Til hamingju Controlant með UT-verðlaunin - frábært að vinna

Controlant er einstakt fyrirtæki á margan hátt. Margvíslegar viðurkenningar hafa fallið fyrirtækinu í skaut, ekki einungis frá því það komst í sviðsljósið sem mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem gerði heimsbyggðinni kleift að spyrna myndarlega við fótum þegar kórónaveiran fór að herja og virti hvorki landamæri né annað. Strax árið 2009 mátti sjá hvert stefndi, þegar Controlant fékk frumkvöðlaverðlaunin Gulleggið (en er nú orðið bakhjarl verðlaunanna). Í dag bættust merkileg verðlaun í safnið, UT-verðlaunin sem veitt eru á UT-messu Ský á ári hverju. Sömu stofnendur fyrirtækisins tóku við þeim og forðum daga fyrir 14 árum. 

Heimasíða Controlant gefur hógværa mynd af því hverju fyrirtækið hefur áorkað, en er engu að síður áhugaverð. Controlant

Ögn meira var sagt fyrirtækinu til hróss fyrir tveimur árum þegar Útflutningsverðlaunin voru veitt: Controlant Útflutningverðlaun og í ótal blaðagreinum sem birst hafa á undanförnum árum. 

Já, það er frábært að vinna. Og það get ég sagt í tvennum skilningi, annars vegar var auðvitað Controlant að vinna og hins vegar er ég búin að vinna hjá Controlant í rétt rúmt ár. Hrein tilviljun réði því að ég var viðstödd þessa verðlaunaveitingu, sat úti í sal og fagnaði innilega, því ég hafði ekki hugmynd um að nákvæmlega núna fengi fyrirtækið sem ég vinn hjá nákvæmlega þessi verðlaun. Ég var ekki einu sinni stödd á UT-messunni á vegum fyrirtækisins, því ég hef sótt þessa messu nánast óslitið frá upphafi, rétt fyrst á vegum hugbúnaðarfyrirtækja sem ég hef unnið hjá, en frá árinu 2016 á vegum Ský, þar sem ég fékk það verkefni að skrifa 50 ára sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi, sem út kom 2018, á vegum þeirra. Fyrir næstum mánuði nefndi ég við minn næsta yfirmann hvort það væri í lagi að ég eyddi þessum degi í þá endurmenntun sem UT-messan ávallt er, og hún hélt nú það. Svo kom babb í bátinn því annar þeirra sem veitti verðlaununum móttöku í dag var búinn að skipuleggja heils dags vinnufund okkar í rannsókn og þróun innan fyrirtækisins. Ég treysti því að því yrði frestað, og það reyndist rétt, svo ég komst, og hann auðvitað að taka við þessum verðlaunum. 

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir fimm árum var það ekki síst til að hafa tíma til að fylgja eftir í gegnum útgáfu þessari tölvusögu sem Ský réð mig í að skrifa. Síðan tóku við fjölmörg verkefni, glæpasagnaskrif, vatnslitun og ekki síst góðar stundir með mömmu, meðan hennar naut við, en í dag eru þrjú ár síðan hún lést, níræð að aldri. Þetta var dýrmætur tími. Alltaf gat ég þess samt að ég gæti hugsað mér að snúa aftur í hugbúnaðarbransann og fyrir 13 mánuðum kom dóttir mín inn um dyrnar heima og sagði: Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér! Þremur vikum síðar hóf ég störf hjá Controlant, átti þá fjóra mánuði í sjötugt. 

UT-messan er alltaf eins og stúdentaafmæli. Gaman að hitta gamla vinnufélaga og nýja, kennarana sem eiga heiðurinn af því að mér tókst að ljúka mastersnámi í tölvunarfræði (hitti einn þeirra í dag og náði að þakka honum) en þetta er í fyrsta sinn sem ég ákvað að vera viðstödd verðlaunaafhendinguna! Ekki veit ég hvað rak mig inn í salinn, en mikið var ég glöð að hafa ákveðið þetta. Fyrr um daginn hafði ég hlustað á einn félaga okkar hjá Controlant eiga stjörnuframkomu í einu af ótrúlega mörgum góðum erindum á messunni. Svolítið stolt í dag, og mig grunar að ég hafi verið eina af okkur vinnufélögunum sem var alveg grunlaus um hvað í vændum var, því ég var þarna í mesta sakleysi á vegum Ský (og þar á bæ kann fólk að þegja). ut verdlaun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband