Hópspennufall
23.5.2007 | 23:54
Cesar er död, Napoleon er död og selv föler jeg mig faktisk lidt sloj, sagði í gömlum brandara. Hálf dösuð þessa stundina, vinnan hefur verið óvenju lýjandi, stjórnmálin reynt á þolrifin, alla vega réttlætiskenndina og svo er þetta svikavor ekki alveg við minn smekk. Ég kann miklu betur við sól og blíoðu, og þá meina ég logn og hlýju. Mér finnst ég skynja svipað víða í kringum mig. Í vinnunni eru auðvitað ýmsir á sama bát, talsvert álag þessa dagana, þannig að það er engin furða, bloggvinir fagrir eru í sömu súpunni og ég, einhverjir fagna ákaft, en fleiri finnst mér hálf hugsi. Og öll þjóðin heyrist mér vera meira og minna öskuill út í verðurguðina, svona eftir því sem hún þorir.
Ég er að upplifa í annað sinn að skuldinni er skellt á rangan aðila, nefndi um daginn hvernig Kvennalistakonum var kennt um að þær lentu ekki í stjórn á sínum tíma, þótt þeim væri ætlað að hanga með upp á vonlaus býti, og eins finnst mér núna að Steingrímur J. sé gerður að blóraböggli að ósekju fyrir að hafa talað hreinskilnislega um hvernig honum þætti réttast að standa að stjórnarmyndunarviðræðum og hvers konar stjórn hann teldi helst í anda kosningaúrslitanna. Það var hreinlega ekki stjórn með Framsókn innanborðs, skýr skilaboð kjósenda, en það var heldur ekki stjórnin sem nú hefur verið mynduð. En vitanlega lokaði hann aldrei á neina leið, það vita allir sem hlustuðu á hann og aðra málsvara Vinstri grænna.
Sannarlega vona ég að stjórnin reynist farsæl en skynja ákveðna ábyrgð og alls ekki þakklátt hlutverk Vinstri grænna í sögulegri stjórnarandstæðu.
Athugasemdir
Mér líður líkt og þér mín kæra. Er eins og splæstur vindill andlega. Vegna veðurs og vegn stjórnmálanna. Það misbýður svo réttlætiskennd minni að Samfó fóru af stað með að kenna Steingrími um. Langsóttur fjandi og ferlega ósanngjarn. Voru það VG sem fóru í stjórnarviðræður með íhaldinu sem fyrsta kost? Ég held ekki.
Jenný Anna Baldursdóttir, 24.5.2007 kl. 00:00
Les pistla Ögmundar Jónassonar ákaft þessa dagana, þeir eru góðir en sá nýjasti er samt bestur, hressandi greining og hárbeitt.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 24.5.2007 kl. 00:17
Sammála þér um að stjórnarsáttmálinn sé óljós - en þeir/þau eru strax byrjaðir að tala sig frá skoðunum sínum, t.d. Kristján L. Möller sem akkúrat núna vill ekki tala óábyrgt í Ríkisútvarpið um gjaldfrjálsan akstur í gegnum Vaðlaheiðargöng. Reyndar er ég tilbúinn til að borga fyrir aksturinn þar í gegn ef ég fæ göngin, sem ég vil að fari líka undir Eyjafjörð til að forðast tafir fyrir Þingeyinga á Akureyri og minnka mengunina hér í bænum.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.5.2007 kl. 08:05
Mér líst sérlega vel á göngin undir Eyjafjörðinn af sömu ástæðum og þú nefnir, Ingólfur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 24.5.2007 kl. 11:58