Nýjar hliðar á Breiðavíkurmálinu enn að skjóta upp kollinum. Grein Ásu Hjálmarsdóttur í Morgunblaðinu um daginn hreyfði við mörgum og mér finnst vel til fundið hjá Mogganum að fylgja henni eftir með viðtali við hana. Í sama blaði er líka frásögn af ráðstefnu sem verður 15. mars um fátækt á Íslandi, en Harpa Njálsdóttir hefur öðrum fremur rannsakað þá staðreynd að enn má finna fátækt í allsnægtarsamfélaginu okkar. Eitt af því sem Ásu svíður sárast og fram kemur í hennar grein og viðtali er að hafa verið látin gjalda fátæktar, á meðan synir betur stæðra bæjarbúa fengu allt aðra meðferð. Ekki hægt annað en fyllast hljóðlátri reiði út af því hvernig samfélagið brást við þá og reyna að læra af mistökunum. Ef það getur verið að enn séu fordómar í gangi vegna fjárhagsstöðu fólks, þá þarf að uppræta þá, enn mikilvægara er að uppræta fátækt. Við hljótum að vera nógu rík þjóð til að geta séð vel um alla.
Raunar þarf ég ekki að segja ef, enn eru til fordómar, mis vel duldir. Ég veit um tilvik þar sem annað foreldri var talið síður hæft til að hafa barnið sitt en hitt, sökum fátæktar, þrátt fyrir að um harðduglega manneskju væri að ræða. Í stað þess að tryggja stuðning var horft til óréttlætanlegra aðstæðna. Við vitum líka af því að fjárhagsstaða aldraðra og öryrkja er ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir. Kannski er ekki verið að taka börn af öryrkjum eða ömmu og öfum (sem stundum annast barnabörnin) en það er alla vega verið að bíta hausinn af skömminni með því að láta eitt óréttlæti (fátækt) réttlæta annað óréttlæti. Þannig að enn eru dæmi í nútímanum sem ættu ekki að sjást.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þarna er kona sem stendur sína plikt - vinnur mikið en er algjör reglu manneskja og býr börnum sínum gott heimili. En fátæk og þessvegna ekki hæf til að annast börn sín og liggur vel við höggi með ekkert bakland. Þetta var afar sorgleg lesning
Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 12.3.2007 kl. 07:59
Það er ekki "eðlilegt" hvað við erum sammála Anna, um alla skapaða hluti. Heldur þú að það geti verið af því við erum báðar vi.grænar?
Orð í tíma töluð og takk
Jenný Anna Baldursdóttir, 12.3.2007 kl. 14:46
Báðar í réttum flokki heyrist mér, það eru mikil forréttindi að vera ekki einn á báti í skoðunum sínum, takk fyrir samstöðuna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.3.2007 kl. 19:45