Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022
Kemur sjómannadagurinn öllum við?
12.6.2022 | 22:26
Þegar ég var lítil vissi ég lítið af sjómannadeginum. Það var ekki fyrr en pabbi flutti til Seyðisfjarðar og ég fór að fara til hans á sumrin, að ég áttaði mig á því hvers konar roknadagur þetta væri. Pabbi var alltaf að reyna að koma því svo fyrir að ég yrði komin til hans á sumrin þegar sjómannadagurinn væri, en það stangaðist á við að geta haldið upp á afmælið mitt 4.júni fyrir vinkonurnar hér fyrir sunnan. Þess í stað sýndi hann mér skemmtilegar myndir sem hann hafði tekið og sagði mjög lifandi frá viðburðum dagsins þegar ég kom, yfirleitt örfáum dögum eftir herlegheitin. 17. júní, sem ég hélt yfirleitt uppá á Seyðisfirði, var víst bara svipur hjá sjómannadagssjóninni en nógu góður samt.
Það þurfti spákonu til að vekja athygli mína á því að örlög fjölskyldu minnar hefði snarsnúist vegna drukknunar sjómanns í fjölskyldunni. Aha, hugsið þið, þetta er hægt að segja við alla. Já, eflaust, en það vill bara svo til að þetta fékk mig til að hugsa um hann langafa sem lést frá eiginkonu og tveimur ungum börnum, þar á meðal ömmu Kötu, þá bara rúmlega eins árs. Amma var sett til vandalausra eða á munaðarleysingjahæli, eins og hún kallaði það og man víst eftir sér þar. Langamma fluttist til Seyðisfjarðar og eignaðist þar nýja fjölskyldu, vel metinn kennara og/eða skólastjóra og eignaðist með honum sjö börn í viðbót. Amma mundi eftir sér á þessu munaðarleysingjahæli (hef ekki fundið heimildir um hvað það var, en þar var slæðingur af börnum). Tvær vel stæðar frænkur í veitingarekstri á Uppsölum í Reykjavík ákváðu að finna litla, ljóshærða stúlku og taka hana að sér, en amma (sem var hvorki lítil né ljóshærð) ákvað að þær tækju hana, sem varð. Hún var viljasterk kona. Síðar ætluðu þær að taka einnig að sér aðra, litla og ljóshærða stúlku, en amma hrakti hana á brott og það sagði hún mér sjálf. Langamma á Seyðisfirði sagði börnum sínum þar að amma væri prinsessa í Reykjavík, og víst var um það að farið var með hana sem slíka, en hún taldi að mamma hennar hefði alveg orðið afhuga henni. Magga systir hennar, elst þeirra sjö yngri, sagði okkur mömmu hins vegar frá þessu.
En sjómaðurinn langafi minn, hann Ólafur, sem var víst vænsti maður? Fyrir nokkrum árum fór ég að grufla aðeins meira í allt of stuttri jarðvist hans. Hann var vélstjóri og aðeins nýorðinn 27 ára þegar hann lést. Eitthvað vissi amma af því að hann hefði tengst Kötlunum í Kotvogi aðeins meira en Íslendingabók gefur upp núna en mér hefur ekki tekist að sanna það né hrekja, enda skiptir það minnstu máli, þetta var bara almannarómur. Hins vegar fann ég fyrir víst fréttir af því þegar hann fórst, eða réttara sagt þegar stórbóndinni í Nesi, sem mikið er mærður, fórst og með honum var maður sem ekki var einu sinni getið með nafni í einni fréttinni. Það var langafi. Mynd sýnir þrjár af fréttunum (þar sem hann er nafngreindur), önnur ömmu eftir að frænkurnar ættleiddu hana og sú þriðja er um langafa í Íslendingabók.