Hótelherbergi

Pólitíska bloggið mitt er í öðrum farvegi þessa dagana, að því leyti sem ég tjái mig um pólitík á þessum deiglutímum. Þess vegna ætla ég að skrifa um hótelherbergi og gera játningu: Ég kann vel við mig á hótelherbergjum.

Af og til ,,lendi" ég í því að vera ein að þvælast og gisti þá gjarnan á mjög mismunandi hótelherbergjum, öllum nothæfum og sumum bara æði góðum. Elti tilboð og tékka á netinu áður en ég bóka mig, ég veit þetta reddaðist allt fyrir tilkomu netsins, en mikið lifandis ósköp er mikið þægilegra að leita á netinu, kíkja á umsagnir og bóka svo. En það er ekki endilega ytri umgjörðin sem gerir dvöl á hótelherbergjum að því sem hún er. Yfirleitt er aðeins brot af ferðinni þar, önnur erindi en hótelhangs hreinlega brýnni. En ef baðvatnið er ekki kalt og herbergið snyrtilegt hefur það alltaf ákveðna kosti. Gott næði til að gera eitthvað gagnlegt og lítið ytra áreiti er eitt af því sem heillar mig. Stundum hef ég komist í magnað vinnustuð á hótelherbergjum, sem aðeins tímaskortur hefur heft. Oft er hægt að hita sér kaffi og/eða minibar sem sparar veitingahúsaferð og dugar mér alla vega yfirleitt ágætlega eftir langan ferða- eða annríkisdag. Duftkaffi og kex (!) eða Pepsi Max/bjór með hnetupoka. Brilljant kvöldverður og eykur líkur á að ég vakni tímanlega í skyldur morgundagsins, svöng.

Kíkja á fréttir í sjónvarpi, fátt annað spennandi, þó er hægt að lenda á furðulega skemmtilegu efni og óvæntu. Þannig horfði ég á 3 mismunandi leikara leika Wallander á norsku hótelherbergi sem ég hékk á í hitteðfyrra af því ég þurfti að mæta snemma á fundi alla dagana. 2 lönd, 3 stöðvar, 3 Wallanderar. Annars hefði ég líklega ekki komist að því að Kenneth Brannagh hefur gert Wallander glettilega góð skil og kynnt hann fyrir anti-skandinavísku-talandi fjölskyldumeðlimum [nú er ég heppin að vera búin að slökkva á athugasemdakerfinu, annars fengi ég vísast athugasemd á þessa skilgreiningu, en hún er rétt. 

Fyrir kemur að útsýni er fróðlegt út um glugga hótelanna, Akureyri er til að mynda gullfalleg, svo og strætislíf í miðri London, en oftar eru það port með dúfum, tunnum og alls konar sviðsmyndum, eða umferðargötum. 

Nú orðið er alls staðar stutt á net og ég ber með mér sífellt léttari tölvur, allt frá því ég fór með vinnu(far)tölvuna með mér til Ástralínu 1993. Stundum er netið á herberginu, stundum þráðlaust, ég hef yfirleitt með mér snúru ef það er beintengt. Stundum í setustofu eða lobby og í sumar var ég í viku á hóteli í Eastbourne með ókeypis neti, en bara á næst-næst-næsta hóteli. Það var líka ágætt. Okkar hótel var með góðan veitingastað og hótelbar, systurhótelið aðallega með netið. Næst verður kannski búið að víxla þessu, hver veit?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband