Straubretti, ferðalög og fleira
15.8.2024 | 17:30
Á mörgum heimilum eru enn til straubretti þótt sú iðja að strauja sé ekki í forgangi hjá því fólki sem ég umgengst mest. Auðvitað man ég skemmtilegar sögur úr fortíðinni, eins og þegar eina frænka mín sem studdi sko alls ekki kvennafríið 1975 (þótt það væri bara kallað ,,frí") ætlaði að strauja allar skyrturnar mannsins síns, tvisvar, þann daginn. Eða þegar vinkona mín fékk starf í London 1970 sem ,,Mothers help" sem var næsta stig fyrir ofan ,,Au pair", ögn meiri laun og miklu meiri vinna. Á því heimili þurfi hún sko að strauja allar skyrtur bóndans á heimilinu þótt straufríar væru og nælonskyrtur að auki (vona að enginn mun eftir þeim hryllingi í búningasögunni).
Tók fram straubrettið áðan, sem var innarlega í þvottahúsinu, og á meira að segja í óopnuðum pakkningum annað sem fer í húsið sem við erum að gera upp, það er til að hengja upp á vegg og taka út með einhverju hókusi-pókusi. Þótt ég ætli að enda með því að strauja alla vega fallegar silkislæður í treflaformi, sem ég hef fallið fyrir á ferðalögum, þegar ég fatta að það er líka hægt að verða kalt í hálsinn á suðrænum slóðum, var aðalerindið þó að fá gott vinnuborð af því nú eygi ég tíma til að vatnslita eftir eril seinustu daga. Og komum við þá að ferðalögunum ...
Fáir gististaðir eru svo aumir að þar sé ekki að finna straujárn og straubretti. Gleymið straujárninu. Þar sem ég ferðast frekar praktískt, gisti sjaldan á dýrum gististöðum, eru herbergin mismunandi stór. Reyni yfirleitt nú orðið að stoppa meira en næturlangt á gististöðum og koma mér vel fyrir þótt ég sé oftast ekki mikið á hótelunum á ferðalögum. Ef herbergin eru lítil eru straubrettin alveg feikilega nýtileg, til að leggja fötin sín yfir á kvöldin, hafa það innan seilingar sem þarf, stundum betri tölvuborð en þau sem ætluð eru til þess, séu þau til staðar. Og ég tala ekki um þegar ég er að skrifa lengri ritgerðir (MA, MS) eða bækur. Hversu oft ætli ég hafi ekki spennt upp straubrettið mitt uppi í sumarbústað eða á skyndiskrifstofum erlendis og lagt frá mér gögn og einstaka kafla furðu skipulega. Straubretti má líka hækka og lækka, afbragðsgóð fyrir aukaskjái við fartölvuna, þá þarf ekki að dröslast milli staða með sólstólana sem ég nota til að hækka fartölur og skjái. Er farin að ferðast æ oftar aðeins með tösku sem passar undir sæti í flugvélum og þá munar alveg um sólstólinn.
Mín hagnýtu ferðaráð eru kannski ekki við hæfi allra, en ef ein manneskja getur notað sér þetta ráð og hefur ekki dottið það í hug sjálfri, þá bara vessgú!