Seinþreytt til vandræða, en ...
16.4.2023 | 03:41
Hef líklega yfirleitt verið talin seinþreytt til vandræða. Eitt sinn gerði ákveðin manneskja mjög alvarlega á hlut minn og ég ákvað að setja á náttborðið minnismiða til að minna mig á að vera ekki að heilsa þessari manneskju með virktum ef við rækjumst saman, eins og ég hefði mögulega óvart gert annars.
En það kemur fyrir að mér misbýður alvarlega. Sem betur fer er ég ekki (svo vitað sé) göldrótt, en það varð samt ástæða til smá athugasemdar á Facebook þegar ég gagnrýndi fyrirtæki sem sýnilega var að reyna að svindla á fólki, og það meira að segja staðsett í öldrunarblokk, þar sem mögulega voru einhverjir sem gátu illa séð í gegnum svindlið. Aðallega gagnrýndi ég þó getu- og eða viljaleysi þeirra aðila sem ég tilkynnti um svindlið til að taka á því (hjá fyrirtækinu). Tveimur eða þremur dögum eftir að ég setti mína gagnrýni á Facebook var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið hefði farið á hausinn. Augljóslega átti ég engan þátt í því, en kannski voru sömu öfl sem stóðu fyrir svindlinu og komu fyrirtækinu á hausinn. Engu að síður fékk ég dásamlegt komment í tengslum við þetta, frá djúpvitri dóttur minni, eitthvað á þessa leið: Don´t mess with my mother, you might regret it!
Lengi vel trúði ég því að það fyki bara í mig á svona fimm ára fresti, en mögulega er það eitthvað að breytast. Blessaðir yngri strákarnir í sveitinni minni urðu logandi hræddir þegar ég reiddist eitthvað þriðja sumarið sem ég var þar, mér sem fannst ég svo meinlaus. Einhverju sinni varð systir mín, sem þá var búsett erlendis, vitni að því að sýningarhaldari hafði/eða þóttist hafa týnt 2-3 málverkum eftir mig. Ég leit víst eitthvað hvasst á hann og sagði lágum rómi og sjálfsagt með samanbitnar tennur: Þú finnur þessar myndir! Hún sagði eftir á að hún hefði orðið hálf smeyk, en þetta dugði. Hann fór bakatil og sótti verkin og afhenti mér.
Þannig að ef þið haldið að ég sé meinleysisgrey, eins og ég lít út fyrir að vera, þá er það bara ykkar mál. En ég tek það fram að ég held ég eigi bara alls ekkert sökótt við ykkur, kæru lesendur.