Forréttindi að fæðast í flókna fjölskyldu
1.5.2023 | 15:42
Fyrst: Ofstuðlunin í fyrirsögninni er viljandi og kórrétt. Ekki meira um það.
Held að ég sé fædd inn í óvenju flókna fjölskyldu. Við sem hittumst í kaffi í gær, eins og við gerum stundum, vorum auðvitað bara að spjalla ofurvenjulega saman. Litla systir sagði stóru systur frá einhverju um móðursystur hennar (stóru systur) sem er einnig móðursystir frænku hennar (stóru systur, en ekki okkar hinna) en hún (frænkan) var einmitt með okkur á kaffihúsinu. Móðursystir þeirra frænkna (sem eru fæddar 1949) er aftur á móti fædd sama ár og litla systir (1965). Ég sagði þeim að Kristján bróðir hans Georgs bróður hefði verið að spyrjast fyrir um mynd, sem ég var þegar búin að lofa frænku okkar í Danmörku.
En þetta er bara sýnishorn úr föðurfjölskyldunni. Ég er vön að gera grein fyrir mér, ef fólk er eitthvað að ruglast á mínum fjölskylduhögum, með því að segja, réttilega, að ég sé einkabarn í móðurætt og af mið-hjónabandi beggja foreldra, sem er rétt. Núna þegar ég og minn góði eiginmaður höfum búið saman í 48 ár held ég að hann sé alveg hættur að kynna sig sem fyrsta eiginmann minn, sem hann vissulega er þó.
Mér finnst alltaf besta lýsingin á móðurfólkinu mínu þegar ég var að skila kveðju til frænku minnar, sem ég nánast bjó hjá á unglingsárum og ólst upp með sonum hennar, sem fyrst voru heimagangar á mínu heimili, flestir, en síðan fékk ég gott athvarf hjá þeim í miðbænum þegar ég var að koma af böllum (sem gat verið upp í 4 kvöld í viku) þegar ég var í menntó og að byrja í háskóla. Skólasystir mín í sagnfræðinni bað fyrir góðar kveðjur til þessarar frænku minnar en hún var ekki alveg að kveikja strax. Svo fattaði hún auðvitað, já, hún, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns, indælis kona!
Ekkert af þessu væri samt gott nema vegna þeirra yndislegu ákvörðunar foreldra minna að halda góðu sambandi áfram eftir skilnaðinn. Þeirra næstu makar voru sannarlega ekki síðri. Mamma giftist fóstra mínum sem hafði beðið eftir henni meðan hún gifti sig í tvígang og þau áttu farsæl 45 ár saman. Pabbi giftist góðri konu sem var mér einstaklega góð og taldi það ekki eftir sér að hafa mig á heimilinu hluta úr sumri meðan þau bjuggu á Seyðisfirði, en það voru mikil sæluár, því miður féll hún frá allt of ung og pabbi líka. Hann var líka heimsins besti sunnudagspabbi þegar hann var í því hlutverki og leyfði mér að klifra upp í vita og leika mér að ritvélum og reikninvélum þegar ég fór með honum á skrifstofuna hans. Golfskálinn í Öskjuhlíð og heimsóknir okkar þangað voru líka nóg til að ég ákvað að gerast golfari á efri árum. Öll töluðu þau foreldrar mínir mjög vel hvert um annað. Ég vissi ekki þá, en veit það nú, að það er ekkert sjálfgefið að svo sé. Ekki voru allir í fjölskyldunni jafn heppnir og ég.
Mamma hélt góðu sambandi við föðurfólkið mitt eftir að hún skildi við pabba eftir sjö ára hjónaband og ég gat gengið út og inn hjá föðursystur okkar sem þekkti mig betur en margir, því hún færði mér alltaf kaffi, ost og ostaskera (ekkert kex eða brauð, sko!) þegar ég kom í heimsókn, sem var býsna oft. Eina manneskjan sem þekkti mig svo vel. Hjá henni fékk ég oftar hvalkjöt í matinn en heima (þar sem það var þó ekki óþekkt) og furðu vel matreitt.
Var aðeins að reyna að útskýra fyrir danskri náfrænku minni (bræðradætur) eitthvað um fjölskylduna okkar, en við ætlum að hittast núna um helgina í Kaupmannahöfn. Sendi henni auðvitað skipuritið sem ég útbjó fyrir Jónsmessusýningu Grósku, líklega 2019. Sem bara rétt dekkar okkur systkinin fjögur og okkar fjölskylduþræði. En við spjöllum betur á laugardaginn.
Hana hef ég ekki hitt síðan við fórum ásamt fleiri ungum ættingjum í þriggja stunda reiðtúr frá Hrísbrú í Mosfellsdal, upp að Tröllafossi og niður með honum (það var þá sem ég var komin fram á eyru á hestinum, en ég held að Salli frændi og fararstjórinn hafi verið þeir sem toguðu mig aftur á réttan stað). Þetta hefur verið 1964 eða 1965, ég var alla vega ca. 12 ára og Pia frænka árinu yngri. Hún segir að þetta hafi verið reiðtúr ævinnar fyrir hana og fannst björtu kvöldin hreinasta ævintýri, mig minnir að þetta hafi verið snemmsumars.
Ykkur finnst textinn kannski óþarflega ruglingslegur. Þið ættuð þá að sjá fjölskylduna.
Vor í Kaupmannahöfn framundan og kannski kynnist ég fleiri fjölskylduflækjum.