Tilfinningaskyldan og sunnudagskvöld á pásu

Þegar mikil vinna, nám og aðrar annir eru að drekkja manni er oft freistandi að setja mannleg samskipti á pásu, hætta að sinna vinum og vandamönnum og nota tímann í annað, það er vinnu, svefn og nám. Stundum er þetta vissulega nauðsynlegt, en í öðrum tilfellum mikill misskilningur.
Fyrir svona tuttugu árum var ég sjálfstætt starfandi (og þar með hjá harðasta húsbónda sem hægt er, aldrei frí) og hafði ósköp lítinn tíma fyrir vini og ættingja. Þá æxlaðist það þannig að vinir mínir fóru að dúkka upp á sunnudagskvöldum og í svona átján ár var það siður að hittast hjá mér á sunnudagskvöldum og skiptast á skoðunum, hlusta á músík og bara að vera til. Þessi siður hefur verið í pásu í rúm tvö ár, sem betur fer fæ ég oft kvartanir, sem bendir til þess að þetta hafi verið góð hugmynd.

Gagga frænka mín, (Gagga Lund) söngkona sem var algert æði, hafði ,,salon" á fimmtudögum, minnir mig, á meðan hún bjó í London og mér skilst að það hafi verið mjög skemmtilegt, þannig að kannski er þessi árátta í blóðinu. Ég man ekki betur en fyrsta veturinn sem ég átti með mig sjálf í Reykjavík og leigði lítið kjallaraherbergi með aðgangi að góðu eldhúsi, hafi ég verið búin að skapa einhvers konar gestakvöldssið áður en margar vikur voru liðnar. Sá siður skapaðist í kringum eggjakökuna sem ég bjó til úr eggjunum sem Hanna frænka mín gaf mér alla fimmtudaga, en þrisvar í viku skrapp ég út á Álftnes til að heimsækja heimilisköttinn meðan foreldrar mínir bjuggu erlendis, og alltaf nestaði Hanna (sem bjó í næsta húsi við köttinn) mig út með kílói af eggjum sem varð uppistaðan að þessum eggjakökuveislum. Eggjakakan var eins konar naglasúpa og alltaf dugði hún handa öllum gestum sem mættu, sem voru mismargir.

Þegar svona siða nýtur ekki við, og tilfinningaskyldan (að sinna því sem tilfinningin segir manni) kallar, þá er síminn þarfasti þjóninn. Ég á eina góða vinkonu sem alltaf passar upp á mig og hringir af og til og við spjölluðum einmitt um helgina. Svo heyrði ég loksins í Gunnu vinkonu fyrir norðan, það var sannarlega kominn tími á það, og tölvusíminn og sms-ið sá til þess að við Hanna mín náðum saman að lokum, milli helgarbíltúra hennar til Rúmenínu, Úkraínu og Slóvakíu, ég hlakka til að heyra restina af ferðasögunni! Við mamma spjöllum reglubundið saman í síma eða ,,live" og gerðum það líka og svo var barnaafmæli hjá Elísabetu systur með frjálsri mætingu og þangað mætti ég rétt í þann mund sem seinasta barnið var farið, enda var erindið miklu heldur að hitta hana, Má og krakkana, en aðra afmælisgesti, þótt það hefði nú reyndar verið gaman að hitta Nönu frænku svona í leiðinni, en maður fórnar ekkert hverju sem er til þess. Þegar maður er vaxinn upp úr barnaafmælum í bili (barnabörnin sem sagt ófædd enn) þá er svo notalegt að neita sér um þau. En allt í allt var þetta góð helgi fyrir tilfinningaskylduna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svona siðir eins og saloninn hennar Göggu eru æðsilegir en því miður á undanhaldi að því er virðist.  Taktu upp sunndagskvöldshittingin Anna mín

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.4.2007 kl. 10:53

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Eflaust mun ég gera það fyrr eða síðar og þér er boðið.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.4.2007 kl. 13:24

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Eflaust mun ég gera það fyrr eða síðar og þér er boðið.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.4.2007 kl. 13:31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband