VG og valkostirnir

Þessar dæmalausu kosningar enduðu jafn klúðurslega og spár höfðu bent til. ,,Allt opið" og enginn góður kostur. Kaffibandalagið (sem ég hefði gjarnan viljað sjá án sumra frjálslyndra) er ekki inni og þá er sú spurning nærtækust: Hvaða kostir eru í stöðunni? 

Mér finnst Vinstri græn skulda kjósendum sínum það að komast í stjórn, fyrir allan stuðninginn. Eða, ég leiðrétti mig: Skulda þeim það að komast til áhrifa, og það er best gert í ríkisstjórn. Nú er það ekki dagljóst að VG geti efnt það fyrirheit, því enn leyfi ég mér að óttast SS stjórn, sem ég tel vondan kost. Það eru tveir nokkuð jafnir kostir í stöðunni: DV stjórnin, eins og ég hef heyrt samstjórn Sjálfstæðisflokks og VG kallaða og vinstri stjórn með Framsókn innan borðs. Ég veit svei mér ekki hvort kosturinn er ásættanlegur, hvorugur er nein sérstök óskastjórn.

DV: Gömul nýsköpunarstjórnarrómantík er vissulega til í ýmsum, þegar Sósíalistaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fóru saman í stjórn fyrir mörgum áratugum, þá varð það mjög farsæl stjórn að margra mati. Kostir: Semja þyrfti um allt, því flokkarnir eru rosalega ólíkir, það getur verið kostur umfram SS stjórn, þar sem hægri öflin í Samfylkingunni fengju byr undir báða vængi. Í DV stjórn fengju sósíaldemókratísku öflin í Sjálfstæðisflokknum líklega farveg, sem út af fyrir sig væri allt í lagi. Sjálfstæðisflokkur hefur spilað passívur í stóriðjumálum og það yrði væntanlega hægt að slá af einkavæðingaráform, sem engin trygging er fyrir að SS stjórn myndi gera. Velferðarmál yrðu áreiðanlega vandmeðfarin í þessum félagsskap, þótt Geir sé vissulega mildari ásýnd en Davíð í þeim málum. Evrópusambandsmál yrðu ekkert vandamál, áfram frjálst land. Önnur utanríkismál, alveg eins ruglað og í svokallaðri ,,vinstri stjórn". 

Vinstri stjórn með Framsókn. Helsti kostur yrði virkileg áhersla á velferðarmálin. Ókostur að vinna með Framsókn í sárum, ég er sammála Steingrími að því leyti að Framsókn er varla ríkisstjórnarhæf í því ástandi sem hún er nú, þó með þeirri undantekningu að ég held að Sunnlendingarnir myndu mæta galvaskir til leiks. Mér finnst frábært að Guðni skuli vera kominn með Bjarna Harðar sér við hlið, einkum minnkar það hættuna á að Samfylkingin geri eitthvert bandalag við hægri Framsókn (Valgerði og co) um að þrýsta á að hefja aðildarviðræður að ESB. Verk Framsóknar í umhverfismálum og afstaða sumra Samfylkingarmanna gæti orðið meiri fyrirstaða en samvinna við Sjálfstæðisflokkinn í sama málaflokki, merkilegt nokk. Samt held ég ekki að nokkur stjórnmálaflokkur með fullu viti muni mæla áframhaldandi stóriðju bót. Málefnalega eigum við ágæta samleið með vinstri Samfylkingarfólki og myndum vonandi efla það gegn hægri kratisma sem ég tel ljóð á ráði annarra Samfylkingarmanna. 

Margt fleira spilar inn í. Hvað finnst ykkur hinum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fyrsta sem mér datt í hug við lesturinn á pistlinum þínum var spurningin um samstarf VG og D. Ég er handviss um að þessir flokkar geta auðveldlega farið í samstarf. Ég hef reyndar alltaf haldið því fram að það sé ekki langt bil á milli VG og D. Það eru ákveðin grundvallarelement sem eru lík og rík í báðum þessum flokkum. Á sama hátt og þeir eru tilbúnir að ráðast í drastískar breytingar á sumum sviðum (D t.d. í einkavæðingarmálum og VG í umhverfisverndarmálum) þá klossbremsa báðir og verða íhaldsflokkar þegar talið berst að breytingum eins og upptöku evru, umræður um aðild að ESB o.s.frv. Í afar mörgum málum sem ég hef verið þáttakandi í umræðum um stjórnmál hafa VG og D talað einum rómi. Ég held þess vegna að þessi möguleiki sé eitthvað sem báðum flokkum D og VG hugnast eins og staðan er núna. 

Anna Ólafsdóttir (anno) 14.5.2007 kl. 02:02

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er alveg sammála þér Anna. Þessir tveir kostir eru þeir einu sem ég get sætt mig við eftir að úrslit eru ljós.  Ég held þó að vinstri stjórn hljóti að vera betri kostur en DV stjórn (gott nafn!). Jafnvel þótt það þýði þátttöku Framsóknar enn og aftur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.5.2007 kl. 02:51

3 identicon

Hvað finnst manni? Í fyrsta lagi þá á B ekki að koma nálægt ríkisstjórn. (Fólk verður að skilja hvenær nærveru þess er hafnað).

Ekki vil ég sjá SS.

F á að halda sig fjarri líka, þó ekki væri af annarri ástæðu en að dirfast að koma fram árið 2007 með 100% karlaflokk!   (Hvers ætti Geir að gjalda á stelpulausu ballinu!)

Óskastjórnin mín er nú ekki DV, en það skásta sem hægt er að kuðla saman, sýnist mér. ESB-sinnarnir eru fleiri í D en hafa þorað að skjóta upp kollinum, leyfi ég mér að halda. En ég held líka að það mál verði ekki á alvarlegum nótum næstu 4 ár (vona a.m.k. ekki). Alvarlegt þótti mér að heyra Geir gera lítið úr því að umhverfismálin hafi ráðið hjá kjósendum - skildi hann svo að hann ætlaði ekki að breyta neinu um það Íslandskort sem núverandi stjórnarflokkar hafa teiknað.. útbíað í örum.

Annars væri prýðilegt ef næsta Alþingi hefði dug í sér til að koma hér á almennilegri og boðlegri kosningalöggjöf.

HG 14.5.2007 kl. 03:10

4 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Eina von okkar umhverfisvina nú er samstjórn VG og íhaldsins. Fagra Ísland var bara flagg fyrir kosningar. Nánast helmingurinn af SF eru stóriðjusinnar. Ef sigurvegarar kosninganna fara saman í ríkisstjórn verður a.m.k. hlé á álæðinu á meðan. Og við munum eiga Landsvirkjun áfram. Langbesti kostur í stöðunni nú úr því ekki tókst að fella þessa hörmungarstjórn.

Sigurður Sveinsson, 14.5.2007 kl. 07:16

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir framlögin, ég er svo innilega sammála því að við erum ekki með óskastjórn á takteinum, þótt auðvitað sé það brill hugmynd að koma með minnihlutastjórnina, en Framsókn var auðvitað fljót að fara í fýlu út af þeirri hugmynd. Mér heyrist að DV stjórnin sé með mest fylgi í þessu spjalli og hlýt að sjá ákveðna kosti í þeirri stöðu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2007 kl. 00:15

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband