Aumingjaskapur að líða að níðst sé á börnum
6.2.2007 | 13:05
Umfjöllunin um Breiðavíkurheimilið hefur vakið mikil viðbrögð og hollt að draga svona þaggaðar staðreyndir úr fortíðinni fram í dagsljósið. Umræðan hér á Moggablogginu hefur verið lífleg og nægir að nefna ágæta umfjöllun sem Salvör Gissurardóttir hefur verið með á sínni síðu í tvígang.
Það er þessi þöggun sem er hættulegust alls en ég held að þjóðin sé að taka við sér. Það er ekki lengur þagað þunnu hljóði yfir því að hæstaréttardómarar kveði upp óafsakandi vægan dóm yfir kynferðisbrotamanni sem níðst hefur á ungum stelpum. Það er ekki lengur þagað yfir ljótum dæmum um kynferðismisnotkun og/eða sifjaspell, þökk sé Thelmu Ásdísardóttur, Bylgju Sigurjónsdóttur og fleiri ungum hetjum sem opnað hafa þá sársaukafullu umræðu. Það er ekki lengur þagað yfir hlutskipti fjölskyldna fíkniefnaneytenda, þökk sé hetjunum í Foreldrahúsinu.
Þöggunin er hættulegust. Í nokkur ár naut ég þeirra forréttinda að vera í lausamennsku sem blaðamaður og vann einkum blöð fyrir ýmis félagasamtök. Þá fékk ég tækifæri til að koma á framfæri efni frá ýmsum aðillum í samfélaginu sem ekki áttu endilega upp á pallborðið á þeim tíma. Eitt það eftirminnilegasta var blaðið sem ég ritstýrði fyrir Kvennaathvarfið sem þá var frekar nýtt, en áður hafði ég tekið hringborðsumræður um þau málefni og unnið fyrir Vikuna. Stígamót voru ekki komin til skjalanna á þessum tíma og lítil umræða um hlutskipti barnanna í Kvennaathvarfinu. En í þessu blaði var sjónum beint að því málefni. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir, sem þá var nýkomin frá Kanada, margendurtók að hægt væri að koma í veg fyrir ofbeldi og sifjaspell í fjölmörgum tilfellum, bara með því að opna umræðuna. Með því að sætta sig ekki við þöggun. Með því að tilkynna (eins og lög kveða á um) ef minnstu grunsemdir vakna um misnotkun á börnum. Með því að hætta að þegja. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en enn eru þeir til sem reyna að þagga þessa umræðu, með vægum dómum, véfenginum á sannleiksgildi framburðar barna og ýmsu öðru. Ég held að þjóðin sætti sig ekki við slíka þöggun.
Það er líka verðmætt skref fram á við að fara nú að fjalla um hlutskipti barna sem ekki hafa getað varið sig í umhverfi ókunnugra. Fyrst kom upp sterk umræða um hlutskipti heyrnarlausra barna, ömurlegt dæmi um þöggun. Breiðuvíkurmálið er annað dæmi um meðvitaða þöggun. Kannski er Byrgismálið þriðja dæmið, mér finnst menn ef til vill hafa meiri áhyggjur núna af peningunum en konunum sem í hlut áttu, en það er önnur saga. Gætir kannski fordóma í garð ,,þessara kvenna"? Og hver er sagan að baki neyslu þeirra og þess að þær eru svona auðsótt fórnarlömb? En umfjöllun ffjölmiðla er að minnsta kosti hetjuleg tilraun til að rjúfa þetta samsæri þöggunar og það er vel. Heiður þeim sem heiður ber.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega. En stjórnvöld eru það sem við kjósum yfir okkur og við ásamt fjölmiðlum eigum að veita þeim aðhald.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.2.2007 kl. 13:24
já ég ætlaði að segja það sama og Þrymur, það er þetta aðgerðaleysi hins opinbera sem er svo svívirðilegt. Það gerist alltaf trekk í trekk, eða öllu heldur er bara alltaf í gangi, að þau sem ráða fá upplýsingar og viðvaranir um glæpi en það truflar þau ekkert fyrren hryllingurinn er um garð genginn og þá fara þau bara í felur og byrja að búa til afsakanir og panta skýrslur. Þjóðin hefur ekki verið að standa sig í aðhaldinu heldur, en það er allt að batna. Ég tek undir eiginlega allt sem Anna segir.
halkatla, 6.2.2007 kl. 13:35
Æjá, Anna Karen, þetta með afsakanirnar og skýrslurnar, sem oft eru eitt og það sama, skýrslur eru einmitt allt of hentug þöggunaraðferð og þess vegna eru allir þessir fjölmiðlar, hvort sem er blogg eða ljósvaka-, vef- eða pappírsmiðlar, úrræði sem verður að nota út í ystu æsar. Það sem mér finnst þó mikilvægast er að það er að verða hugarfarsbreyting, í stað þess að vilja gleyma öllu þessu leiðinlega, neikvæða og óþægilega, þá er fólk tilbúið að horfast í augu við það og stjórnvöld eru aumingjar ef þau gera það ekki líka!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.2.2007 kl. 13:46
Vel skrifað og mælt. Ætli það geti verið að hugarfarsbreytingin sé raunverulega að gerast? Þegar ég las í gegn allt sem hér er skrifað þá allt í einu birti í huga mínum og ég hugsaði..það skyldi þó aldrei vera að við seúm að komast á þann stað að geta látið raunverulegar breytingar gerast. Hætt að líta undan og horfast í augu við það sem þarf að gera og laga. Óhrædd?
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 6.2.2007 kl. 19:45
Katrín, ég vona að þú hafir rétt fyrir þér. Ég sveiflast á milli þess að trúa því að nú sér vendipunktur og að finnast að verið sé að drekkja málinu enn einu sinni í skýrslufargani. En auðvitað er það ekki hægt ef nógu mikið aðhald er frá okkur sem erum komin af stað í umræðuna. Það verður þyngri róður að koma vitinu fyrir dómskerfið, en engin barátta er vonlaus nema sú sem ekki er háð.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.2.2007 kl. 13:55