Galdrafólkið kennarar
5.1.2024 | 20:42
Hvað sem segja má um íslenska skólakerfið, og það er auðvitað ýmislegt, þá efast ég ekki andartak um að þar má nú finna frábæra kennara, rétt eins og þegar ég var í skóla (sem hefur verið furðu oft). Það er svo margt sem ég hef haft með mér út í lífið, sem ég get rakið til góðra kennara og annarra sem höfðu varanleg áhrif á mig til góðs eða jafnvel ekki. Man helst þetta góða. Sleppi því að nefna nöfn, en vinir mínir og gamlir skólafélagar geta eflaust giskað. Í barnaskóla var ég mestmegnis heppin með kennara, fékk mjög góða undirstöðu, einkum í íslensku, og afskaplega jákvæð skilaboð út í lífið. Bekkjarkennarinn okkar lagði mikla áherslu á að við væru góð hvert við annað og ég man að hún sendi eitt sinn einn nemandann, sem átti undir högg að sækja, úr stofunni til að reka fyrir sig eitthvert erindi og á meðan sagði hún okkur að ef við sýndum honum á einhvern hátt leiðindi væri henni að mæta. Vinkona mín sem kom síðar í bekkinn fann því miður ekki fyrir sömu velvild en hrósaði henni fyrir íslenskukennsluna, held að það fyrrnefnda hafi komið okkur flestum á óvart.
Mamma útskrifaðist sem teiknikennari þegar ég var fimm ára og það hefur eftir á að hyggja verið mín lukka, þótt hún léti sem hún reyndi aldrei að kenna mér neitt. Var nefnilega ekkert sérlega heppin með teiknikennara í barnaskóla, en það breyttist heldur betur í gaggó, þegar við lentum hjá einum allra besta teiknikennara á landinu, þori ég að fullyrða. Þótt ég hafi síðar lært að nota (líka) aðrar aðferðir í myndlist en þær sem hann predikaði, þá var góður grunnur að læra að bjarga myndum án þess að nota strokleður, mæla ekki neitt, heldur þjálfa augað til að ,,sjá" hlutföll og nota íþróttasíður dagblaðanna til að finna módel í alls konar (undarlegum) stellingum. Í menntó stóð listafélagið hins vegar fyrir vikulegum kvöldum undir leiðsögn eins okkar besta teiknara og þar lærði ég að teikna með strokleðri. Í inntökuprófinu (sem stóð í heila viku) í MHÍ var ég örugglega eina manneskjan sem gerði tilraun til að teikna tauklemmu í yfirstærð í heilan dag, án þess að mæla. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist inn í skólann með bravör, en hefði ég fallið þá hefði það verið út af gömlu innrætingunni úr gaggó. Samt, ég held að hvor tveggja tæknin eigi rétt á sér.
Líklega hefur framúrskarandi sögukennari í MR ráðið mestu um að ég ákvað að fara (líka) í sagnfræði og bókmenntasögu meðfram náminu í MHÍ og þegar ég var þvinguð til að velja milli HÍ og MHÍ valdi ég sagnfræðina. Var svo lánsöm að hitta þennan velgjörðarmann minn í barnaafmælum síðar, af því hann var pabbi vinkonu minnar. Í sagnfræðinni var líka annar kennari minn úr MR sem hafði ekki minni áhrif á mig, sumir kölluðu hann alfræðibók og þá ekki til hróss, en hans þekking, þótt mikil væri, var miklu dýpri. Á háskólaárunum voru nýlendur, einkum í Afríku, ein af annarri að fá sjálfstæði og hann sagði fyrir um það með fáránlegri nákvæmni hvenær hver nýlenda yrði frjáls, hvers vegna og hvaða vandamál gætu fylgt í kjölfarið. Sama máli gengdi um upplausn Sovétríkjanna, sem voru löngu eftir hans dag, hann greindi með ótrúlegri nákvæmni þá togstreitu sem hefur verið á flestum átakasvæðum, vegna trúarbragða, efnahagslegra hagsmuna og mismunandi menningar.
Stærðifræðikennari í gaggó var að prufukeyra námsefnið Tölur og mengi, einmitt á mínum bekk, og kenndi mér því snemma á galdra tvíundakerfisins og mengjafræðinnar. Þegar ég fór að bæta við mig framhaldsskólastærðfræði sem hafði breyst mikið frá árunum fyrir 1970, naut ég góðs af þessum grunni, og einhvern veginn komst ég í gegnum mastersnám í tölvunarfræði um og uppúr fimmtugu, þótt máladeildarstúdent væri. Seinasti stærðfræðikennarinn í þeirri lotu bjargaði mér alveg gegnum þá glímu, enda kennari af guðs náð. Í tölvunarfræðinni var það samt kennarinn sem kenndi kúrsinn Samskipti manns og tölvu, sem lagði grunninn að tveggja áratuga störfum í hugbúnaðargerð. Hún var skipuleg, skemmtileg og fann fyrir okkur námsefnið sem einmitt varð til þess að ég hugsaði: Hér á ég heima.
Það er ekki öllum gefið að vera kennarar. Aðeins eitt ár af starfsævinni hef ég haft kennslu (í íslensku) að aðalstarfi og gleðst innilega yfir því að bæði ég og nemendurnir komumst heil frá þeim vetri. Þess vegna var ég undrandi þegar ég hitti, á myndlistarsýningu í fyrra eða hitteðfyrra, nemanda sem sagði mér frá þeim jákvæðu áhrifum sem ég hefði haft á hana. Engu að síður gerði ég rétt með því að velja mér ekki kennslu að ævistarfi. Það þarf sterk bein og mikinn mannkærleika og fagmennsku til að verða eins og þetta fólk sem reyndist mér svona vel. Það sem ég kann að hafa af svoleiðis löguðu nýttist þá í annað.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 20:50 | Facebook