Að keppa í kosningum, íþróttum eða hvoru tveggja

Keppni setti mikinn svip á þessa helgi. Kona tapaði í keppninni um formennsku KSÍ og skilaboðin sem léleg útkoma hennar sendir getur merkt þrennt: Að verið sé að senda konum skilaboð að þeim sé ekki ætlað upp á þetta dekk, að þeir sem kusu hafi séð þetta sem keppni tveggja karla með aukaleikara eða að eitthvað allt annað ráði.

Önnur keppni, um hylli kjósenda, er nú komin á fullt skrið. Sú keppni mun standa fram í maí, en þá hætta allir að keppa í eigin nafni og skipta sér í tvö lið. Hef reyndar heyrt þá skoðun oftar að undanförnu að lýðræði felist í því að meirihlutinn stjórni með virðingu gagnvart skoðunum minnihlutans, en yfirleitt finnst mér eftir kosningar eins og vinningsliðið líti svo á að það eigi að ráða öllu.

Gamla Kvennalistagenið mitt segir mér að setja spurningarmerki við keppni, sigurvegaradýrkun og foringjadýrkun. Allt of margt neikvætt hefur komið fram í krafti sterkra foringja (Hitler og Stalín voru óumdeilt foringjar). Meiri samvinna ætti ekki að skaða neinn. Þarna veit ég að mikillar hugarfarsbreytingar er þörf. Þangað til er leikvöllurinn keppnisvöllur.

En verð að viðurkenna að það er stundum gaman að keppa og þá er alltaf kostur að vinna. Spilaði skvass við litlu systur í dag eins og fleiri sunnudaga og hún vann, nema seinasta leikinn, þá loksins vann ég og keppnisskapið fékk smá uppörvun eina ferðina enn. Hmm, já, vandlifað eftir eigin hugmyndum ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband