Landasafnarar, álfusafnarar og: How do you like Portales?
4.5.2023 | 08:22
Mér finnst allaf gaman að lesa viðtöl við víðförult fólk. Sumir virðast hreinlega gera út að ,,safna" löndum eða heimsálfum. Aðrir hafa átt erindi mjög víða. Þótt ég hafi verið svo lánsöm að geta ferðast út um hvippinn og hvappinn, tvö stök rúmlega mánaðarlöng ferðalög vega þar þyngst, þá er ég afleitur landasafnari. Kannski hefur ein dagsferð flokkast undir að ,,bæta landi í safnið" og hún var ekkert sérstaklega áhugaverð. Bara ágæt. Þá vorum við mamma í Singapore, lógískur áfanga- og hvíldarstaður á leið til Möggu frænku á Nýja-Sjálandi. Dvöldum þar í fimm daga og þegar mamma sá að boðið var upp á dagsferð yfir landamærin til Malasíu (Johor Bahru) þá leist báðum okkur vel á það. Ágætis leiðsögumaður, gaman að sjá hvernig mjólkin rann út gúmmítrénu sem við vorum teymd að, leist ekkert illa á borgina, sem ég sé nú að er mikil menningarborg skv. gúggli. Við urðum ekkert sérlega varar við það. Dagsferð er dagsferð og ég hef farið í margar áhugaverðari.
En áhugi minn hafði vaknað á Singapore, hverfaskiptingunni þar eftir trúarbrögðum (áberandi alla vega þá, um 1990) einkum hverfinu sem við vorum í sem skartaði fallegri mosku við endann á götunni sem lá upp frá hótelinu okkar. Þannig að þegar ég átti aftur leið um Asíu nokkrum árum síðar, valdi ég að skoða Singapore betur í stað þess að bæta löndum ,,í safnið" og gerði það, á leið, aftur til Möggu frænku og síðan á 8 daga ráðstefnu í Ástralíu.
Mitt flökkueðli dregur mig stundum á nýjar slóðir, hægt og bítandi, en ég sæki líka mjög í að fara aftur (og aftur) á staði sem toga sérstaklega í mig, og ekki alltaf af sömu ástæðu. Þannig hef ég komið óeðilega oft til Portales í Nýju Mexíkó, af því þar átti ég systur, árum saman. Þegar íbúar Portales (alla vega aðfluttir kennarar við háskólann þar) spyrja þig: How do you like Portales? þá eru þeir ekki að fiska eftir svörum sem Íslendingar eru vilja fá við hinni sígildu spurningu: How do you like Iceland? Nei, þvert á móti. Þarna er nefnilega almenn kurteisi að svara: Einstaklega óáhugaverður bær, ekkert að sjá, fátt að gerast. Sumir mundu bæta við: 12 kristileg skólasamtök við sömu götu. Bærinn er í jaðri biblíubeltisins, og alls engin Santa Fe, sem talin er áhugaverðusta borg Nýju-Mexíkó með sínar Santa-Fe bláu hurðir og gullfallegu hús og landslag. Mér finnst Portales samt bara fínn bær, eitt gott kaffihús, þar fékk ég líka æðislegt taco á bílaverkstæði og gönguleiðir (ekki gangstéttir samt) góðar. Veðrátta oftast góð.
Staðirnir sem toga í mig reglubundið eru elsku London mín, sem ég hef heimsótt ótal sinnum, Hamborg, sem ég kynntist seint af viti, en tók ástfóstri við og heimsótti árlega eftir að ég bjó þar lungann úr árinu 2015, Seattle sem mér finnst skemmtilegust þeirra amerísku borga sem ég hef komið til og Evrópa suður- mið- og austanverð, en þangað fór ég í viðburðaríka ferð þegar ég var 22 ára þegar þetta voru kommúnistaríki og hræbillegt að ferðast þar um með réttan stúdentapassa. Hef notað hvert tækifæri til að heimsækja löndin aftur (sem hefur reyndar fjölgað eftir hrun Sovétsins). Amsterdam er að stimpla sig inn, enda tíðari ferðir þangað eftir að sonur okkar fluttist þangað. Jú, og svo auðvitað fjölskyldufrí á Gran Canaria, sem voru árviss viðburður í næstum áratug.
Þegar ég tek þátt í leikjum á Facebook, þar sem ég merki á landakort til hvaða landa ég hef farið vantar áberandi mikið inn. Landmassann í Rússlandi og gervalla Suður-Ameríku. Hvort tveggja svæðið hefði ég hæglega getað verið búin að ,,afgreiða" ef ég stæði mig í stykkinu sem landa- og álfusafnari. Læt öðrum það eftir, ofar á listanum hjá mér er að koma til annarra staða sem toga mig meira, aðallega gamalla, en líka nýrra ef guð lofar.
https://tomi5.github.io/interactive_visited_countries_map/