Kæra Krít, taka 2

Eins og fram hefur komið hér á síðunni hef ég tekið miklu ástfóstri við eyjuna Krít og fór þangað fjórum sinnum frá nóvember 2016 til júní 2020, þar af tókst mér einu sinni að fá Ara minn með. Fornleifarnar í Knossos hef ég skoðað í tvígang, í báðum tilfellum þegar fáir voru þar á ferli og tók góðum ráðum og fékk mér leiðsögn, hana Alexöndru í fyrra skiptið sem einkaleiðsögumann, en í seinna skiptið vorum við Ari í öðrum af tveimur, litlum hópum á svæðinu, þeim enskumælandi, en hinn var grískumælandi. Eins og mér finnst nú fallegt að skoða fornleifar þar sem málning fortíðarinnar hefur máðst út, þá er svolítið hressilegt að sjá að á Krít hafa menn ekki hikað við að endurmála hluta þeirra fornminja sem þar eru varðveittar, reyndar er varðveisluaðferðin rakin til Sir Arthur Evans, sem á mestan heiður á endurheimt Knossos að öðrum ólöstuðum fyrir rúmlega einni öld eða svo og hélt þar áfram verki fyrirrennara síns, Minos Kalikairinos, sem sjaldan er getið. Fann skemmtilega grein um málið, af því sagnfræðingurinn í mér vildi fá að vita aðeins meira en hún Alexandra sagði mér, sem var þó heilmargt. 

https://www.khanacademy.org/humanities/ancient-art-civilizations/aegean-art1/minoan/a/conservation-vs-restoration-the-palace-at-knossos-crete

IMG_5508

Það er ekkert ósennilegt að ég eigi eftir að blogga meira um Krít og vonandi að fara þangað enn einu sinni (tvisvar ... þrisvar ... ). Til dæmis uppgötvaði ég borgina Chania ekki strax, en dvaldi þar hjá henni Despoinu seinast þegar ég kom við á Krít, í vikunni eftir að ýmsum samkomutakmörkunum var aflétt þar, tímabundið auðvitað. Gamli bærinn er sérlega skemmtilegur og þar er fullt af stórfínum gististöðum, kaffihús á hverji horni og fallega, rómverska höfnin er umvafin ágætis veitingahúsum og skemmtilegu mannlífi, en við moskuna eru alls konar menningarviðburðir tíðir og þeir höfða meira til íbúanna sjálfra, sem leita í götu fyrir ofan hana þegar þeir fara sjálfir út að borða (og drekka). Þangað beindi hún Despoina mér auðvitað, þótt hún væri ekkert að dissa veitingahúsin við höfnina góðu, þar sem sjórinn er svo tær að fiskarnir næstum glápa á móti á túristana sem eiga leið þar hjá. Mér skilst að það geti orðið ansi heitt þarna stundum á sumrin, en ég hef undantekningarlaust verið í mjög þægilegu loftslagi í október/nóvember og maí/júní. Meira seinna, býst ég við :-)

33463154_10216426664877625_1943977712284598272_n (2)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband