Lestin brunar (eða ekki)

Fyrirsögnin býður uppá misskilning, þetta hefur alls ekki verið viðburðaríkur ferðadagur. Strætó niður á aðalbrautarstöð og aftur til baka reyndar lokið fyrir klukkan níu í morgun og dagurinn enn ungur. Þetta var fyrirsjáanleg fýluferð, aðeins þriðjungur langferðalesta gengur meðan á næstum vikulöngu verkfalli lestarstjóra stendur. En það leiddi hugann að því hvernig maður velur ferðamáta. Lestir hafa alltaf verið uppáhaldið mitt og flestar lestarferðirnar mínar frekar þægilegar, þótt finna megin skrautlegar undantekningar. Hvað er það eiginlega við lestarferðir sem heillar mann? Mér finnst gott að geta hoppað uppí lest, sætin oftast þægileg, allt sem til þarf á löngum ferðum, hægt að rétta úr sér og ganga um, farangur innan seilingar, veitingar og snyrtingar yfirleitt nothæfar og svo finnst mér hreyfing lestanna og þytur bara svolítið heillandi, ennþá, eftir allmargar ferðir um ævina. 

En það eru ekki allar lestarferðir dans á rósum. Smávægilegar tafir geta endað með því að allar áætlanir fara úr skorðum, því skiptingar eru oft ansi knappar. Vegna yfirstandandi lestaverkfalls datt mér í hug hvernig bresku járnbrautastarfsmennirnir höfðu það rétt fyrir jólin 1973, þegar ég var á leið til að halda jól með foreldrum mínum í Congresbury rétt hjá Bristol í Englandi. Nýsloppin til Englands eftir að flugfreyjuverkfall á Íslandi hafði verið leyst um þrjú leytið. Átti sem betur fór ekki bókað í lest frá Reading (einhvern veginn komst ég þangað) fyrr en um níu leytið um kvöldið. Og steig upp í lestina í rétta átt á réttum tíma. En hún brunaði framhjá áfangastaðnum, Yatton, og ég varð eftir á næstu stoppustöð í Weston-Super-Mare. Þar fékk ég skýringuna: Þetta var sko ekki níu-lestin sem ég hafði stigið um borð í, heldur þrjú lestin frá því fyrr um daginn, ,,aðeins" of sein. Járnbrautastarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem heita ,,working to rule" og fylgdu öllum leiðbeiningum út í ystu æsar og tóku sinn tíma í það. Svona mikinn tíma tekur að fara eftir öllum reglum. 

Mér var eitt sinn vísað úr lest um miðja nótt í Tarta-fjöllum sem nú eru í Slóvakíu hluta fyrrum Tékkóslóvakíu. Hafði verið tekin í misgripum fyrir austur-evrópubúa og nálgaðist landamæri sem voru ekki ætluð vesturlandabúum. Allt endaði það vel eins og annað, fyrir mig alla vega. Fyrr í sömu langferð um Evrópu var hins vegar annað atvik sem ekki endaði eins vel, þótt ég hafi sloppið. Þá varð ég að fara út, einnig um miðja nótt, ásamt öðrum lestafarþegum, vegna slyss sem hafði orðið á lestinni úr gagnstæðri átt, en þetta var eitt af stærstu lestarslysum Evrópu, Zagreb í Króatíu haustið 1974. Fyrir tíma farsíma var það erfitt fyrir fjölskylduna að vita ekki nóg um málið strax, en það vissi ég ekki þegar ég stóð ásamt fleira fólki, ekkert okkar vissi vel hversu alvarlegar aðstæðurnar voru, en við vissum að það hafði orðið slys. Þetta var á meðan Austurlandahraðlestin var enn gömul og niðurnídd, fór alla leið til Asíu (Íraks) um Júgó, og kryddlyktin var alls ráðandi. Okkur var sagt að húkka okkur far með lestum sem fóru hjá og það tókst, en svo mikil voru þrengslin alla leið þar til sumir fóru af lestinni til að taka aðra í átt til Sarajevo, að ég og ástralskt par þurftum að skiptast á við að standa á öðrum fæti. Það var gólfpláss fyrir fimm fætur í senn hjá bakpokunum okkar. Eftir á að hyggja hljómar þetta fáránlega.

Einhvern tíma þarf ég að bæta við köflum um ,,Pros and Cons of Hitchhiking" en af þeim ferðamáta hef ég eingöngu reynslu frá Íslandi og Englandi, að vísu nokkuð litríka líka. Merkilegasta ferðin annað hvort þegar við vinkonurnar sváfum í hlöðu í Englandi eftir baráttu við að fá far á fáförnum vegi og síðan brenninetlur eða þá þröngi bíllinn sem endaði (dó) á Sogaveginum, eftir að gírstönginni hafði verið kastað út um gluggann og skrúfjárn tekið við í gírskiptingunum á Suðurlandsveginum. Sem betur fór gerðist það árið áður en ég varð bílhrædd. 

Flugferðir eru líka á listanum, þótt fólk kvarti og kveini yfir þrengslum í vélum og biðtíma á flugvöllum, þá er sá ferðamáti alveg ótrúlega þægilegur og oft ódýrari en mínar ástkæru lestaferðir um sama veg. Útsýnið í björtu veðri að degi sem nóttu er oft alveg ótrúlega skemmtilegt. Káti flugþjónninn sem lýsti ferðinni frá Albuquerque til Chicago eins og íþróttakappleik og sá sem tók við af honum til New York og sagði: For those of you on the left hand side there is a beautiful view over Manhattan, for those of you on the right hand side: You are just screwed! Útsýnisflug, reyndar bara venjulegt áætlunarflug, yfir fræga lestalínu frá Tælandi til Singapúr, hvalaskoðunarflug í London í janúar 2006. Við fengum auka lágflug yfir London að kvöldi til þegar hvalurinn hafði synt upp Thames. Lágflugið var ekki af góðsemi einni saman, heldur þurfti að kíkja undir vélina hvort hjólin væru komin niður, sem þau voru, en ljós sögðu annað. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband