Aratunga á Rarotonga
22.3.2023 | 15:50
Eyjan Rarotonga í Cook-eyjaklasanum í Suður-Kyrrahafi er alveg klárlega sérstakasti staðurinn sem ég hef komið til. Í heimsferðinni okkar mömmu 1989 á heimleið frá frá Nýja-Sjálandi, þar sem við heimsóttum Möggu frænku, gátum við valið hvort við stoppuðum þar í ca 40 mínútur eða viku. Svo tíðar voru ferðirnar þangað. Við völdum vikuna og sáum ekki eftir því, þótt við höfum ekki beinlínis lent þar í sólarferð, skúrir flesta daga nema þann fyrsta og þægilegur hiti kringum 30 gráðurnar. Sjórinn alveg yndislega mátulegur.
Þetta var einn þriggja áfangastaða á litlum eyjum í Suður-Kyrrahafi, lengsta stoppið og skemmtilegasta umhverfið. Eyjan er eiginlega bara eitt, frekar lítið fjall og smá láglendi í kring, um það liggur hringvegurinn sem er 33 km á lengd og þar fara allir sinna ferða á skellinöðrum, eða gerðu það þegar við vorum þar. Ég leigði eina slíka, en til að fá að nota hana þurfti ég að kaupa mér ökuskírteini, sem ég gerði auðvitað. Snattaði eftir nauðþurftum og fannst ég vera orðin heimamanneskja.
Okkur hafði verið sagt að það væri tvennt sem við ættum að gera, fá okkur ökuskírteini og fara í kirkju. Ekkert sérlega kirkjuræknar en þar sem það var einmitt kirkja við hliðina á gististaðnum okkar, The Edgewater Resort and Spa, gerðum við það á sunnudeginum. Komum reyndar og fórum á þriðjudegi (en lentum á Tahiti á mánudeginum á undan brottförinni frá Raró, og hefðum verið gistingarlaus síðari aðfaranótt þriðjudags ef ég hefði ekki fattað að við vorum að fara yfir daglínuna).
Kirkjan var fín og messan frjálsleg, konurnar mættu í sínu fínasta pússi með blómahattana sína, en það var eitt af því sem við áttum að taka eftir. Presturinn sagðist vera launaður eftir því sem honum gengi að halda uppi heilbrigðu unglingastarfi, ekki verra en hvað annað.
Trúboðarnir sem komu til Raró voru frjálslegri en margir þeirra sem fóru um nágrannaeyjar og voru með sama hátt og Þorkell Ljósvetningagoði, fólki var áfram heimilt að blóta í laumi, í þessu tilfelli var það að dansa sína heiðnu dansa, en hvergi í Suður-Kyrrahafi þykir dansmenntin betri. Þrátt fyrir dálítinn skort á samanburði get ég alveg staðfest það. Á Fiji voru það karlar sem sáu um dagsinn og hann alls ólíkur þessum, líka góður en bara ekki eins góður.
Hvorug okkar mömmu er gefin fyrir skordýr, en einhvern veginn lifuðum við þessa viku stórra skordýra af. Ég taldi mig vera lífvörð mömmu gagnvart kóngulóm, en þegar risastór kakkalakki flaug á mig undan símanum fyrsta kvöldið dró ég rúmið út á gólf og öll lök kyrfilega upp. Fljúgandi kakkalakkar, já! Og það sem meira er, þegar þeir fljúga þykir það, samkvæmt þjóðtrú Cook-eyjaskeggja, vita á rigningu, en daginn eftir fór einmitt að rigna.
Í höfuðborginni, Avarua, rakst ég á nokkurs konar ,,Aratungu" og mamma smellti auðvitað af mér mynd sem ég gat sýnt Ara mínum þegar heim var komið. Ekki var það nú verra.
Við sem höfum ferðast og lesið bækur þurfum aldrei að láta okkur leiðast, meira að segja ekki á síð-pestardögum, alltaf gott að grípa næstu minningu og stundum líka að setja hana á blogg.