Sólarlandaferðir og vímulaus elli
9.2.2007 | 01:36
Eftir að hafa látið mig dreyma um það í fjölmörg ár að komast í vetrarfrí í sólina þegar kuldinn og hálkan eru að hrella mig á morgnana, þá vildi svo til fyrir sjö eða átta árum að ég lenti af tilviljun í sól og sumri um miðjan vetur, á suðlægum slóðum (vinnuvélasýningu í Las Vegas). Síðan varð ekki aftur snúið og nú er aðalsumarleyfistími okkar Ara míns á veturna - Las Vegas hefur að vísu ekki verið heimsótt aftur, en þess í stað höfum við leitað á önnur mið. Á sumrin er svo hægt að taka styttri frí hér heima sem koma restinni af sumarleyfisdögunum léttilega í lóg.
Sólarlandaferðir á Íslendingaslóðir á Kanarí (engu ómerkilegri en Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn) eru skemmtilegt fyrirbæri. Eiga í rauninni ekkert sameiginlegt með því að ferðast til útlanda. Ferðalög eru líka skemmtileg, en þau eru bara allt annað fyrirbæri. Kanaríferðir minna meira á þjóðflutninga þrákálfa sem nenna ekki að elta stopula sólina á sumrin, en finnst samt þægilegt að vera á hlýjum stað í stuttbuxum og stuttermabol einhvern hluta ársins. Þetta eru ferðir í betra loftslag, félagsskap eftir því sem hverjum hentar og síðan gerir hver það sem henni og honum þykir skemmtilegast. Þannig lærði ég þythokkí í fyrra og sú sem kenndi mér var nýskriðin á áttræðisaldurinn en núna býst ég við að komast í tívolí í fyrsta sinn, vegna þess að systursynir mínir verða á sama tíma og við á ferðinni. Gamlar fermingarsystur, vinir, kunningjar, ættingjar, vinir vinanna og kunningjar kunningjanna mynda misstóran hóp sem hittist yfir góðri máltíð á kvöldin eða situr á útikaffihúsi eða bar fram eftir kvöldi, spilar pool eða lyftir glasi. Sumir iðka golf eða tennis, aðrir aðallega glasalyftingar. Sögur eru um sóldýrkendur með eldspýtur á milli tánna, en þá hef ég ekki séð enn. Sumir metast um sólbrúnkuna meðan aðrir stæra sig af því að ganga lengri vegalengdir en aðrir, gera betri kaup eða borða betri mat en allir hinir. En flestum er slétt sama og skilja metinginn eftir heima.
Tengdafaðir minn, sem átti það til að lauma góðum athugasemdum að mér hnippti eitt sinn í mig þegar við vorum á rölti á Kanaríeyjum og spurði, sakleysið uppmálað: ,,Skyldi ekki vera þörf á því að stofna Vímulausa elli hérna?" Athugasemdin kom til aðallega af tvennu: Af gefnu tilefni þar sem fjöldi eldri borgara sækir í sólina á veturna og sumir þeirra detta rækilega í það, hvort sem það er vegna þess að þeir eru lausir undan vökulu auga barnanna sinna eða vegna þess að þeim er í blóð borið að spara, og dropinn er ódýrari þarna en heima. Eða eru bara hreinlega óþurrkaðir alkar (hinir komast á AA fundi). Hin ástæðan var reyndar sú að ég hafði þá um nokkurt skeið starfað með samtökunum Vímulaus æska og honum fannst það frekar forvitnileg hlið á tengdadótturinni. En á Kanarí er ég í fríi og stofna engin samtök.
Eftir smá tíma þar hellist slökunin yfir mig, langir göngutúrar um fallegt umhverfi, tennis eða minigolf og sífellt færri ferðir á netkaffið, strætóferðir í nágrannaþorpin og notalegar stundir á kvöldin með vinunum skila manni úthvíldum heim eftir tvær eða þrjár vikur. Vægir fordómar mínir í garð sólarlandaferða af þessu tagi hafa horfið eins og dögg fyrir sólu í bókstaflegri merkingu.
Athugasemdir
Algjör snilld að taka vetrarfrí! Styttist ekki í ferðina?
Frábært þetta með Vímulausa elli!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.2.2007 kl. 08:47
Förum á þriðjudaginn, hlakka ekkert smávegis til! Og svo var tengdapabbi auðvitað alveg óborganlegur húmoristi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.2.2007 kl. 12:14
Sæl Anna!
Ég öfunda þig. Hér sitjum við í gaddinum og þótt dagurinn lengist um 6 mínútur á dag eru stutt hænufetin. En vetrardagarnir eru fallegir, þrátt fyrir gaddinn. Mér finnst nú samt gaddurinn í pólitíkinn ískyggilegri og engin sól virðist megna að bræða ísinn í sumum hjörtum.
Kveðja
Sigurður G. Tómasson, 9.2.2007 kl. 13:31
Ég hlakka alltaf til vorsins þótt ég geti séð fegurðina í þessu ótrúlegu dögum að undanförnu. Vorið færir okkur vonandi, birtu, yl og nýja stjórn!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.2.2007 kl. 16:26