Bloggfærslur mánaðarins, september 2024

Þú verður að ... nei, alls ekki!

Fyllist alltaf alvarlegum efasemdum þegar einhver (stundum æst og) örugglega rosalega velviljuð manneskja byrjar setningar sínar á: ,,Þú verður að ..."

Nei, ég verð ekkert að, þótt þessi einstaklingur segi það. Eftir að ég ánetjaðist vatnslitamálun heyri ég stundum þessa setningu: ,,Þú verður að mála eitthvað á hverjum degi!" Þetta getur verið rétt fyrir þessa tilteknu einstaklinga, en örugglega ekki fyrir alla. Það merkilega er að þeir sem segja þetta eru alls ekki það fólk sem er hæfileikaríkast af þeim vatnslitamálurum sem ég hef verið svo heppin að kynnast. Engu að síður grunar mig að einhverjir þeirra lifi eftir þessu, meðvitað eða af tilviljun. En þeir hafa látið mig í friði fram til þessa. Stundum er eitthvað sem knýr mig til að vatnslita á hverjum degi, jafnvel oft á dag, en á milli koma mislöng tímabil sem ég læt það vera. 

Annað eldra dæmi (og náskyld yngri útgáfa af því) er setningin sem ég heyrði oft rétt eftir að ég hryggbrotnaði eftir að hafa dottið af hestbaki. ,,Það er ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan sé með." Rangt, það er vel hægt. Vissulega elskaði ég hestamennsku á unglingsárum, áður en ég lenti í slysinu, og var svo lánsöm að vera heimagangur hjá Heidi á Bala, fá að fara á reiðnámskeið og í ótal hestatúra með hestaleigunni, ef ekki var fullt í hópunum. Átti minn uppáhaldshest, hann Prins, og þetta voru góðir tímar. Skikkaði aldrei foreldra mína með mér. Þegar ég hætti útreiðum á fullorðinsárum, eftir slysið mitt, þá var það aldeilis ekkert vont fyrir fjölskyldulífið. Meðan börnin voru ung (þau urðu aldrei hestafólk) var meira að segja bara fínt að einhver væri heima að líta til með þeim, meðan minn maður var í reiðtúr. Einna mestur atgangur var í einstaklingi sem hældi sér fyrir að koma börnum sínum aftur á hestbak eftir sérhverja byltu, sem voru grunsamlega margar. Held að ekkert barnanna hafi heillast á endanum og ekki tryggði þessi lífsspeki hjónaband foreldranna heldur, sem samanstóð af einstaklingi sem elskaði hestamennsku og maka sem ég held að hafi ekki haft mikinn áhuga á henni. En ,,það var ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan væri með."

Þegar ég byrjaði í golfi fyrir rúmum áratug heyrði ég einstaka sinnum sama sönginn, en hafði lært af reynslunni og datt ekki í hug að skikka eiginmanninn, sem elskar enn hestamennsku og hefur engan áhuga á golfi, til að vera með mér í þeirri iðkan. Ég verð nefnilega ekki að ... né heldur hann, eða neitt ykkar, frekar en þið viljið. 


Grálynd eða gráglettin: Vistaskipti Gallerýs Grásteins og hundaheppni mín

Gallerý Grásteinn á Skólavörðustíg 4 setur skemmtilegan svip á bæinn. Skólavörðustígurinn er falleg gata og sem betur fer eru listagallerí enn áberandi hluti af götumyndinni og fallegasta húsið við götuna (að mínu mati) hýsir einmitt téð úrvalsgallerí, ennþá. Því miður virðist það vera að breytast og önnur starfsemi væntanleg í húsið. Góðu fréttirnar eru að galleríið heldur áfram í húsnæði skáhallt á móti núverandi húsnæði. Vondu fréttirnar eru að þar verður ekki sýningarsalur, eins og í núverandi húsnæði. 

unnamed (1)

Eftir ófáar ferðir á sýningar í sal Grásteins og reglubundið snuðr í búðinni góðu var ég orðin nokkuð vel kunnug þessu listamannarekna galleríi. Var staðráðin í að fá einhvern tima að sýna í salnum góða á efri hæðinni, því fallegri sýningarsal gat ég ekki hugsað mér. Eins og ein gallerískvenna orðar það svo skemmtilega: ,,Salurinn tekur svo vel utan um sýningarnar." Af einhverri rælni hafði ég samband við forsvarsfólk gallerísins á vormánuðum og hafði þá í huga að tryggja mér salinn einhvern tíma á næsta ári, því yfirleitt líða svona 18 mánuðir milli sýninganna minna, þegar ég er á annað borð að sýna. Fann strax á loðnum svörum að áhöld voru um sýningarhald á næsta ári og þegar mér var boðið að fá septembermánuð fyrir sýninguna mína stökk ég strax á það og sé ekki eftir því. Snemmsumars voru enn viðræður um framhaldið en þeim lyktaði þannig að þessari öflugu listastarfsemi í húsinu lýkur senn. Og þar með langri sögu lista og menningar í húsinu. Mín sýning verður líklega sú næstseinasta í þessu húsi. 

anna

Myndirnar með þessari færslu eru frá sýnikennslu Íslandsvinarins Vicente Garcia fyrr í sumar, en galleríið er hans heimahöfn á Íslandi. Aðrar eru frá yfirstandandi sýningu minni í galleríinu og sýna vel hvað salurinn er fallegur, og svo ein af ytra byrði hússins. 

vicente

Vissulega er ég glöð yfir því glópaláni að detta í hug að hafa samband einmitt á réttum tíma. Mér finnst samt afleitt að geta ekki haldið áfram að koma á góðar sýningar í þessu fína húsi, en óska auðvitað gallerísfólkinu allrar velgengni á nýja staðnum. Það er svo sannarlega ekki því að kenna að svona fór, því ekki stóð á því að teygja sig eftir þörfum til móts við kröfur leigusala. Sé sá orðrómur réttur, sem ég hef heyrt um hvað á að koma í staðinn í þetta hús, líst mér afleitlega á það. En tíminn mun leiða í ljós hvað er að gerast, en kannski ekki hvers vegna. 

gestir

Hef ekki áhyggjur af því að götumyndin neðst á Skólavörðustíg breytist ýkja mikið, ef ný starfsemi fer að lögum varðandi friðun hússins, sem hér má skoða: https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/skolavordustigur-4 en hvað með sálina? Hún hefur sannarlega verið nærð með listum og listiðnaði sem hefur átt skjól í húsinu. En ekki meir, ekki meir. 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband