Konan sem þoldi ekki ,,þessar kvennakonur!"
14.10.2023 | 23:53
Það verður varla undan því komist að verða hugsað til gamla ,,kvennafrídagsins" eins og umræðan er þessa dagana. Kvennaverkfall í uppsiglingu fyrir konur og kvár og nú á tímum samfélagsmiðla veit ég miklu meira um vangaveltur mikið fleiri kvenna (en engra karla) um þennan dag sem er framundan. Þannig hefur samfélagið breyst. Vangaveltur eflaust ekkert meiri en í upphafi þessara aðgerða, en birtast mér alla vega á allt annan hátt. Hvort það er gott eða vont hef ég ekki hugmynd um.
Kvennafrídagurinn er mestmegnis góðar minningar í mínum huga og þar á ofan var hann auðvitað ótrúleg upplifun. Það var stórkostlegt í einu orði sagt að fá að taka þátt í þessum heimsviðburði, finna kraftinn í allri samstöðunni og sjá þessar tugþúsundir kvenna fylla allan miðbæinn. Við vorum tvær saman þennan dag, ég og tilvonandi mágkona mín og jafnaldra og ekki hægt að biðja um betri félagsskap. Allir í kringum mig, nema ein gömul frænka, voru þarna á víð og dreif um þvöguna og aldrei spurning, við vorum allar með. Mamma ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, vinkonur mínar og fjölskylda öll (nema frænkan) á einu máli um þessa aðgerð. Vissulega fannst okkur sumum að þetta hefði átt að vera kvennaverkfall, en ekki frídagur, en þessi varð niðurstaðan og hún virkaði svona vel.
Fyrirvarinn sem ég set að dagurinn hafi einungis verið mestmegnis góður kemur til út af einu atviki. Eftir að fundinum á Lækjartorgi var lokið slóst ég í för með nokkrum gömlum skólasystrum og kærasta einnar þeirra og við fórum heim til einnar úr hópnum. Þær voru á þeim tíma talsvert virkari en ég í kvennabaráttunni og tóku sjálfar þátt í ýmsum aðgerðum Rauðsokka mun oftar en ég, enda áttu þær mun borgaralegri og stilltari mæður en ég, vel hugsandi konur vissulega, bara stillari en mín mamma var. Svo þær vissu eflaust að þær yrði sjálfar að redda þessu öllu saman meðan ég hafði fulla trú á að mamma væri svona hér um bil búin að því, prívat og persónulega. Nema hvað, einhver kergja var á milli eina parsins í hópnum og gengu einhver brigslyrði þeirra á milli, ég reyndi að leiða þetta hjá mér, en fékk samt smá bakþanka - mun þetta einhvern tíma verða í lagi, samskipti kynjanna? Þau, þetta ofurmeðvitaða fólk hundóánægð á þessum dýrðardegi? Áhyggjur mínar reyndist að ég best veit gersamlega ástæðulausar hvað þessi tvö varðaði alla vega. Þau hafa staðið þétt saman, æ síðan, og verið fyrirmynd annars fólks að mörgu leyti og getið sér gott orð í sínum störfum og einkalífi að ég best veit. En þennan dag varð ég svolítið áhyggjufull fyrir þeirra hönd.
Það er af gömlu frænku minni að segja að ég efast ekki um að hún hefur staðið við orð sín og straujað skyrtur eiginmannsins tvisvar þennan eftirminnilega dag. Afkomendur hennar hafa aftur á móti fetað mikla kvenfrelsisbraut, en það veit hún ekki, nema forvitnin hafi rekið hana til að fylgjast með að handan.
Tíu árum síðar var ögn annað andrúmsloft þegar ákveðið var að endurtaka leikinn með öðrum hætti og halda upp á tíu ára afmæli kvennafrídagsins með margvíslegri dagskrá, sýningum og öðrum uppákomum sem stóðu talsvert lengur en einungis þennan dag, þótt konur hyrfu ekki frá vinnu nema þá. Þá hafði ég hellt mér út í kvennabaráttuna og tók virkan þátt í undirbúningi og uppákomum dagsins og því sem á eftir fylgdi. Við vinkonur úr blaðamannastétt vorum allar á einu máli og einhvern veginn æxlaðist það þannig að okkur var falið að hafa samband við trúnaðarmann á vinnustað þar sem orðrómur hafði borist um að eigendur fyrirtækisins væru að reyna að koma í veg fyrir að konurnar sem unnu hjá þeim tækju þátt í dagskrá dagsins. Trúnaðarmaðurinn (kona) tók mér vægast sagt illa þegar ég bar upp erindið og við áttum fremur leiðinlegt samtal sem aðallega fólst í að hún mærði eigendur téðs fyrirtækis. Svo kvað hún upp úrskurð sinn í lok samtalsins og tilkynnti mér að hún þyldi ekki þessar ,,kvennakonur"!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.10.2023 kl. 14:50 | Facebook