Þarf að auka vægi framkvæmdavaldsins? Um skrifstofurnar 60 í tillögum Framsóknarflokksins.
16.3.2007 | 23:07
Ekki veit ég hversu mikið vægi tillögur Framsóknarflokksins í Stjórnarráðsmálum er, en samt er alltaf vert að gefa því gaum þegar verið er að leggja einhverjar línur í grundvallarplagginu, sem stjórnarskrá hlýtur að teljast, alla vega meðal þeirra þjóða sem hafa slíkt plagg. Það sem ég hnýt um við fyrstu yfirferð í tillögum Frammara er ákveðin tilhneiging, vonandi óaðvitandi, til að auka vægi framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafavaldsins. Mögum hefur reyndar þótt nóg um hversu mikið vald framkvæmdavaldsins er í raun. Þarna er tvennt sem ég get ekki skilið á annan veg, annars vegar að færa það vald sem löggjafavaldið hefur nú varðandi skipan ráðuneyta til framvkæmdavaldsins. Hins vegar eru það þessar 60 skrifstofur ráðuneytanna sem valda mér heilabrotum. Kannski er þetta ekkert nýtt, kannski eru skrifstofurnar svona margar nú þegar, vonandi ekki, en ég er samt ekki alveg að skilja. Mér finnst vera tilhneiging til að auka vægi skriffinna (afsakið ljómandi góða fólk í ráðuneytunum) og ég get ekki alveg varist þeirri hugsun að það sé verið að hugsa í áttina til fyrirkomulagsinshjá ESB í Brussel, sem þó er bullandi ágreiningur um í Framsókn hvort er draumaskipulagið. Skriffinnar í Brussel eru afskaplega óhressir með tilvist og vald Evrópusambandsþingsins og vilja það helst sem minnst, og´mér finnst að sjálfrátt eða ósjálfrátt sé verið að stíga skref í þessa átt. Ekki gleyma því að þingmenn eru bara 63 og án persónulegra aðstoðarmanna, hvernig mun þeim ganga að glíma við 60 skrifstofur, jafnvel vel mannaðar, og ég segi glíma við, því ég hef sjálf upplifað pirring hjá ráðuneytisfólki þegar kjörnir fulltrúar fólksins eru eitthvað að reyna að breyta því sem ráðuneytisfólkið hefur ÁKVEÐIÐ. Mér finnst að við eigum að færast nákvæmlega í hina áttina, til meira lýðræðis alls fólks, en ekki aukins vægis fulltrúa sem ekki eru kjörnir af fólkinu.
Ef tillögur Framsóknarmanna eiga að hníga í aðra átt en það sem ég les úr þeim, þá vinsamlegast hefjið umræðu hér í blogginu mínu, því mér er það talsvert hjartansmál að afhenda ekki það litla vald sem enn er kosið um til þeirra sem ekki eru til þess kjörnir, það er embættismanna. Hef heyrt rökin um stöðugleika og að embættismenn (skipaðir af tilteknum ráðherrum og mögulega ævilangt flokkshollir) afi þurft að ,,lifa af" ákveðna ráðherra, en ég er bara einfaldlega ekki sammála þeim rökum. Eiga sem sagt 60 skrifstofurnar að lifa ótal ríkisstjórnir og þingmeiri og -minnihluta.
Hins vegar er ég afskaplega sammála því að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi, ástæðan er einföld, þeir hafa of lítinn tíma til að sinna þingstörfum og ekkert skrýtið að Framsókn leggi þá tillögu fram, því í þeim flokki hefur komið upp sú staða að illa hafi gengið að manna formennsku og aðrar skyldur í þingnefndum vegna þess að annar hver þingmaður flokksins er orðinn ráðherra. En það gerir tillöguna alls ekki minna rétta að mínu mati.
Stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins leggur fram tillögur að drögum að frumvarpi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2007 kl. 03:45 | Facebook
Athugasemdir
Þarna ert þú að fjalla um mikilvægt mál sem fáir stjórnmálamenn virðast hafa kjark til að taka á. Spurning hverju það sætir, en auðvelt er að álykta að það sé vegna þess að þeir séu smeykir við að fá embættismannavaldið upp á móti sér.
Mikil umræða var um þetta fyrir rúmlega 2 áratugum, þegar núverandi forsætisráðherra var formaður SUS. Aðal slagorð SUS var þá "Báknið burt". M.v. við vöxt báknsins síðan Geir komst til álna, má álykta að hann hafi annað hvort gleymt þessu gamla slagorði og því sem að baki þess lá eða þá að hann hafi einfaldlega mætt ofjarli sínum. Sumir vilja nefnilega meina að Parkinson lögmálið ráði ferð í þessum efnum og að ekki verði við því spornað nema með byltingu í skipulagi stjórnsýslunnar.
Spurning hvort fyrirkomulag eins og tíðkast í USA, þar sem efsta lagi stjórnsýslunnar er skipt út með nýjum valdhöfum gæti eitthvað lagað þetta. Mér er það reyndar til efs og hallast að því að róttækari breytingar þyrftu að koma til.
Ég átti einu sinni samtal við gamlan fyrirverandi ráðherra, þar sem ég var að gagnrýna flokksfólk hans fyrir slæglega frammistöðu í ýmsum málum. Til að gera langa sögu aðeins styttri, þá lauk rökræðum okkar á því að hann sagði eitthvað á þá leið að í flestum málum skipti litlu máli hvaða stjórnmálamenn færu með völdin því það væru í raun embættismennirnir sem réðu ferðinni.
Ekki efast ég um að þessi aldni stjórnmálamaður, hafi mikið til síns máls og segir það mér að lýðræðið hér á landi sé að mörgu leyti á villigötum.
Sigurður J. 17.3.2007 kl. 02:16
Ríkis báknið er eins og sjálstæð lífvera sem stækkar og stækkar. Það er ekki einfalt mál að breyta því en sjálfsagt myndi það vera gott að skipta um æðstu yfirmenn í kjölfar kosninga.
Ester Sveinbjarnardóttir, 17.3.2007 kl. 02:26
Mikið er ég hrædd um að sá aldni stjórnmálamaður sem Sigurður J. fjallar um hafi allt of mikið til síns máls og einmitt þannig vex þessi óskapnaður í veruna sem þú vísar til, Ester. Þótt við þekkjum áreiðanlega öll afskaplega góða og hæfa einstaklinga í röðum embættismanna, þá verð ég að viðurkenna að mér stendur svolítill stuggur af því ef raunverulegur vilji er til að framselja aukið vald í þeirra hendur, og gildir þá einu hverjir brjóta upp á því. Ég óttast að svona hugmyndir fái hljómgrunn.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.3.2007 kl. 03:34