hana betur en aðrir. Ég man ekkert stundinni lengur á því sviði, man t.a.m. ekki hvort þú ert núna Vinstrigræn eða Samfylk - ætli þú sért ekki vinstrigræn? Ég veit ekki hvaða tilnefningar hafa verið á ferðinni um „besta“ orðið í íslensku og ætla ekki í pælingar um hvað sé best af hinu og þessu. (EKKI gefa mér Litla prinsinn, takk fyrir, ekki fyrr en ég er orðinn illa haldinn af svefnleysi!) En mig langar að leggja orð í belginn. Ég hef nefnilega lengi verið afar hrifinn af orðinu „jæja“. Ég veit ekki um annað orð íslenskt með jafn fjölbreyttum merkingarmöguleikum og ólgandi af tjáningu, allt eftir því hvernig það er látið frá sér.

Bið svo að heilsa í bæinn

Sigurður Hreiðar, 4.7.2007 kl. 10:52

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég er virkilega skotin í innkomnum tilnefningum, óvæntar og skemmtilegar. Og Sigurður, það er bara svo gaman að hitta þig á blogginu, að ég er alveg til í að hafa smá hemil á pólitísku pistlunum (rétt til getið að ég er vinstri græn) ef ég get stillt mig ;-) Mikið góðar kveðjur til þín og alls þíns fólks. Gurrí er fæddur bloggari og ég hef oft rekist á komment frá gömlum vinum á hennar bloggi, en held bara að ég hafi verið hvað ánægðust yfir nýjustu ,,veiðinni" hennar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.7.2007 kl. 12:00

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband