Maður og kona
11.5.2024 | 12:06
Ætlaði ekki að blanda mér í heitasta málefnið þessa stundina, fyrir utan forsetakosningarnar kannski. Það er fyrirbærið: Maður og kona. Hef verið mjög sátt við að geta talist til þessara tveggja tegunda af nokkrum sem til eru af þeirri sort sem ráðskast með þennan heim. Á langri starfsævi hef ég aðallega notað fjögur starfsheiti: Blaðamaður, þingkona, sagnfræðingur og tölvunarfræðingur.
Hef líka verið virk í kvennabaráttu sem meðal annars benti á að ,,konur væru líka menn" og framhaldinu sem lagði meiri áherslu á ,,kvennamenningu" þegar það þótti bara ágætt að vera kölluð kona.
Mér finnst yfirleitt best ef fólki er einfaldlega treyst til að nota tungumálið (fallega) og það hefur alls ekki truflað mig að taka mér í munn að ,,konu finnist nú betra að gera þetta eða hitt" ef ég á við sjálfa mig, stundum segi ég eins og í söngnum: ,,Maður getur nú ..." en aðallega er ég hætt við að vera hrædd við að segja: Mér finnst og ég get.
Mig langar hins vegar að benda á eitt dæmi, slag sem ég stóð í um og uppúr 1990 og aðrar á undan mér, og það var að fá þessu orðalagi í almennum hengingarlögum breytt, þannig að í stað þess að 194. greinin hefjist eins og hún gerir nú, yrði orðalagið: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við MANNESKJU með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun ... ".
Ef þið haldið að annars staðar í lögunum sé fjallað um þennan sama glæp gegn konum, sem eru langstærsti hópur fórnarlamba nauðgana, þá er það misskilningur. Þetta eru orðalagið sem enn er notað um það ef konu er nauðgað (skv. uppflettingu í lagasafni, ég var að vona að þetta hefði breyst, þætti verulega gott ef þessi uppfletting væri skökk), rétt eins og ef karlmanni er nauðgað eða þeim sem skilgreina sig á annan hátt.