Ætlaði alltaf að fara snemma á eftirlaun og skrifa glæpasögur
9.11.2020 | 00:42
Góðu fréttirnar fyrst: Í byrjun nýs (og betra) árs, 2021, kemur út fyrsta glæpasagan mín hjá forlaginu Sæmundi. Við erum tímanlega með hana tilbúna í prentun, sem er gott á þessu makalausa ári 2020.
Vinnufélagi minn sagði eitt sinn við mig, þegar ég sagði að ég stefndi á ,,early retirement": ,,How early is early?" Meiningin var að fara að skrifa glæpasögur og helga mig því það sem eftir væri ævinnar og flækjast aðeins um heiminn í leiðinni. Mér tókst alla vega að fara aðeins fyrr á eftirlaun en gengur og gerist hér á landi, var aðeins 65 ára þegar ég neyddist til að drífa mig á eftirlaun, vegna annríkis. Það vor, 2018, var ég að fylgja tveimur bókum mínum eftir í útgáfuferli. Hvorug þeirra var glæpasaga. Nú, næstum þremur árum síðar, er mín fyrsta að koma út, önnur í vinnslu, þriðja og fjórða mótaðar í kollinum en það er mikið verk að skrifa. Fullyrði ekkert um hvort þær koma í kjölfarið, það bara kemur í ljós.
Skrifaði mína fyrstu glæpasögu þegar ég var tólf ára, lesandinn var Amalía vinkona mín og hún vildi að ég skrifaði fleiri. Það dróst aðeins. Ég verð eiginlega að muna að senda henni eintak af glæpasögu nr. 2. Af þeirri nr. eitt man ég ekkert nema að söguhetjurnar hétu Ína og Ída, og að ég myndskreytti bókina. Núna er ég reyndar að myndskreyta bók sem kemur út seinna á næsta ári, en hún er eftir allt annan höfund og næstum alveg glæpalaus. Þannig að ég er búin að skipta gömlu aðferðinni minni upp í tvo verkþætti.
Var að fá tillögu að kápumynd á mína (glæpa)sögu og er mjög hrifin, gaman að sjá hvernig aðrir upplifa frásögnina mína. Auðvitað hafa fyrri bækurnar mínar líka farið í hendur fagfólks með góðum árangri, en það er svolítið annað.
Meira um þessi ævintýri þegar nær dregur.