Hamborg, ,,hérumbil" og alveg
28.2.2015 | 19:59
Skrýtið með sumar borgir, sem maður hefur oft ,,hérumbil" komið til. Þar til vinnan bar mig hingað í borgina hafði ég nokkuð oft ,,hérumbil" komið þangað. Og óneitanlega skildi borgin eftir sig ýmsar góða rminningar, þótt ég geti varla sagt að ég hafi leitt hugann að henni, - fyrr en nú. Bloggaði aðeins um jólamarkaðina þar, þegar ég kom við í borginni rúman sólarhring í nóvemberlok, erindið þá var aðeins eitt viðtal og að skilaði mér hingað til ögn lengri tíma en venjulega.
Þegar ég var 22 ára átti ég erindi til Frakklands, þar sem foreldrar mínir voru þá búsettir. Ákvað að fljúga um Köben því ég vissi að þar var hægt að fá góðan stúdentapassa (hvíta passann) sem veitti hressilegan afslátt af lestarferðum í Austur-Evrópu. Eitthvert flugfélag Guðna í Sunnu var þá með flug til Kaupmannahafnar, en þegar til átti að taka var lent í Hamborg í báðum leiðum og farið með liðið í rútu til Köben. Sem var svosem allt í lagi fyrir mig, en daginn eftir fór ég svo gegnum Hamborg á leið til Frakklands, en hvíta passanum ríkari. Rútuferðin var mjög minnisstæð því það var komið kvöld og sumir íslensku rútuferðalanganna létu svo illa að rútubílstjórinn hótaði að láta þá út úr rútunni einhvers staðar í dimmu, dönsku skóglendi. Séra Árelíus Níelsson tók að sér að róa liðið með því að ganga á milli og bjóða haltu-kjafti brjóstsykur.
Næst áttum við hjónin erindi til Hamborgar um haust, þegar mamma hafði unnið bökunarkeppni með fallegri piparkökuskál (skál úr piparkökum) og ákvað að gefa okkur miðana sem hún vann til Hamborgar, líklega af því við höfðum þá ekki farið úr landi í fimm ár (kemur ekki fyrir aftur!). Við tókum bílaleigubíl á Hamborgarflugvelli og ókum strax út á Lüneburgarheiði og svipuðumst eftir ,,Zimmer frei" skilti (það var internet þess tíma). Hittum á gamlan gaur með tvo hunda sem við gistum hjá. Spurðum hann daginn eftir hvert við ættum að fara til að komast til Miðjarðarhafsins, en okkur þyrsti í sól. Jamm, sagði sá gamli. Keyrið út að næstu vegamótum og ef þið ætlið til Spánar beygið þið til hægri, en ef þið ætlið til Ítalíu þá til vinstri. Við vorum með ótakmarkaðan akstur í 2 vikur og bílaleigan græddi ekki á okkur, við enduðum í næstum viku í gömlu Júgóslavíu í litlu þorpi með fullt af sól og útsýni yfir eyjarnar á Adríahafi, með viðkomu í Feneyjum (fleiri brýr í Hamborg en Feneyjum) og Rínardal. Í bakaleiðinni stoppuðum við við Alster-vatn og rétt skruppum út úr bílnum.
Svona 7 árum síðar vorum við aftur á ferð á Kielarviku og ætluðum svo að vera í 11 daga í viðbót í Norður-Evrópu og hófum þá för í Hamborg um kl. 11 um morgun. En þá brá svo við að veðrið var kalt og leiðinlegt, lestarferðir dýrar, svo við brugðum okkur á ferðaskrifstofu (og enn er þetta fyrir almennilega notkun á interneti). Minn ágæti eiginmaður sannfærði þýska ferðasalann um að hann myndi ekki selja öðrum ferð suður á bóginn upp á þau býti að fara af stað næstu 2-3 klukkutímana. Hann endaði á því að setja saman 11 daga pakka til Majorka og við fórum í loftið um hálf fjögur um daginn, meðan á fluginu stóð var fundin handa okkur ágæt gisting í bænum Cala Ratjada (svona ca. þannig skrifað) með hálfu fæði. Samferðarfólkið á Kielarvikunni, sem við hittum fyrir tilviljun í rútunni einhvern tíma á milli tvö og þrjú var aðeins undrandi á svipinn þegar við upplýstum breyttar fyrirætlanir.
Þetta eru aðeins nokkar minningar af hérumbil ferðum til Hamborgar, en nú er ég farin að kynnast þessari ágætu borg miklu betur, enda bækistöð mín vegna vinnu nú um stundir. Þetta er gullfalleg borg og aðeins Suður-Evrópubúarnir og Suður-Ameríkanarnir sem vinna með mér eru óhressir með veðurfarið. Ég og Austur-Evrópubúarnir, ekki síst fólk úr ýmsum löndum sem áður voru Sovét, Kirgistan, Kazakstan og ýmsum öðrum snjóþungum slóðum, kvörtum ekki. Áhugaverð borg og kannski ferðablogga ég eitthvað meira um hana seinna á þessum vettvangi.