Nú birtir í bílunum lágu ... eða hvað? NýBÍLAvegur?
7.12.2011 | 11:32
Börn eru dugleg að misskilja söngtexta. Þannig heyrði ég snemma af telpunni sem hélt að verið væri að tala um bíla en ekki býli í alþekktu sönglagi þar sem heyrðist: Nú birtir í býlunum lágu, en hún heyrði ekki ypsilonið og sá fyrir sér bíla.
Sama gerðist í morgunfréttunum, bæði hjá visir.is og ruv.is sem greindu frá árekstri á Nýbílavegi (þó ekki Níbílavegi). Greinilegt að hugur einhvers nútímafólks hvarflar að nýjum bílum en ekki nýbýlum í Kópavogi. Rétt að taka fram að mbl.is og dv.is könnuðust við Nýbýlaveg.
Þeir sem vilja skoða þetta nýyrði betur þurfa ef til vill að smella á myndirnar. Hver veit nema þessi ritháttur verði á endanum ofan á, þegar allir verða búnir að steingleyma því að eitt sinni hafi verið til nýbýli. Annað eins hefur gerst í málum í stöðugri þróun.
Og fyrir þá sem ekki þekkja ljóðið sem ég vitna til í upphafi þá fann ég þetta við leit á netinu og birti til skýringar fyrstu fjórar ljóðlínurnar:
,,Brynhildur Guðjónsdóttir var fjallkona 2004 og flutti hún ljóðið Vorvísur, 17. júní 1911, eftir Hannes Hafstein.
Vorvísur
Sjá roðann á hnjúkunum háu!
Nú hlýnar um strönd og dal,
nú birtir í býlunum lágu,
nú bráðna fannir í jöklasal."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Facebook