Fyrst ekkert er að frétta (á yfirborðinu alla vega) af stjórnarmyndunarviðræðunum, þá er alveg nauðsynlegt að tala um veðrið aðeins. Eftir himneskan sumardag á Akureyri, þegar ég skrapp til að fagna með Málmfríði vinkonu minni, þá hef ég ekki haft neitt óskaplega mikla vortilfinningu. 20 stigin fyrir norðan breyttust í frost og snjókomu á svipstundu en ég var flogin suður áður en til þess kom.
Mig langar svo óskaplega til að fá sumar, sól, logn og hlýju, helst um allt land, í sumar. Til vara alla vega hér á þéttbýlasta horninu, þar sem flestir geta notið þess. Nú er rétt búið að aflýsa ísöld hér á norðurhveli, í kjölfar gróðurhúsaáhrifanna, þannig að við þurfum ekki að selja húsin og finna fjallstind á Kanarí (út af hækkun sjávarstöðu) til að þrauka til æviloka. Nóg eru áhrifin samt og þótt þessum ragnarökum hafi verið aflýst í bili, þá þýðir auðvitað ekkert að taka úðabrúsana og úða út í loftið eða grípa til annarrar ábyrgðarlausrar hegðunar.
Mig langar í betri almenningssamgöngur, helst rafmagnslestir, hef aldrei skilið þetta lestaleysi hér á landi, þetta er skemmtilegasti ferðamáti sem um getur, minni bið en í flugi, hraði, þægindi og furðu mikið öryggi. Sé fyrir mér leiðina Vatnsmýri - Kársnes (um göng) - Gálgahraun (um göng) - Hafnarfjörður - Vogar - Bláa lónið (hverjir eru bíllausir á Íslandi?- túristar!) - Keflavíkurflugvöllur. Alveg hugfangin af hugmyndinni. Þyrfti bara að taka tengivagn í 2-3 km (eða rölta út í hraun á góðum sumardegi) og þá væri ég komin í miðbæinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.5.2007 kl. 00:00 | Facebook
Athugasemdir
Ég skal alveg ræða við þig um veðrið.
Hérna er alveg svaðalega gott veður, rúmlega 30 stiga hiti um 10 í morgun. Meiri segja svo heitt að maður endist ekki almennilega í sólabaði, nema stuttan tíma í einu...
En best að fara aðeins út aftur, svona áður en maður fer í skólann...
Jóhanna 17.5.2007 kl. 08:40
Eigum við að blanda saman umræðum um veðrið og stjórnmál (les. samgöngumál)? Mér líst vel á að ef ekki er hægt að hafa sumar, sól og hita (án vindkælingar) um allt land þá verði mest af góða veðrinu á suðvesturhorninu þar sem flestir geta notið þess, eins og þú segir, og líka til að vega upp á móti skertu vægi atkvæða.
Mig langar líka í almennilegar almenningssamgöngur. Værir þú til í að vera samgönguráðfrú í DV-stjórn? Ég skal vera aðstoðarráðfrú. Við myndum auðvitað byrja á því að leggja Reykjavíkurflugvöll af. Ég legg ekki í það sem sumir stefna á að "flytja" flugvöllinn burt. Enda svo sem ekkert skrítið að hann sé enn þarna í Skerjafirðinum meðan fólk setur sér svona háleitt markmið að "flytja" hann. Er það ekki? Þetta mun ganga allt miklu betur ef ákveðið verður að "leggja hann niður" þar sem hann er og "leggja annan" annars staðar. Þá fyrst geta konur og karlar hafist handa.
Veðrið þennan morgunin er ekki skemmtilegt! Eiginlega haustveður. Geturðu e-ð gert til að laga það?
HG 17.5.2007 kl. 09:41
Á ekki skárra úrræði en að fara il Hönnu í Ungverjalandi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.5.2007 kl. 12:09