Ólesnar spennusögur – Kindle og pappír
22.7.2010 | 19:43
Það er fátt sem gerir mig órólega og mér leiðist sjaldan, ef nokkrun tíma. En hins vegar verð ég að játa að ég finn fyrir smá ókyrrð og öryggisleysi er ég á ekki alla vega 2-3 ólesnar spennusögur innan seilingar. Fátt tæmir hugann eins vel og að lesa spennusögu fyrir svefninn og svo þjónar þessi iðja einnig því hlutverki að ýta gáfulegum hugsunum og geggjuðum hugmyndum á brott, en það er auðvitað valkvætt hvað hver og einn vill gera við svoleiðis lagað. Einstaka sinnum tek ég óskrifuðu minnisbókina framyfir spennusöguna á náttborðinu og krota hjá mér allar þessar hugsanir og hugmyndir. Það má stundum moða úr því að morgni.
Engu að síður er alveg nauðsynlegt að eiga svona slökkvilið við hendina og geta svæft allt hugarflug með góðri spennu fyrir svefninn. Um helgar má svo stundum grípa í bókina líka í vakningaferlinu, sofna aftur eða detta inn í spennuna sem góð spennusaga þarf að bjóða upp á og lesa sér til óbóta.
Nú er ég búin að baktryggja mig. Hlaða niður ókeypis forriti á tölvuna mína sem gerir að sumu leyti sama gagn og hið allt of dýra Kindle-lestól, að ég tali nú ekki um iPad-inn sem er enn dýrari. Hvort tveggja of dýrt til þess að ég hafi þurft að taka hina afdrifaríku ákvörðun um hvort henti mér betur. En nú get ég keypt og átt í tölvunni minni varasafn af spennusögum, þannig að strangt til tekið þá þarf ég aldrei að verða uppiskroppa með spennusögur fyrir svefninn. Til þess hefur ekki komið enn, en óneitanlega er þessi kostur betri en sá að renna út í Hagkaup (opin allan sólarhringinn í GB og Skeifunni) með stýrurnar í augunum eftir nýrri spennusögu. Það hef ég heldur ekki gert, en allur er varinn góður, er það ekki?