Trúarumræður í sjónvarpinu

Líklega er ég ekki nógu áhugasöm um þá trú sem ég þó þykist eiga til. Alla vega þá er ég alls ekki með á nótunum um hvað þjóðkirkjuprestarnir og Hjörtur Magni fríkirkjuprestur eru að karpa um í endurteknu Kastljósi. Eins og fleiri Íslendingar á ég mjög óskilgreinda trú, finn helst þörf fyrir hana þegar ég þarf að þakka fyrir eitthvað sem mér finnst með ólíkindum gott og hef enga mannlega veru í ábyrgð fyrir því. Sjaldnar, en þó hefur það komið fyrir, á erfiðari stundum. Fer helst í kirkju við jarðarfarir og finnst þær skapa ljómandi ramma um það sem annars myndi kannski bara leysast upp í ráðaleysi eftirlifenda, hvernig eigi að kveðja þann sem er dáinn og hitta þá sem eftir lifa til að votta þeim samúð. Stundum skiptir það reyndar meginmáli að eiga þó þennan menningarlega og fyrir suma (mig stundum) trúarlega ramma. 

Ég er hvorki að afsaka mig eða hreykja mér yfir þessari afstöðu, ég er sátt við að vera svona hálfvolg. Ósátt við afstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart samkynhneigðum, sátt við Grétu djákna, Örn Bárð, Birgi Thomsen og Jónu Hrönn og ýmsa aðra presta, ósátt við svartstakka allra trúarbragða. Ég er hrifin af ýmsu sem ég hef hent á lofti í öðrum trúarbrögðum og mér finnst margt fallegt í kristninni en líka ljótt. Hundóánægð með ,,allt þetta fólk sem í gullsölum himnanna gist" en myndi samt þiggja að lenda ekki í ,,annarri vist" (lesið Jón Helgason, eitt snjallasta ljóðskáld okkar, ef þið viljið fá frekari skýringar og þekkið ekki til hvers ég er að vísa). 

Og hvers vegna er ég að skrifa þennan pistil? Jú, mér finnst svo merkilegt að ég, þessi frekar forvitna manneskja um fréttir (meira en fólk) skuli ekki nenna að setja mig inn í þessar umræður um trúmál eða eitthvað annað, þótt mér líki afskaplega vel við það litla sem ég hef haft af Hirti Magna að segja. Heyri utan að mér að það er hægt að telja þessa umræðu persónulega eða um grundvallarmál, en æi, stundum er allt í lagi að setja sig ekki inn í öll mál og kirkjan vekur minni áhuga hjá mér en ýmis grundvallargildi, sem ef til vill mætti segja að trúarbrögð fjölluðu um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband