Málmfríður og ótrúleg ferð norður í land
28.4.2007 | 22:39
Var að byrja að segja frá því í gær hvað ég hefði verið hundheppin að kynnast henni Málmfríði Sigurðardóttur fyrir meira en tuttugu árum síðan. Fór sem sagt á Málþing Möllu sem VG fyrir norðan hélt í dag. Ég er greinilega ekki ein um þá skoðun að kynni við hana séu sérstök forréttindi, því málþing Möllu á Akureyri í dag var ein sú einlægasta samkoma sem ég hef komið á. Það sem var öllum efst í huga var að koma því til skila hvaða áhrif Málmfríður hefur haft á samtíma sinn, og ég gæti ekki verið meira sammála. Eftir þingið átti ég lausan næstum klukkutíma áður en vélin átti að fara í bæinn og eyddi honum heima hjá Möllu og hún var bæði hrærð og hugsandi yfir því sem sagt hafði verið um hana, og hrædd um að það væri kannski allt of mikið lof. - En allir töluðu af mikilli einlægni, ertu ekki sammála því? spurði ég hana, og jú, það leyndi sér svo sannarlega ekki. Enda veit ég það að allir sem hafa verið svo lánsamir að kynnast Málmfríði vita að það verður seint hægt að oflofa hana. Sem betur fer stöldruðu margir við húmorinn hennar ekkert síður en þann hafsjó af fróðleik sem hún er, og auðvitað, eins og Jón Hjaltason benti á bæði greind, gáfuð og vitur. Jón er vænn maður en gaf aðeins færi á sér með athugasemdum á ystu nöf, þannig að þegar Málmfríður gekk að honum eftir ávarpið og hvíslaði einhverju að honum, þá lá allt í hlátri næst þeim. Fundarstjóri stóð sig í stykkinu og bað Málmfríði að endurtaka það sem hún hefði sagt við Jón og hún gall við hátt og snjallt: Ég sagði Jóni bara að ég hefði aldrei sagt að hann væri hálfviti!
Takk Vinstri græn fyrir norðan, þetta var vel til fundið og frábærlega heppnað! Og mikið var gaman að hitta fullt af VG fólki, urmul af gömlum Kvennalistavinkonum og öðru góðu fólki. Smá Reunion tilfinning í leiðinni, það var heldur ekki amalegt. Og ekki má gleyma fjölskyldunni hennar Möllu, sem ég hef bæði notið gistivináttu hjá og hitt af ýmsum tilefnum hér og þar. Framlag þeirra til dagskrárinnar var mjög vel heppnað, eins og bara öll atriðin.
Fegurð dagsins á leiðinni heim var ólýsanleg eins og dagurinn allur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Facebook
Athugasemdir
Mikið hefur þetta verið gaman og ... mikið sakna ég Kvennalistans!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.4.2007 kl. 22:42
Já, þetta var ólýsanlegt, þótt ég reyni auðvitað. Andi Kvennalistans lifir góðu lífi og býr í Vinstri grænum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.4.2007 kl. 22:52
Gaman að heyra þetta.
Ester Sveinbjarnardóttir, 28.4.2007 kl. 22:57
Þetta er sæt frásögn. Vonandi setjið þið vinkonurnar "Þetta sagði ég þér" á góðan stað. Það er orðinn langur listi! Ef ekki til útgáfu þá fyrir Kvennasögusafnið!
HG 28.4.2007 kl. 23:14
Es. Andi Kvennalistans lifir líka meðal pólitísk heimilislausra.
HG 28.4.2007 kl. 23:15
Já, ég hitti nokkra pólitíska munaðarleysinga með andann í brjósti. Þetta sagði ég þér, auðvitað.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.4.2007 kl. 23:30