Í vor lá leið mín, einu sinni sem oftar, til Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Í þetta skipti var búið að nefna það við mig að ef til vill lægi leiðin til bæjar sem heitir Truth or Consequences og heitir í höfuðið á sjónvarpsþáttum. Þessi skítblanki bær, sem áður hét Hot Springs, seldi sem sagt gamla nafnið og tók upp þetta nýja fyrir peninga. Fyrsta vísbendingin um ljótan andarunga.
Leiðin frá háskólabænum Portales til T or C, eins og bærinn er jafnan kallaður, lá um fallega fyrirmyndarbæinn Ruidoso, sem er víst stytting á Rio Ruidoso (merkir háværa á á spönsku). Hann er umvafinn fallegum fjallahring, í mikilli uppbyggingu, þeirri þriðju hröðustu í Nýju Mexíkó, og þar er flest fallegt og snyrtilegt. Það er alveg hægt að súpa hveljur yfir fegurðinni í umhverfinu. Listmunir og útivistarbúnaður eru áberandi í verslunum staðarins. Hótelin eru mörg og þægileg, enda er staðurinn hátt í fjöllum, í rúmlega 2000 metra hæð yfir sjó, og vinsæll áfangastaæður sumar jafnt sem vetur.
Á veturna er þar skíðaparadís og á sumrin vinsæll áfangastaður fyrir fólk sem er ekki alveg að ,,fíla fjörutíu stiga hitann niðri á hásléttunni sem Nýja Mexíkó liggur að miklu leyti á. Auðvitað féll ég í stafi yfir fegurð bæjarins og góðum aðbúnaði á hótelinu. En ég var ekki nógu dugleg að taka myndir þar, enda um tiltölulega stutt stopp að ræða svo ég gríp til alla vega einnar lánsmyndar.
Svo tók við all-langur akstur suður og vestur á bóginn til T or C. Hluti leiðarinnar liggur meðfram smásprænunni Rio Grande, sem kannski breytist í beljandi fljótið sem nafnið vísar til ef vel rignir.
Loks er komið í bæinn Truth or Consequences og ferðafélagar mínir geta ekki leynt blendnum tilfinningum sínum. Bærinn er rytjulegur og hálf berangurslegur, um bæinn ráfa aflóga hippar sem greinilega eru komnir yfir seinasta söludag. Nýjaldarlegar skranbúðir meðfram aðalgötunni í stað útlífs- og listmunaverslananna í Ruidoso. Hótelið er skrýtið en hlýtur að teljast umhverfisvænt, þar sem gamlar dósir og flöskur eru notaðar í veggi og þaktar leir. Alls staðar er boðið upp á heita potta, enda er bærinn þekktur fyrir heitar lindir með liþíum ívafi. Alla vega líður manni vel eftir að hafa farið í heitan pott fyrir utan hótelið. Bærinn er skrýtinn og skemmtilegur, um það síðarnefnda eru reynar skiptar skoðanir. Leyfi lesendum að dæma um það.
Í jaðri bæjarins er einkaklúbbur sem stingur verulega í stúf við hippalegt yfirbragð bæjarins. Hér er fólk með kúrekahatta og rosalega hvítt á hörund. Húsnæðið er stór skemma, þar inni er hávær tónlist og vafasamur tónlistarflutningur, mikið af misgóðu karókí og svo bresta menn í fugladansinn og jenka og alls konar einkennilega hegðun. Pool-borð og bar taka helsta plássið og klukkan níu að kvöldi standa menn upp og biðja bæn til heiðurs elgnum sem klúbburinn heitir í höfuðið á. Ef aðkomufólk heldur að þeir séu að grínast er fræðilegur möguleiki á að svo sé, en líklegra að þeim sé fúlasta alvara.
Íbúar beggja bæjanna eru innan við tíu þúsund, en í úthverfum Ruidoso býr annar eins fjöldi nú þegar. Innan við 5% fólk í Ruidoso lifir á tekjum neðan fátækramarka en næstum 20% íbúa í T or C. Yfir 80% íbúanna í T or C eru af spænskum uppruna en aðeins tæplega 20% í Ruidoso. Á báðum stöðum eru góðir golfvellir, eftir því sem ég kemst næst, margir í Ruidoso en nokkrir í grennd við T or C.