Bonaire er yndisleg eyja. Ef þið hafið ekki heyrt um hana áður, þá eruð þið síður en svo ein á báti og alveg áreiðanlega ekki forfallnir kafarar. Mér skilst að eyjan sé heimsfræg í heimi þeirra, enda leitun að eins ósnortinni kórallaveröld og einmitt hér. Merkilegt nokk, þetta er í annað sinn sem við Ari minn leitum á slóðir sem eru vinsælar meðal kafara, þótt við séum engan veginn í þeim hópi. Hinn staðurinn var Hurghada í Egyptalandi, við Rauða hafið. Þessi orð setti ég á blað þegar ég var á þessari fallegu eyju í síðustu viku.
Bonaire er hérað í Hollandi, en í ,,innanlandsflugi frá Amsterdam tekur 9-12 tíma að komast hingað. Nágrannaeyjarnar, Aruba og Curacao eru þekktari. Þær eru nú sjálfstæð ríki í ríkjasambandi við Holland, en Bonaire kaus að halda stöðu sinni sem hérað í Hollandi, enn sem komið er alla vega. Spánverjar komu hér fyrstir Evrópumanna um 1499 en hálfri annarri öld síðar höfðu Hollendingar lagt eyjarnar undir sig og sín viðskipti. Fyrir voru hér Caquetio indjánar og nafn Bonaire er ættað úr þeirra máli, merkir einmitt lágt land (eins konar Niðurlönd) en málið telst nú horfið.
Er lítið fyrir að þylja upp almennan fróðleik, hvort sem hann er á allra færi eða ekki, en hér er meira um ABC-eyjarnar fyrir forvitna:
https://www.worldatlas.com/articles/what-are-the-abc-islands.html
Fallegu, misbleiku flamingóarnir
Mörg dýra- og önnur náttúruverndarsvæði eru á Bonaire, sum frá því fólk hafði almennt ekki uppgötvað náttúruvernd að gagni. Mig langaði alla vega til að sjá bleika flamingóa, og tvö svæði, annað í norðri og hitt í suðri, eru helguð þeim, nóg af plássi fyrir þá flottu fugla. Sá fyrsti sem við sáum (var bent á) var reyndar alls ekkert bleikur, en svo sáum við öll litbrigði bleika litarins þegar sunnar dró og daginn eftir í norðri.
Dýralíf er fjölskrúðugt, pelíkanarnir eru rosalegir húmoristar, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki, eðlur flottar, bæði gekkóárnir litli og stóri hér á sundlaugarsvæðinu við húsið okkar og allir hinir, sem lögðu á flótta á Klein Bonaire þegar igúana-eðlan mætti milli lappanna á okkur í öllu sínu veldi. Annars eru geiturnar út um allt flinkar að klifra í trjám, enda gerist geitaosturinn ekki betri, af fjórum kvöldverðum á veitingahúsum hér (sem eru hvert öðru frábærara) fékk ég mér geitaostsrétti á þremur. Skipulagðar ferðir á geita(osta)-sveitabæi eru meðal þess sem hægt er að taka þátt í þótt við höfum ekki valið það. Asnarnir eru á takmarkaðri svæðum, en nóg af þeim líka.
Hve mörg þrep eru í 1000 þrepa stiganum?
Ef þið haldið að þið þekkið ýkjumeistarann, hugsið ykkur vel um. Vinsæll köfunarstaður á Bonaire heitir 1000 þrepa stiginn, stigi sem liggur niður að köfunarstaðnum eftir snarbröttum kalksteinsklettum. Hann er 67 þrep.
Vegir liggja alls ekki til allra átta
Bonaire er alls ekki stór eyja (288 km2), en vegakerfið engu að síður mjög takmarkað, sagt er að það taki um fjóra klukkutíma að fara áttuna sem vegirnir gróflega mynda. Ástand vega hátt í að vera samkeppnisfært við sum svæði á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Það tekur því ekki að vera með neinar almenningssamgöngur og fólki er eindregið ráðið frá því að vera á skellinöðrum eða golfbílum (sem ég veit núna að eru vinsælir hér í karabíska hafinu). Til þess eru vegir bæði of þröngir og holóttir og mikil hætta á að skellinöðrur renni til í asnaskítnum á vegunum.
Í miðbænum er eflaust fínt að vera bíllaus og fara í skipulagðar ferðir ef fólk langar út fyrir bæjarmörkin, en annars eru bílaleigubílar vinsælastir. Bílakosturinn á eyjunni er einfaldlega góður og umferð alls ekki svo mikil. Suðurhluti eyjarinnar er all-villtur nema saltvinnslusvæðin (og þó, þau líka) en norðrið er grónara og settlegra, nema kannski barinn okkar í Rincon, næststærsta bænum á eyjunni, næstum 1500 manna. Þar er ekki eins mikill höfuðborgarbragur og í Kralendijk, 3000 manna borginni, en þaðan er myndin.
Salt
Auðlind Bonaire er salt. Hér hefur saltvinnsla verið mikil í nokkrar aldir og sú saga á sér sínar dökku hliðar, þar sem þrælar bjuggu í hræðilegum kytrum og erfiðu við saltvinnslu. Nú er sú saga (vonandi) liðin og alla vega eru hollensk gildi í fyrirrúmi á þessari fallegu eyju, sem er kostur mannréttindalega séð, skyldum við ætla, þrátt fyrir nýja ríkisstjórni í Hollandi.
Það er ævintýralegt að fara framhjá saltvinnslunni sem nú er suðvestan til á eyjunni, með knallbleikt lón á aðra hönd og fagurlega blágrænt hafið á hina höndina.
Lang-næstbesta vatn í heimi
Kranavatnið er dásamlegt á Bonaire. Þegar við vorum á leiðinni í siglingu áttum við, ég og stelpan í afgreiðslunni, huggulegt samtal um hvort væri betra, náttúrulega vatnið á Íslandi eða hreinsaði og filteraði sjórinn sem rennur úr krönum bonaire-inga. Ég held því hiklaust fram að hið síðarnefnda sé lang-næstbesta vatn í heimi (á eftir okkar, auðvitað).
Veðrið
Bonaire er nálægt miðbaug og hitastig stöðugt 27-32 gráður árið um kring, ekki mikill munur dags og nætur en í heitri hitabeltissólinni er hitinn þó æði mikill. Blessað rokið sem er eitt aðalsmerki Bonaire, bætir þar verulega úr skák og loftkæling er mikið notuð og hnökralaus, bæði viftur og vindblásandi kassarnir sem ferðalangar þekkja. Öldurnar sem rokið reddar freista vatnaíþróttafólks verulega og skiljanlega og umferðarþröng við Sebastian veitingasvæðið á suðausturströndinni skemmileg á að horfa. Enginn rotaðist meðan við vorum þar. Þar er líka besta kaffið sem ég fékk í ferðinni (latte machiato). Það sem þykir þó merkilegast hér um slóðir eru ótal frábærir köfunarstaðir og fegurðin neðansjávar er víst enn meiri en sú sem er ofan hans.
Loks er hér svolítið um ABC-eyjarnar og muninn á þeim í boði Lonley Planet. Sessunautur okkar í fluginu til baka til Amsterdam bætti því við að Bonaire væri lang notalegust og íbúarnir einstaklega gestrisnir, það get ég staðfest. Enda motto eyjaskeggja sagt (á ensku, sem allir tala): Once a visitor, always a friend. Aruba aftur á móti lang-ameríkaníseruðust.
https://www.lonelyplanet.com/articles/what-abc-island-should-i-visit